Laugardagur 27. apríl, 2024
6.8 C
Reykjavik

Eliza flutti til Íslands fyrir 20 árum: „Ég mætti ekki sömu fordómum og margir aðrir innflytjendur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Eliza Reid forsetafrú Íslands rifjar upp í færslu á Facebook er hún kom til Íslands sem innflytjandi fyrir 20 árum síðan en hún er frá Kanada.

Í færslunni fer Eliza yfir það sem varð til þess að hún ákvað að flytja með Guðna Th. til Íslands en þau voru þá nýtrúlofuð. Þá fer hún einnig yfir það hvað það gat verið erfitt fyrir hana að vera innflytjandi og nefnir nokkur dæmi: „ Ég skrifaði í dagbókina mína, alveg án nokkurrar kaldhæðni, um þann vanda í þessu nýja landi að sum matvæli skorti alveg, einkum halloumi-ost (sem fæst núna) og gott creme fraiche (sem ég hef ekki enn fundið). Ég man líka að mánuðum saman gat ég ekki leigt spólur á vídeóleigunni því til þess þurfti kennitölu og þar var kerfið bara uppfært tvisvar á ári. Já, það var svo sannarlega erfitt fyrir mig að vera innflytjandi …“ Tók Eliza sérstaklega fram að hún hafi sjálf komið frá ríku landi og hafi haft innfæddan maka sem hjálpaði henni að venjast nýjum venjum og siðum og bætti við: „Þannig að ég mætti ekki sömu fordómum og margir aðrir innflytjendur.“

Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

„Í dag eru slétt 20 ár frá því að ég flutti til Íslands. Skömmu síðar það ár keyptum við Guðni fyrstu íbúðina okkar (97 fermetrar í 101 Reykjavík fyrir 10,8 milljónir króna!). Ég fékk vinnu og byrjaði á íslenskunámskeiði (8 klukkustundir í viku, að loknum fullum vinnudegi). Ég skrifaði í dagbókina mína, alveg án nokkurrar kaldhæðni, um þann vanda í þessu nýja landi að sum matvæli skorti alveg, einkum halloumi-ost (sem fæst núna) og gott creme fraiche (sem ég hef ekki enn fundið). Ég man líka að mánuðum saman gat ég ekki leigt spólur á vídeóleigunni því til þess þurfti kennitölu og þar var kerfið bara uppfært tvisvar á ári. Já, það var svo sannarlega erfitt fyrir mig að vera innflytjandi …

Ég flutti hingað vegna þess að við Guðni, þá nýtrúlofuð, höfðum tekið þá ákvörðun að byggja samlíf okkar á Íslandi, eftir að hafa kynnst á Englandi og búið þar í tæp fimm ár. Nú hafði hann lokið sínu námi og var alltaf staðráðinn í að flytja heim þar sem hann gæti verið nærri dóttur sinni af fyrra hjónabandi. Ég flutti því vegna hans, en ég vildi búa hér sjálfrar mín vegna. Strax frá fyrsta degi í nýju landi var lykilatriði fyrir mig að skapa minn eigin tilverugrundvöll, óháð maka mínum. Ég vildi skapa mér starfsframa, eignast eigin vini, eigin áhugamál og tómstundir.
Ég var heppin að því að leyti að innan mánaðar fann ég starf þar sem nám mitt og reynsla nýttust vel og þar eignaðist ég góða vini. Ég naut þess líka að geta strax tekið krefjandi námskeið í íslensku þannig að smám saman náði ég betri tökum á tungumálinu. Svo gekk ég í kór og tók að mér sjálfboðastörf í Rauðakrossbúðinni á Landspítalanum. Þar að auki vissi ég að ég væri ekkert á förum hvað úr hverju. Ég vissi að það var bara ekki í boði að hverfa á braut þegar skammdegið helltist yfir, þegar ég pirraði mig á því hversu erfitt það gat stundum verið að kynnast heimafólkinu, þegar ég missti vinnuna eftir ár og fann ekki annað starf í dálítinn tíma. Ég ákvað mæta öllum þessum andbyr og bugast ekki.
Allt þetta sýnir líka hversu heppin ég var þegar ég kom hingað. Ég gat lært íslensku því ég var í vel launuðu starfi og gat greitt fyrir námskeiðin. Ég bjó í miðbænum og gat gengið eða tekið strætó fyrir starfið og félagslífið. Ég var með innfæddum maka sem studdi mig í hvívetna og hjálpaði mér að skilja nýja siði og venjur. Ég kom frá öðru ríku landi og minn bakgrunnur var þannig að ég mætti ekki sömu fordómum og margir aðrir innflytjendur.
Í ágústlok fyrir 20 árum átti ég mér þann draum að setjast hér að, var bæði spennt og dálítið kvíðin yfir því að ætla að lifa um langt skeið á þessari eyju úti í hafi. Þá gat ég auðvitað ekki séð fyrir að við Guðni myndum eignast fjögur, yndisleg börn til viðbótar við hans mögnuðu dóttur, að ég myndi stofna ritlistarbúðir sem hafa gengið mjög vel, gefa út bók og hvað þá að verðandi eiginmaður minn yrði næsti forseti landsins. Þetta hefur svo sannarlega verið mikið ævintýri. Megi næstu 20 ár vera eins góð og árin eftir það líka!
(Ég fann ekki margar myndir frá fyrstu árunum hér en hér þegar við vorum að flytja í íbúðina okkar, með ósamsett rúm úti í horni og ég í stuttermabol sem ég keypti á hundrað daga bakpokaferðalagi sem ég lagðist í áður en ég flutti hingað).“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -