Föstudagur 26. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

„Ég gæti verið dáinn núna“ – Páll Óskar segir mistök að fresta göngunni – Hinsegin fólk í sárum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er hræðilegt að horfa upp á svona atburði. Ég sendi samúðarkveðjur til aðstandenda þeirra látnu og annars fólks sem þessi hroðaverk snerta sérstaklega. Ég vil hvetja allt hinsegin fólk til að standa saman á svona tímum. Haldið hvert utan um annað, leitið til vina ykkar og haldið áfram að vera stolt. Það er sorgardagur í dag og sorgin er í aðalhlutverki en styrkur okkar, kjarkur og stolt mun ekki þverra á kostnað ótta. Við erum sterkt samfélag ef við stöndum saman.“

Þetta skrifar Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna 78, á Facebook um voðaverkin sem framin voru í Noregi í nótt. Tveir létu lífið og yfir 20 særðust í skotárásinni í Osló. Í morgun hefur fjöldi hinsegin Íslendinga vottað Norðmönnum samúð sína enda fólk harmi slegið vegna frétta af hryðjuverkum svo nærri okkur. Þó sorgin sé mikil þá er baráttuandi mikill meðal margra. Skotárásin sýni enn og aftur mikilvægi mannréttindabaráttu hinsegin fólks.

„Osló – hugurinn hjá fórnarlömbum og aðstandendum, hinsegin samfélaginu og allri norsku þjóðinni vegna þessarar hræðilegu skotárásar. Enn og aftur sannast að full þörf er á að halda mannréttindabaráttu hinsegin fólks áfram,“ skrifar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, óttast að sá minnihluti almennings sem stendur gegn hinsegin fólki sé að verða örvæntingarfyllri.

„Það er ljóst að bakslag gegn frjálslyndi og frelsi, og sérstaklega gegn réttindum hinsegin fólks, er orðið að veruleika. […] Vissulega er meirihluti fólks ekki búinn að snúast á sveif með þessum öfgum. En reiði minnihlutahópurinn sem er á móti okkur, sem er á móti frelsi og jafnrétti, er orðinn örvæntingarfyllri. Þau upplifa að þau séu í raun búin að tapa slagnum um almenningsálitið, svo í staðinn svífast þau einskis í að misnota reglurnar til að ná sínu fram þar sem þau geta og ráðast fram með ofbeldi þar sem þau sjá ekki fram á að ná sínu fram. Það er ljóst að það er viss hópur sem ætlar sér ekki að una því að við fáum að vera til í friði og njóta jafnréttis á við önnur. Og einhver hluti þeirra vill frekar myrða okkur en taka á hættu að við gætum verið hamingjusöm og frjáls.“

Hanna Katrín Friðriksson, þingkona Viðreisnar, er sömuleiðis hugsi yfir þessu bakslagi. „Þetta eru þungir og erfiðir dagar. Hæstiréttur Bandaríkjanna afnemur stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til þungunarrofs. Afleiðingarnar eiga eftir að verða skelfilegar, auðvitað fyrst og fremst fyrir konur þar í landi, en þessi óskiljanlega afstaða mun efla kvenfjandsamleg viðhorf og aðgerðir víða um heiminn. Hatursárás í Osló gegn hinsegin samfélaginu. Því miður ekkert nýtt, nema að því leyti að þessi hryllingur gerist í Noregi. Í norrænu velferðarríki. Hvað næst? Hvar? Þegar vegið er að mannréttindum eru engin óhult. Þetta bakslag kemur okkur öllum við. Við verðum að hætta að skemmta skrattanum. Þetta er dauðans alvara.“ skrifar hún.

- Auglýsing -

Eiginkona hennar, Ragnhildur Sverrisdóttir upplýsingafulltrúi, tjáir sig einnig og skrifar einfaldlega: „Ég er orðlaus. Sorgmædd. Hrædd. Reið.“

Gleðiganga Norðmanna átti að fara fram í dag en henni hefur verið aflýst. Sumir telja það mistök, til að mynda, Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-samtakanna á Íslandi. Hann skrifar: „Árásin á London Pub. Svo ótrúlega sorgleg. Missum aldrei trú á ástina og lífið. Gleðigangan hefði átt að eiga sér stað í dag, ekki fella niður. Ekki gefast upp fyrir hatrinu.“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona veltir þessu atriði fyrir sér á Facebook. Hún skrifar:

- Auglýsing -

„Frelsið er dýrmætt. Hefðu norsk stjórnvöld átt að halda gleðigöngunni til streitu þrátt fyrir þessa árás? Auðvitað ekki ef talið er að fólki sé hætta búin og frekara ofbeldi í vændum en ef þetta var árás eins brjálaðs manns þá hefði kannski verið sterkari leikur að sýna hatrinu í tvo heimana og standa með kærleikanum þrátt fyrir árásina. Ég veit það ekki, velti þessu bara fyrir mér. Hvað sem öðru líður þá eru allir hatursglæpir viðbjóðslegir. Þetta er hræðilega sorglegur heimur sem við búum í. Ástin er merkilegasta aflið í heiminum. Allt annað er drasl.“

Sigursteinn Másson fjölmiðlamaður tekur undir með henni. Hann segir í athugasemd við færslu Steinunar: „Ég hef verið að hugsa um það sama í morgun. Af öryggisástæðum, á meðan verið er að ganga úr skugga um að það eru ekki fleiri með honum í hatursglæpnum, þá er líklega réttast að halda ekki hátíðina. Hefði þó verið réttara, held ég, að fresta Pride um óákveðinn tíma í stað þess að aflýsa.“

Páll Óskar er á sama máli en hann skrifar á Facebook: „Ég hef tvisvar troðið upp á Oslo Pride og London Pub. Þetta stendur mér svo nærri, að fyrir mér gæti þessi frétt alveg eins verið um Spotlight eða Kiki. Þetta hefði auðveldlega getað verið ég. Ég gæti verið dáinn núna. Let that sink in.

Ég skil mæta vel að norsku Gleðigöngunni sé frestað á meðan verið er að athuga hvort þessi hryðjuverkamaður hafi verið í vitorði með fleirum. En þar sem það er engu líkara en að hér sé ein brotin sál að verki, (samkvæmt þessari frétt) þá myndi ég persónulega alls ekki fresta göngunni. Nú er einmitt rík ástæða til að fara í tilfinningaþrungna og kraftmikla göngu. Ég vona að þau fresti um viku, í mesta lagi, og kýli svo á það.

Það eina sem maður lærir af þessum ógeðslegu fréttum vikunnar, hinsegin fólk drepið í Noregi – og skertur réttur kvenna til þungunarrofs í Bandaríkunum – er að þessi barátta milli haturs og kærleika verður ALDREI BÚIN. ALDREI BÚIN. ALDREI.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -