Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Vináttan finnst víða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég var mjög vinamargur í menntaskóla. Var meira að segja nokkuð vinsæll, þannig séð. Var tvisvar sinnum kosinn sá fyndnasti í skólanum og óð í kvenfólki. Ok, þetta með kvenfólkið er lygi. Menntaskólaárin mín voru reyndar fleiri en flestra og því kynntist ég sennilega fleiri en góðu hófi gegnir. Mér fannst bara svo gaman í skólanum að ég mátti ekki vera að því að útskrifast strax. En svo breyttist þetta smá saman eftir útskrift.

Flestir vina minna voru fluttir suður í frekara nám en ég hírðist áfram á Egilsstöðum eins og bjáni. En svo kom að því að ég flúði Héraðið og fór til Reykjavíkur. Þar eignaðist ég nokkra góða vini í háskólanum og kynntist barnsmóður minni og svo voru nokkrir æskuvinir mínir í borginni þannig að mér leiddist ekki, þvert á móti.

En svo tók lífið við. Smá saman kvarnaðist úr vinahópnum. Ég er samt ekki að tala um vinslit. Fólk flutti til útlanda, aftur heim í Hérað eða gleymdi sér í hjónaböndum og barnseignum. Geldust eins og ég hef oft kallað það. Ég náði þó að halda í tvo góða vini sem ég get dregið með mér í bíó og spilað borðspil með.

En ég er líka nokkuð naskur í að verða mér út um vini á hinum ótrúlegustu stöðum. Dóttir mín þolir ekki hvað ég tala oft við ókunnuga en þannig hef ég alltaf verið, alveg frá því að ég var smápolli á Eskifirði í denn. Og er varla að fara að breytast í bráð.

Sennilega er furðulegasta vinátta mín við hana Marian gömlu. Marian er ríflega sjötug kona frá Wales en hún hefur búið á Englandi í áratugi. Og hvernig kynntist ég henni gæti einhver viljað spyrja. Nú auðvitað í Skrafli á Facebook. Við lentum einhvern tíma á móti hvort öðru í Skraflleik á Facebook og byrjuðum að spjalla. Svo urðu leikirnir fleiri og spjallið lengra. Svo hætti ég að nenna að spila en vildi endilega spjalla áfram og nú sirka 8 árum síðar höfum við spjallað annað slagið á Messenger og í síma og hún hefur sent mér jólagjafir í nokkur skipti. Það var svo í sumar sem ég og dóttir mín hittum hana í fyrsta skipti er við feðginin kíktum á Billie Eilish tónleika í London. Hún var jafn fyndin og skemmtileg og hún hafði alltaf verið, skaut á mig látlaust eins og góðum Breta sæmir, en alltaf í góðu.

Sem sagt, það sem ég vildi segja hér á síðustu blaðsíðu blaðsins er að vináttan kemur í mörgum formum og finnst á furðulegustu stöðum, sé maður opinn fyrir því.

- Auglýsing -

Hægt er að lesa nýjasta tímarit Mannlífs hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -