Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

„Þetta fólk getur tekið þessar skýrslur sínar og troðið þeim beint í tætarann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafnar með öllu niðurstöðu Þjóðhagsráðs um að lítið svigrúm sé til launahækkana. Hún segir þetta vera nokkuð sem valdastéttin geti ekki ákveðið á lokuðum fundum. Sólveig skrifar á Facebook:

„Munið þið eftir fréttinni sem birtist fyrir skemmstu þar sem að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði frá því að Þjóðhagsráð hefði haldið fjölmarga aukafundi vegna komandi kjarasamningsviðræðna? Meðal annars sagði forsætisráðherra þetta: „Við erum búin að undirbúa kjaraviðræðurnar. Við erum búin að halda fjölmarga aukafundi á vettvangi þjóðhagsráðs þar sem saman koma aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélög, seðlabanki og stjórnvalda og ég held það skipti miklu máli að við höldum því þétta samtali áfram.“

Nú er niðurstaða alls hins þétta samtals komin í ljós í formi texta tveggja hagfræðinga, þar sem sýn valdastéttarinnar er gerð lýðnum ljós: Lítið sem ekkert svigrúm til launahækkana fyrir vinnuaflið, ekki skal gefa Salek upp á bátinn.“

Sólveig minnir á að við búum ekki við lénsveldi. „Laun eru ekki ölmusa yfirstéttarinnar til þeirra sem vinna vinnuna, svo að þau geti skrimt. Verkafólk, þau sem skapa arðinn og halda umönnunarkerfum okkar uppi með vinnu sinni EIGA einfaldlega inni sinn skerf af hagvextinum og það eru þeirra lýðræðislegu réttindi að ákveða hvað þau vilja og þurfa. Það er ekki valdastéttarinnar að ákveða á lokuðum fundum. Við búum ekki í lénsveldi og erum ekki í ánauð, við erum frjálst fullorðið fólk og við látum ekki koma fram við okkur eins og vesalinga,“ segir Sólveig.

Hún segir yfirstétt Íslands markvisst vinna að því að auka misskiptingu. „Vinna verkafólks er grundvöllur verðmætaframleiðslu þjóðfélagsins, skapar auðinn sem yfirstétt landsins hefur í miklum móð á síðustu árum graðkað til sín í formi skattaafsláttar vegna hlutabréfabrasks, yfirtöku á húsnæðismarkaðnum, skattaundanskota og yfirgengilegra ofurlauna (t.d. er forsætisráðherra með 2.470.000 krónur í mánaðarlaun, hefur hækkað um 1.079.000 kr. á síðustu 6 árum, og forseti lýðveldisins er með vel yfir 3 milljónir á mánuði á sama tíma og hann er leigusali á algróðavæddum reykvískum leigumarkaði.) Hér væri hægt að nefna fjölmörg önnur dæmi um yfirgengilega þörf íslenskrar yfirstéttar til að vinna markvisst að aukningu misskiptingar, á sama tíma og hún dælir frá sér orðasalötum um gæsku sína og frábærlegheit,“ segir Sólveig.

„Að fólk sem veit ekkert um líf vinnandi fólks og lífsskilyrði, sem hefur svo lítinn áhuga að það nennir ekki einu sinni að spyrja skuli telja sig þess umkomið að reyna að kæfa baráttu okkur fyrir efnahagslegu réttlæti er satt best að segja ógeðslegt, ólýðræðislegt og að öllu leiti óþolandi.“

- Auglýsing -

Hún segir hafa óskað eftir fundargerðum Þjóðhagsráðs. „Þegar ég sá fréttina um alla fjölmörgu kjarasamnings-undirbúnings-fundi Þjóðhagsráðs bað ég forseta ASÍ um fundargerðir. Sem formaður í öðru stærsta verkalýðsfélagi landsins taldi ég að umræður á fundunum kæmu mér mögulega eitthvað við. Mér var sagt að engar fundargerðir væru ritaðar. Mér hefur ekki verið boðið að sitja þessa fundi og eftir því sem ég best veit er enginn fulltrúi verka og láglaunafólks viðstaddur. Það kemur reyndar ekki á óvart og er í takt við algjöran og samstilltan vilja þeirra sem telja sig þess umkomin að stjórna öllu til að jaðarsetja vinnuaflið hvar og hvenær sem er. Enda er enginn sannleikur sannari á Íslandi í dag en sá að sérfræðingaveldi meritókrasíunnar skal hafa vit fyrir vinnuaflinu,“ segir Sólveig.

„Hverju hafa fundirnir skilað? Engu. Eða nei, ég tek það til baka. Þeir hafa auðvitað skilað mjög miklu. Þeir eru stórt verkefni um stéttasamvinnu þess fólks sem telur sig svo yfir okkur verkafólk hafið að þau þurfa ekkert umboð, ekkert samtal, engin samskipti við okkur. Þeirra „þétta samtal“ er aðeins innan þeirra þétta hóps og niðurstaðan er afgerandi: Stöðugleikinn í lífi okkar skal alfarið vera á kostnað ykkar. Við hækkun í launum um milljónir, en þegar kemur að ykkur er svigrúmið á þrotum. Og ef þið eruð ósatt er það einungis til marks um hvað þið eruð heimsk og sönnun á því að innleiðing Salek getur ekki komið nógu fljótt.

Ég hafna niðurstöðu hinna fjölmörgu funda Þjóðhagsráðs. Þetta fólk getur tekið þessar skýrslur sínar og troðið þeim beint í tætarann.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -