Þriðjudagur 19. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Minnast Eiríks Guðmundssonar: „Ég og þú munum aldrei vita hvað hann vildi segja og hvernig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ýmsir vinir og samstarfsmenn Eiríks Guðmundssonar minnast hans í dag en hann er látinn, 52 ára að aldri.

Einn þeirra er Egill Helgason, menningarrýnir og þáttastjórnandi á Rúv. Egill skrifaði fallega færslu um Eirík þar sem hann fer yfir mannkosti hans. „Við starfsfólk RÚV erum harmi slegin að heyra fréttir af föllnum félaga. Kolla vinkona mín segir að Eiríkur hafi verið svo byronískur og sjarmerandi, honum hefði fundist það spaugilegt, en hann var líka sérlega skemmtilegur, alúðlegur, gáfaður, fallegur, örvandi félagskapur – jú og rithöfundur, pistlahöfundur og einn okkar allrabesti útvarpsmaður. Í dag fellir maður tár yfir dauða Eiríks en maður finnur líka fullt af góðum minningum sem veita smá huggun og kalla jafnvel fram bros. Farðu vel kæri.“

Gunnar Smári Egilsson, fyrrum fjölmiðlamaður og foringi Sósíalista á Íslandi skrifaði einnig fallegan pistil en þeir voru málkunnugir. Minnist Gunnar Smári á þörf Eiríks til að tjá sig en eftir að hann missti starfið hjá Rúv, hafi hann í raun misst sviðið.

„Ég samhryggist öllum sem elskuðu Eirík. Þetta er svo sorglegt. Ég rendi áðan yfir samskipti okkar undanfarið árið og sé að það er ekki bara gjöf að eiga ríkt innra líf, að hafa í sér deiglu og átök. Þegar ég horfi yfir skeytin er eins og maðurinn á bak við orðin sé að brenna upp.

Við Eiríkur vorum það sem kalla má vel málkunnugir. Ég leitaði ráða hjá honum eða fletti upp í honum, hann sendi mér hvatningu og ég honum þakkir. Þannig er bandalag manna sem ganga með þá grillu að þeim beri að laga samfélagið, benda á það sem betur mætti fara, kasta inn einhverri hugmynd sem kannski hreyfir við einhverjum í von um að eitthvað gerist. Ekki veit ég hvaðan þessi þráhyggja kemur. Kannski er þetta mein fólks úr litlum samfélögum, þar sem ábyrgð hvers og eins er hlutfallslega stór.
Þessi bæklun veldur því að það er illt að missa tjáningarfrelsið. Það henti Eirík að einhverju leyti þegar hann missti starfið hjá Ríkisútvarpinu og var á vissan hátt slaufaður út úr menningarumræðunni. Ég kannast við svipað, en ekki jafn illt. Maður getur ekki lengur hugsað neitt til enda, orðinn of vanur að leika sér með hálfkaraður hugmyndir í almannarýminu, þarf á öðrum að halda, er orðinn háður því að hugsa upphátt í samfélagi.
Síðasta sem Eiríkur skrifaði mér var að hann langaði að taka til máls, hann taldi sig geta sagt eitthvað öðruvísi en aðrir höfðu sagt hingað til. Ef það væri eftirsókn eftir því, bætti hann við. Ég hef margt að segja, bætti hann enn við.
Það varð ekkert úr þessu. Atvik voru bara þannig, tilefnið rann hjá. Og nú er Eiríkur þagnaður að eilífu og ég og þú munum aldrei vita hvað hann vildi segja og hvernig. Og þó við teljum okkur geta gert okkur það í hugarlund munum við aldrei geta galdrað það fram. Upplifun okkar, skynjun og tjáning er einstök og einkanleg, sérstakur heimur. Hann deyr með fólki, tortímist.
Heimur Eiríks var svo stór að hann gat gefið okkur hinum allskonar sem við áttum ekki fyrir. Slíkir heimar hafa mörg skúmaskot og sum myrk. Sá sem hitti Eirík fann það vel, að mennska hann var líka byggð upp af sársauka og angist. Þannig er það hjá öllu góðu fólki.

Hjartans kveðjur til Kolbeins og alls fólksins hans Eiríks, ástvina og allra sem elskuðu þennan fallega mann. Dauðinn drepur allt sem lifir. Við erum sífellt áminnt um það, stundum harkalega.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -