Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Sólveig kveður mótmælendur í kút: „Fulltrúar skrifstofuvirkisins og háskólamenntaðar millistéttar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hópur kvenna gekk út af jafnréttisþingi og virtust gefa Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, rauða spjaldið er hún hélt erindi sitt á ráðstefnunni í Hörpu í dag. Þessi hópur virðist ekki hafa þekkt Sólveigu Önnu betur en svo að rauða spjaldið minnti hana fremur á rauðan fána alþýðunnar fremur en eitthvað íþróttatengt. Það segir Sólveig sjálf í það minnsta. Sólveig segir þennan hóp vera fulltrúa háskólamenntaðrar millistéttar meðan hún standi með láglaunakonum Íslands.

Hér fyrir neðan má lesa færslu Sólveigar um málið í heild sinni.

Fulltrúar skrifstofuvirkisins og háskólamenntaðar millistéttar voru mættar galvaskar á Jafnréttisþing þar sem að mér hafi náðarsamlegast verið boðið að tala fyrir hönd arðrændra láglaunakvenna höfuðborgarsvæðisins, til að sýna mér það sem kallað er Rauða spjaldið.

Nú er það svo að þekking mín á skipulögðum íþróttum er því sem næst engin. Snemma í bernsku var ég orðin mikill andstæðingur þeirra. Svo heit var andstaða mín að faðir minn, sem hafði mikinn áhuga á því sem næst öllum íþróttum, sagði eitt sinn við mig fremur uppgefinn, eftir að ég hafði enn einu sinni reynt að efna til pólitískra uppþota á heimilinu vegna áhorfs á enn einn handboltaleikinn, að ég væri eins og vitlausustu kommúnistar mannkynssögunnar, en þeir höfðu víst haft á stefnuskrá sinni að banna allar keppnisíþróttir. Ég auðvitað lét mér ekki segjast við þessi orð heldur forhertist bara í íþrótta-andstöðu minni.

Ég hef einu sinni reynt að horfa á fótboltaleik, fyrir nokkrum árum síðan. Þá hafði ég frétt af því að maður að nafni Reynaldo ætlaði að taka þátt, en fram að því hélt ég að Reynaldo þessi væri heimsfrægt, mjög frambærilegt nærfatamódel. Þarna vaknaði áhugi minn en aðeins í skamma stund; mér leiddist svo agalega að ég gafst upp í hálfleik og flutti í höfði mér Reynaldo úr flokknum Fótboltamaður aftur í flokkin Nærfatamódel. Áfram Reynaldo.

Ég hef á lífsleiðinni lagt þónukkuð á mig til að reyna að eyðileggja gleði fólks yfir skipulögðum íþróttum. Um tíma lagðist ég svo lágt að þegar einhver saklaus íþrótta-unnandi sagði eitthvað um „Strákana okkar“ flýtti ég mér að segja: „Þú átt við „Strákarnir ykkar“; ég á bara einn strák og hann er sko ekki í fótbolta“. Ég hef reynt að venja mig af þessu, það er jú mikilvægt að passa mörkin í mannlegum samskiptum…

- Auglýsing -

Allavega. Ef að fulltrúar skrifstofuvirkisins vissu eitthvað um mig hefðu þær kannski áttað sig á því að svona íþrótta-vísanir eins og Rautt spjald gera nákvæmlega ekkert annað en að æsa mig upp og gera mig enn forhertari. Ég tilheyri ekki aðeins sí-minnkandi hópi þeirra sem eitt sinn voru kallaðir anti-sportistar (eða heimsins leiðinlegustu kommúnistar), ég  er einnig stoltur meðlimur stéttar alþjóðlegs vinnuafls. Því er það svo að þegar að rauðu klæði er veifað framan í mig vaknar engin blygðunarkennd eða tilfinning um að ég hafi gert eitthvað rangt; nei, samstundis kvikna eldheitar baráttu-kenndir hinnar arðrændu verkakonu, og ég fyllist enn meiri og dýpri löngun til að rísa upp ásamt félögum mínum í stétt verka og láglaunafólks, sækja fram og vinna stóra og magnaða sigra á þeim eina keppnis-velli sem ég viðurkenni; keppnis-velli þeim þar sem að vinnuaflið mætir arðræningjunum. Áfram vinnuaflið!

Fulltrúar skrifstofuvirkisins veifuðu Rauða spjaldinu og hlupu svo út. Þær höfðu auðvitað engan áhuga á að hlusta á mig ræða stöðu arðrænds kven-vinnuafls höfuðborgarsvæðisins, enda skiptir hlutskipti þess hóps þær engu máli og hefur aldrei gert. En það er allt í lagi; þær skipta mig og félaga mínu engu máli. Við erum á leið á völlinn, mörg, sameinuð og sterk. Og þau tilþrif sem við munum sína þar verða þannig að engum þarf að leiðast. Ég lofa því.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -