Fimmtudagur 18. júlí, 2024
13.1 C
Reykjavik

Jón vill láta rannsaka meinta glæpi sína: „Þetta er hálfgert örþrifaráð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Jónsson þjóðfræðingur á Hólmavík á Ströndum hefur nú beðið sveitarstjórn Strandabyggðar um leyfi til að hefja undirskriftarsöfnun þar sem þess er krafist að rannsókn verði gerð á meintum glæpum Jóns, sem hann hefur verið sakaður um af starfsfólki Strandabyggðar. Eiginkona hans hefur sagt upp starfi sínu og vill flytja úr bæjarfélaginu vegna málsins.

Jón Jónsson.
Ljósmynd: Reynir Traustason

Þjóðfræðingurinn Jón Jónsson segist hafa setið undir ásökunum um stórfelldan þjófnað á fjármunum úr sjóðum Strandabyggðar, auk annarra glæpa, af hendi „lykilstarfsmanna“ sveitarfélagsins. Og nú vill hann að meintu glæpir hans verði rannsakaðir en meðal ásakana sem hann hefur fengið er stuldur upp á ríflega 61 milljónir króna. Jón skrifaði um málið á Facebook í gær:

„ÍBÚAKOSNING UM RANNSÓKN Á MEINTUM GLÆPUM

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók fyrir erindi frá mér á fundi sínum í vikunni. Þar var ég að tilkynna að ég ætla að standa fyrir undirskriftasöfnun og fara fram á íbúakosningu í sveitarfélaginu. Málið snýst um þær ásakanir frá lykilstarfsfólki Strandabyggðar sem ég sjálfur hef þurft að sitja undir, m.a. um sjálftöku fjármuna úr sjóðum sveitarfélagsins á meðan ég sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili. Einungis er miðað við þær skriflegu ásakanir sem bornar hafa verið fram af starfsfólki sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili. Ég vil semsagt að meintir glæpir mínir verði rannsakaðir af óháðum aðila og þessar ásakanir um leið. Það er allra hagur að öll þessi mál séu upplýst og ef um sjálftöku úr sveitarsjóði er að ræða á auðvitað að krefjast endurgreiðslu.“

Þannig hefst færsla Jóns en hann segist vera að þessu af því að hann sætti sig ekki við „þessa atlögu að mannorði“ sínu og að um „hrein ósannindi og rógburð sé að ræða“.

„Hvers vegna ertu að þessu? kann það fólk að spyrja, sem finnst betra að allt sé í ró og spekt og engum bát sé ruggað. Það er vegna þess að staðan hefur ekkert breyst frá því að þessar ásakanir voru bornar fram, síðasta haust. Ég sætti mig ekki við þessa atlögu að mannorði mínu og tel að um hrein ósannindi og rógburð sé að ræða.“

- Auglýsing -

Jón segist hafa árangurslaust reynt að kalla eftir rökstuðningi við ásökunum en engin svör fengið.

„Ég hef árangurslaust kallað eftir rökstuðningi fyrir þessum ásökunum. Engin svör eða sönnunargögn hafa þó verið lögð fram, en sveitarstjórn ýjar að því að slík gögn séu fyrir hendi – „sem til er hjá sveitarfélaginu“, segir í fundargerð frá desember á síðasta ári. Ég óskaði skýringa á þessu orðalagi, en fékk heldur engin svör við því. Í framhaldinu óskaði ég svo eftir að fá afhent öll gögn sem tengjast mér á tilteknu tímabili úr skjalasafni Strandabyggðar, með tilvísun til upplýsingalaga (hver einstaklingur á rétt á gögnum í skjalasöfnum stjórnvalda þar sem um hann er fjallað). Þetta sendi ég inn í janúar síðastliðnum. Þar voru þó engin sönnunargögn um meintan glæpaferil minn.“

En ástæðan fyrir því að Jón vill gera eitthvað í málinu er líka önnur, eiginkona hans vill flytja úr Strandabyggð vegna málsins.

- Auglýsing -

„Það er satt best að segja líka annað sem er að ýta á mig að rekast í þessu, en eingöngu eigin metnaður fyrir því að mannorð mitt sé í skikkanlegu ástandi og orðsporið sanngjarnt. Ester konan mín tapaði að nokkru leyti starfsgleðinni í tengslum við þessar ásakanir og illt umtal sem varð áberandi um fólk, félög og menningarstofnanir hér í sveit. Hún er búin að segja upp sínu góða starfi á Sauðfjársetrinu og ætlar að hætta í sumarlok. Umræðan fær þannig meira á suma en aðra og ekkert við því að segja. Ester vill flytja suður á bóginn, segir að það sé ómögulegt að búa í samfélagi þar sem forsvarsfólk sveitarfélagsins getur fullyrt hvað sem er um aðra, án þess svo að þurfa að bera ábyrgð á orðum sínum eða sanna ásakanir. Mig langar að búa hér lengur og er í ansi skemmtilegu starfi. Það er kannski dálítið barnalegt af mér að halda að óháð rannsókn á þessum ásökunum geti breytt einhverju í þessum efnum, en ég held samt í vonina og er viss um að hún myndi hreinsa andrúmsloftið í samfélaginu dálítið.“

Málið var tekið fyrir á fundi hjá sveitarstjórninni á þriðjudag en ætlar hún að taka sér tíma til að skoða það með lögfræðingi. Einn meðlimur stjórnarinnar þurfti að víkja af fundinum á meðan mál þetta var rætt en það var Þorgeir Pálsson en Grettir Örn Ásmundsson tók sæti hans á meðan. Þorgeir kom svo aftur á fundinn þegar málið hafði verið tekið fyrir.

„Hreppsnefndinni tókst ekki að afgreiða málið á fundinum á þriðjudaginn, hún virtist ekki hafa undirbúið sig nógu vel. Þau ætla að taka sér tíma til að skoða málið með lögfræðingi, en niðurstaðan hlýtur þó að verða sú að leyfa undirskriftasöfnun í samræmi við lög og efna svo til íbúakosningar um rannsóknina í framhaldinu. Mér finnst augljóst að öll geti kosið með rannsókn, bæði þau sem trúa ásökunum um afbrot og líka hin sem halda að þær séu yfir strikið.“

Segir Jón að sveitastjórnin hafi frestað að taka afstöðu í málinu en verði að svara í síðasta lagi 4. júlí en þangað til megi hann ekki hefja undirskriftarsöfnunina. „Ég skil ekki af hverju málinu var slegið á frest, í staðinn fyrir að svara strax.“

Mannlíf ræddi stuttlega við Jón í síma. „Þetta er ein leiðin sem fólk hefur til að fá mál tekin fyrir ef það gengur ekkert annað. Þetta er hálfgert örþrifaráð,“ segir Jón í samtali við Mannlíf.

Hér fyrir neðan má lesa bréf Jóns til sveitastjórnarinnar:

TILKYNNING UM UNDIRSKRIFTARSÖFNUN Í SVEITARFÉLAGINU
Berist sveitarstjórn Strandabyggðar

Ég tilkynni hér með, með vísun til sveitarstjórnarlaga, um fyrirhugaða undirskriftasöfnun í sveitarfélaginu þar sem óskað verður eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðar sveitarfélagið. Ætlunin er safna undirskriftum til að kosið verði um þá kröfu til sveitarfélagsins að það standi fyrir því að gerð verði óháð rannsókn á ásökunum lykilstarfsmanna sveitarfélagsins, sveitarstjóra annars vegar og íþrótta- og tómstundafulltrúa hins vegar, í garð íbúa og fyrrverandi sveitarstjórnarmanns, Jóns Jónssonar kt. 050468-4969 þjóðfræðings á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð.

Sérstaklega verði skoðaðar ásakanir um meinta sjálftöku Jóns á fjármunum úr sveitarsjóði í eigin þágu að upphæð kr. 61.423.961.- árin fyrir síðustu kosningar, en einnig aðrar ávirðingar sem bornar hafa verið fram. Tekið skal skýrt fram að hér er eingöngu um að ræða ásakanir sem settar hafa verið fram skriflega af umræddu starfsfólki Strandabyggðar og á núverandi kjörtímabili, þannig að málið beinlínis hlýtur að eiga heima á borði núverandi sveitarstjórnar. Krafan snýr einnig að því að niðurstaða þessarar óháðu rannsóknar verði síðan birt opinberlega.

Hagmunir sveitarfélagsins af því að málið sé upplýst er augljós, enda er eðlilegt að gerð verði krafa um endurgreiðslu ef um slíka sjálftöku úr sveitarsjóði er að ræða. Sama gildir um hagsmuni þess sem fyrir þessum ásökunum hefur orðið, það hlýtur að vera öllum ljóst að öll þátttaka hans í samfélaginu veltur á því að upplýst verði hvort ásakanir byggi á raunveruleikanum eða séu rógburður og ósannindi. Slíkt skiptir í senn verulegu máli fyrir stöðu viðkomandi á vinnumarkaði, í félagsstörfum, daglegu lífi og við ákvarðanatöku fjölskyldunnar um áframhaldandi búsetu á svæðinu.

Ábyrgðarmaður:
Jón Jónsson, kt. 050468-4969, Kirkjubóli, 511 Hólmavík
Tvær aðrar undirskriftir einstaklinga með lögheimili í sveitarfélaginu (eins og vera ber):
Ester Sigfúsdóttir, 230369-4299, Kirkjubóli, 511 Hólmavík
Dagrún Ósk Jónsdóttir, kt. 131293-2329, Kirkjubóli, 511 Hólmavík
Með kveðju, Jón

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -