Fimmtudagur 11. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Dagur minnist Ellýjar: „Það var alltaf birta yfir henni, rósemi og fágun“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur minnist Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur í afar fallegri Facebook-færslu en þau voru bæði samstarfsmenn og vinir.

Ellý Katrín Guðmundsdóttir, fyrrum borgarritari var borin til grafar í gær en hún hafði glímt við alzheimer-sjúkdóminn um nokkurt skeið. Í gær birti vinur hennar, Dagur B. Eggertsson falleg minningarorð á Facebook.

„Í dag var Ellý Katrín Guðmundsdóttir, fyrrverandi borgarritari og staðgengill minn og kær vinkona, borin til grafar, langt um aldur fram. Myndin sem fylgir er hversdagsleg en mér þykir óskapega vænt um hana. Hún er tekin í einum af fjölmörgum og fallegum göngutúrum þeirra hjóna um borgina þar sem sem við rákumst hvort annað, í veikindum Ellýjar. Hinn einstaki eiginmaður hennar, Magnús Karl, tók myndina. Ég skrifaði minningargrein um Ellý sem vonandi birtist á morgun eða næstu daga – en fylgir hér með í ögn lengri gerð en komst fyrir í blaðinu.“ Þannig hóf Dagur færsluna en hér fyrir neðan má lesa minningarorðin í heild sinni:

„Ellý – minningarorð

Ellý mætti mér með breiðu brosi og bliki i augum. Þetta var okkar fyrsti fundur. Ég var að hitta hana, yfirmann umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar, sem formaður stjórnkerfisnefndar. Ég var nýbyrjaður í borgarstjórn. Ellý tók mér vel, eins og alltaf, og sagði mér af sýn sinni á fyrirkomulag mála. Það var alltaf birta yfir henni, rósemi og fágun, og stutt í bros og hlátur. Og undir brann hugsjónaeldur fyrir loftslaginu, umhverfinu og betri borg. Við vorum algerir samherjar í þeim leiðangri að hafa endaskipti á forgangsröð málaflokka og áherslna hjá borginni. Í stað þess að embætti borgarverkfræðings væri yfir öllu sem við kæmi skipulagi og umhverfismálum áttu umhverfismálin og borgarskipulagið að marka sýnina og gefa tóninn, en verklegar framkvæmdir og samgöngumálin að taka mið af því, en ekki öfugt. Ellý varð fyrsta sviðsstýra hins nýja umhverfissviðs borgarinnar, sem stofnað var að tillögu stjórnkerfisnefndar eftir samtöl okkar, árið 2005. Fáir ef nokkrir mörkuðu dýpri spor varðandi umhverfismál og umhverfisáherslur á vettvangi Reykjavíkurborgar síðustu áratugi.

Ellý var afburðamanneskja á sínu sviði. Vel menntuð og víðsýn og smitaði alla sem með henni unnu af ást sinni á umhverfinu og hinu stóra samhengi hlutanna. Um leið brann hún fyrir því að allt starfsfólk borgarinnar, hvort heldur í garðyrkju eða sorphirðu eða hverju því sem kom umhverfinu við. Hún lagði sig fram um að hver og einn áttuðu sig á mikilvægi starfa sinna í óslitinni grænni keðju. Hún var hluti af nýrri kynslóð öflugra kvenna sem réðust til borgarinnar vegna hæfileika sinna, menntunar og hæfni þar sem aðeins karlar höfðu ráðið ríkjum áður. Þetta varð til þess að Reykjavík varð að forystuafli í umhverfishugsun á landsvísu, einsog borgin hefur verið æ síðan. Ellý og samstarfsfólk hennar átti ekki lítinn hlut í því. Hún hafði hægverska leið til að leiðbeina og kenna þar sem þekking og þolinmæði hornsteinarnir. Virkur og faglegur stuðningur við kjörna fulltrúa og umboð samstarfsfólks til athafna var lykilverkfærið og leiðin fram á við.

Ellý fór frá borginni til að verða forstjóri Umhverfisstofnunnar ríkisins en var fljótlega aftur komin til baka. Hún notaði kurteisleg orð til að lýsa verunni hjá ríkinu en ég held að henni hafi einfaldlega leiðst óbærilega að vinna fyrst og fremst með pappír og texta. Hún vildi alvöru stefnumótun og aðgerðir. Eftir endurkomuna til borgarinnar varð Ellý borgarritari og staðgengill borgarstjóra. Þá unnum við nánar saman en nokkru sinni fyrr. Hún sóttist eftir því að fara tímabundið til starfa með loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París 2015. Enginn var betur til þess fallin og við hlökkuðum til að nýta okkur þá þekkingu og sambönd sem Ellý myndi afla sér eftir að heim yrði komið. Úr því varð minna en okkur dreymdi um.

- Auglýsing -

Eftir heimkomu Ellýjar dróst smám saman upp mynd, sem hún lýsti síðar og réttilega svo að hún væri ekki söm og áður. Þar kom að við áttum trúnaðarfund tvö þar sem við ræddum áhyggjur mínar og líðan hennar. Það var, einsog öll önnur samskipti okkar, gott samtal en um leið einn erfiðasti fundur sem ég hef átt á löngum ferli. Ellý hefur sjálf sagt frá þessum degi á sinn einstaka og hugrakka hátt. Hún fór strax í leyfi og rannsóknir sem við tóku sýndu það sem við óttuðumst mest, að hún væri með snemmkominn alzheimer-sjúkdóm aðeins rétt rúmlega fimmtug. Þrátt fyrir greininguna kom Ellý aftur til starfa hjá Reykjavíkurborg en hvarf nú á sinn fyrri vettvang á umhverfissviði borgarinnar, sem ég veit að gaf henni mikið ekki síður en samstarfsfélögum hennar.

Við tóku erfið ár sem lituðust æ meira af framgangi sjúkdómsins. Ég hef ekki dáðst að sambandi nokkurra hjóna einsog þeirra Ellýjar og Magnúsar Karls í því sem á eftir fylgdi. Ellý sýndi styrk sinn og hugrekki með því að ræða opinskátt, af hreinskilni, en líka húmor, um sjúkdóm sinn og lífið í glímunni við hann. Það er ótölulegur fjöldi fólks og fjölskyldna sem hefur sótt styrk í frásagnir hennar og einstaklega fallegt samband þeirra Magnúsar Karls. Magnús hefur sýnt ofurmannlegan styrk í öll þessi ár og verið ótrúlega opinn um ljós og skugga á þessari löngu og erfiðu leið. Það var magnað að upplifa hvernig persónuleiki Ellýjar, eðlislæg gleði og kærleikur til annars fólks og lífsins birtist í öllu viðmóti hennar og samskiptum, líka þegar hallaði undan fæti og sjúkdómurinn tók smám saman völdin. Því fylgdi sannarlega sorg að fylgjast með úr fjarlægð þótt mannleg reisn og fegurð hafi einkennt svo margt í þessum átakanlega sjúkdómsgangi.

Eftir stendur gríðarlega stór hópur fólks í þakkarskuld við Ellý, þar á meðal er ég sannarlega, en líka borgin okkar og umhverfisumræðan á Íslandi og sá ótölulegi fjöldi einstaklinga og hópa sem naut góðs af leiðsögn hennar, atfylgi og verkefnum sem Ellý átti þátt í að vinna að og hrinda í framkvæmd. Að ógleymdu framlagi Ellýjar til opinnar umræðu um alzheimer-sjúkdóminn og heilabilun.

Við Arna viljum votta Magnúsi Karli, Ingibjörgu og Guðmundi og öllum öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur.“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -