Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Dýravæn kaffihús: Algengt að rekstraraðilar beri fyrir sig ofnæmishættu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frá og með 28. október árið 2017 var í fyrsta sinn leyfilegt að fara með hunda og ketti á kaffihús og veitingastaði á Íslandi, eftir að reglugerð þess efnis hafði verið samþykkt.

Reglugerðin er nokkuð þröng og er í raun bara almennt leyfi frá hinu opinbera – hver og einn rekstraraðili getur svo ákveðið fyrir sig hvort hann leyfi dýr (hunda og ketti) inni á sínum stað.

Til þess að geta leyft gæludýr þurfa staðirnir þó að uppfylla ákveðin skilyrði og staðla frá Heilbrigðiseftirlitinu. Til að mynda skal tryggt að hundar og kettir séu eingöngu í veitingasölum en ekki í kringum staði þar sem matvæli eru meðhöndluð eða geymd.

Í reglugerðinni segir meðal annars:

Rekstraðilar veitingastaða í Reykjavík, sem nýta sér þessa heimild, skulu tilkynna það til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.

Rekstraraðilar veitingastaða eru ábyrgir fyrir öryggi matvæla. Þeim ber að tryggja að matvæli sem þeir framleiða og framreiða séu varin gegn mengun. Kjósi þeir að veita hundum og köttum (hér eftir dýr) aðgang að veitingasal skulu þeir tryggja að matvæli verði ekki fyrir mengun af völdum dýranna. Rekstraraðila er heimilt að vísa frá viðskiptavinum með dýr.

- Auglýsing -

Aðstaða og framkoma við dýrin skal vera þannig að velferð þeirra sé tryggð. Dýr þurfa að vera í taumi og eigandi skal halda þeim hjá sér.

Ísland eftirbátur nágrannalandanna

Skiptar skoðanir voru á reglugerðinni þegar hún var samþykkt á sínum tíma. Formaður Félags ábyrgra hundaeigenda, Rakel Linda Kristjánsdóttir, fagnaði henni til að mynda, á meðan formaður Astma- og ofnæmisfélagsins, Fríða Rún Þórðardóttir, var gagnrýnin á hana og taldi víst að hún myndi skerða aðgengi fólks að veitingastöðum.

Svipuð umræða kom upp þegar gæludýr voru leyfð í strætisvögnum, en ákall þess efnis hafði verið hávært frá gæludýraeigendum um nokkra hríð, enda hafa gæludýr í ól almennt verið leyfð í almenningssamgöngum í nágrannalöndum okkar um langa hríð. Ekki virðast umræður um ofnæmi jafnháværar þar.

- Auglýsing -

Ísland er á heildina litið nokkuð aftarlega á merinni þegar kemur að leyfum og frjálsræði tengdu gæludýrahaldi í samanburði við nágrannalöndin. Til að mynda er algengara en ekki að leiguíbúðir banni dýrahald og dýraeigendur geti því lent í töluverðu basli þegar skipta þarf um leiguhúsnæði. Í fjölbýlishúsum þarf ávallt leyfi frá meirihluta eigenda fyrir dýrahaldi – nema íbúðareigandinn sem vill bæta ferfætlingi við fjölskylduna sé með sérinngang.

Til samanburðar er það algengara en ekki í Þýskalandi að leigusalar hafi ekkert út á eðlilegt dýrahald að setja, svo lengi sem látið sé vita af því fyrirfram. Þeir sem banna það eru undantekningin, frekar en reglan. Þar eru hundar sömuleiðis leyfðir á flestum veitingastöðum, kaffihúsum, verslunarmiðstöðvum, skemmtigörðum og almenningssamgöngum. Kettir ganga iðulega lausir, en sé fólk með ketti í ól á sama hátt og hunda gilda sömu reglur um þá og hundana.

Kattakaffihús hafa lengi verið til um allan heim og notið vinsælda. Fyrsta kattakaffihúsið á Íslandi var opnað þann 1. mars 2018 í Bergstaðastræti og heitir einfaldlega Kattakaffihúsið. Þar eiga alltaf nokkrir kettir í heimilisleit búsetu og geta réttir aðilar tekið þá að sér að vel ígrunduðu máli. Á Kattakaffihúsinu er notalegt að tylla sér niður í mjúkum og loðnum félagsskap, sötra kaffi og gæða sér á ljúffengu kruðeríi. Eins og gefur að skilja eru hundar ekki leyfðir þar.

Mannlíf fór á stúfana og athugaði nokkur kaffihús á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til þess hvort þau leyfðu hunda og ketti.

 

Dæmi um kaffihús sem hægt er að taka ferfætlinga með sér á eru:

Kaffi Laugalækur, Reykjavík (Ætlast er til að setið sé á ákveðnum stað með dýrin)

Kaffi Áslákur, Mosfellsbær

Salka Valka, Reykjavík

Coocoo’s Nest, Reykjavík

Luna Flórens, Reykjavík

Pallett, Hafnarfjörður

Grái Kötturinn, Reykjavík

Iða, Reykjavík

Kaffi Loki, Reykjavík (Reglur virðast þó ekki formlegar. Hundar mega ekki vera stórir. Kettir almennt velkomnir.)

Babalú, Reykjavík

 

Mun algengara er að kaffihús leyfi ekki gæludýr. Keðjur á borð við Te og kaffi og Kaffitár eru dæmi um slík. Algengt er að rekstraraðilar beri fyrir sig ofnæmishættu, en önnur telja sig hreinlega ekki hafa kost á að leyfa dýr, út frá reglugerðinni, til að mynda ef eldhús eru hálfopin.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -