Kristinn Erling Jónsson: „Bjargið okkur, bjargið okkur“

top augl

„Ég verð nú að segja frá því að mitt mesta lán eftir að ég byrjaði með Víði þá lenti ég í því að bjarga þremur mönnum úr sjávarháska. Það var mjög sérstakt. Við vorum úti í Hólakanti sem var um tveggja til þriggja kortéra stím frá Sandgerði með línuna og það spáði illa og byrjaði að ganga upp í vestan leiðindi. Þegar við vorum að draga síðasta bjóðið þá kom það fjórfalt þannig að við vorum miklu fljótari en ella að draga. Við kláruðum að draga og svo setti ég stefnuna á land. Hefðin var sú að skipstjórinn á línubátunum stóð á útstími og stýrimaðurinn á landstími,“ segir Kristinn Erling Jónsson í viðtali við Reyni Traustason.

Eini möguleikinn til að bjarga mönnunum var að leggja að stefninu.

„Þegar við vorum búnir að sigla í um tvo tíma þá kom stýrimaðurinn og spurði hvort það ætti að vera bauja þarna. Ég sagði „nei, það á ekki að vera“. Ég sagði „fylgstu vel með hvað þetta er“. Hann kom aftur eftir stutta stund og sagði að sér fyndist þetta vera mastur. Ljós í mastri. Ég stökk fram og við nálguðumst þetta og ég sló náttúrlega af. Þá heyrðum við öskrað „bjargið okkur, bjargið okkur“. Þarna var komið skítaveður, sjö átta vindstig. Þá voru nú góð ráð dýr .Við höfðum ekki neinn bát til að setja út og eini möguleikinn til að bjarga mönnunum var að leggja að stefninu; báturinn flaut bara á lúkarnum.“

Og stefnið upp úr.

Ef það hefði ekki heppnast hefði ég getað steindrepið þá.

„Eini möguleikinn til að bjarga og ná til mannanna var að reyna að leggja að stefninu en það var náttúrlega mikil áhætta. Ef það hefði ekki heppnast hefði ég getað steindrepið þá. En fyrir einhverja guðs lukku þá heppnaðist það og við náðum þeim inn á dekk. Þeir voru þrír á. Þegar síðasti maðurinn var kominn á dekk þá stökk ég upp á bátapall til að tékka á hvar þetta flak væri svo ég fengi nú ekki skrúfuna. Hann var bara horfinn.

Það ömurlegasta í þessu var að þegar hann fékk brotið á sig þessi bátur og lagðist þá stökk skipstjórinn upp á stýrishús og losaði lífbátinn og losaði fangalínuna líka; henti bátnum til þeirra sem voru fram á. Þeir náðu honum ekki þannig að það blasti ekkert við þeim annað en bara dauðinn.“

Þá komst þú.

„Þá kom ég.“

Þetta er magnað.

„Þetta er magnað. Þetta er stærsti róður sem ég hef nokkurn tímann fengið.“

Er nokkuð til betra en akkúrat þetta?

„Nei, ekkert.“

Voruð þið heiðraðir fyrir vikið?

„Já, það var gert á sjómannadaginn í Sandgerði.“

Þetta er mikil gæfa.

„Þetta er ólýsanleg gæfa.“

 

Fórst í sjóslysi

Kristinn Erling Jónsson er sjómannssonur.

„Pabbi heitinn var sjómaður, Jón Björgvin Sveinsson, og var einn af þeim sem drukknuðu með Rafnkeli 1960. Þetta var 4. janúar og ég var á níunda ári.“

Kristinn segist hafa verið mikið hjá ömmu sinni í Sandgerði og hafði móðir hans farið um morguninn með rútu til Reykjavíkur, langt gengin með þriðja barn þeirra hjóna. Systir Kristins átti afmæli þennan dag.

Þegar útgerðarmaðurinn og presturinn komu til að tilkynna að bátsins væri saknað.

„Mamma heyrði menn fyrir aftan sig í rútunni tala um að líklega hafi Rafnkell farist. Um leið og hún kom til Reykjavíkur tók hún leigubíl á BSÍ og beint suður eftir. Hún var rétt komin í Sandgerði aftur þegar útgerðarmaðurinn og presturinn komu til að tilkynna að bátsins væri saknað. Þetta var nú frekar ömurlegt.“

Móðir og amma Kristins sögðu honum síðan tíðindin. Hann er spurður hvernig hann hafi brugðist við.

„Ég man það ekki þannig. Allavega þagði ég og beið. Vonaði alltaf að hann kæmi aftur. Það var búið að vera vesen með rafmagnið í bátnum og voru einhverjar getgátur um að hann hefði farið inn til Hafnarfjarðar til viðgerðar. En svo þegar leið á daginn kom í ljós að það var ekki. Þetta var fyrsti línuróðurinn á vertíðinni.“

Sex manns fórust með bátnum.

 

Bara krakki

Það kom ekkert annað til greina en að fara á sjóinn.

„Ég var á bryggjunni öllum stundum.“

Kristinn fór sinn fyrsta túr sem launþegi í maí árið 1964. Báturinn hét Ingólfur GK.

„Skipstjórinn sem átti hann í Sandgerði, Bragi Björnsson, var mikill öðlingsmaður. Hann féllst á að taka mig um borð og annan strák líka, son vélstjórans. Móðurbróður minn var stýrimaður á bátnum.“

Kristinn varð kokkur um borð.

Ég varð 13 ára tveimur vikum eftir að við fórum af stað.

„Jú, það blessaðist. Auðvitað fékk maður hjálp; það segir sig alveg sjálft. Ég varð 13 ára tveimur vikum eftir að við fórum af stað.“

Kristinn segist hafa farið í einn vetur í skóla eftir þetta áður en hann fór svo í Stýrimannaskólann; hann var ekki orðinn 19 ára þegar hann útskrifaðist þaðan árið 1970. Hvað var fyrsta plássið eftir það?

„Það var á báti í Sandgerði sem hét Álaborg sem var 100 tonna austur-þýskur stálbátur. Það var virkilega gott pláss og besta pláss sem maður gat fengið í Sandgerði þá. Það var mikil gæfa að fá stýrimannapláss þar.

Við vorum á trolli yfir sumarið og svo á netum náttúrlega á vertíðinni.“

Svo var Álaborgin seld.

„Skipstjórinn sem var með Álaborgina tók Straumnesið ÍS. Það var annar svona 100 tonna bátur og ég fór með honum þangað.“ Straumnesið var gert út frá Hafnarfirði.

Kristinn ók í vertíðarlok eitt vorkvöldið til Reykjavíkur og niður á togarabryggju.

„Þá hafði Siglfirðingur verið að landa þar. Ég þekkti stýrimanninn um borð úr Stýrimannaskólanum.“ Úr varð að hann bauð Kristni pláss um borð. Honum var síðar boðið að verða fyrsti stýrimaður á Siglfirðingi sem var fyrsti skuttogari Íslendinga, rúm 200 tonn. Kristinn var á Siglfirðingi í eitt ár og þar fékk hann tækifæri að leysa af sem skipstjóri.

„Auðvitað fannst manni það upphefð að manni skyldi vera treyst fyrir þessu.“

Siglfirðingur var síðan seldur og þá réð Kristinn sig sem annan stýrimann á Guðbjart Kristján. Þar var hann í tæpt ár.

„Þá flutti ég suður og tók við skipstjórn á Víði II.“

Því fræga aflaskipi.

„Já.“

Þessa fyrstu vertíð vorum við hæsti báturinn á Suðurnesjum.

Það hefur nú verið eitthvað.

„Já, já, þetta var góður bátur og við rerum á línu. Og þessa fyrstu vertíð vorum við hæsti báturinn á Suðurnesjum.“

Og ekki gamall skipstjórinn.

„Nei, hann var bara krakki. En þetta gekk mjög vel.“

Kristinn var einmitt á Víði þegar mönnunum var bjargað úr sjónum sem þegar hefur verið sagt frá. Og Kristinn segist muna hverja mínútu frá þeirri björgun.

 

Þetta mun ég aldrei fyrirgefa

Kristinn fór til Miðness í Sandgerði sem seinna rann inn í HB. Og rann svo inn í Granda.

Tíminn leið og í ársbyrjun 1977 varð Kristinn skipstjóri á Ólafi Jónssyni, 25 ára gamall.

„Það gekk alltaf vel á Ólafi. Auðvitað gat verið misjafnt frá túr til túrs; það er bara eins og gengur. En yfir höfuð gekk mjög vel á honum.“

Varstu hávær?

„Já, já.“

Þú lést menn alveg heyra það á dekkinu.

„Já, maður gerði það. Auðvitað oft að tilefnislausu. Maður hefði betur þagað. Það er bara eins og það er. Það voru margir menn sem voru mjög lengi með mér þannig að það hafa greinilega margir fyrirgefið mér.“

Það sat ekkert í þeim.

„Nei, stýrimaðurinn var með mér í 16 ár.“

Ef maður þarf að kynna sig segir maður Kiddi á Ólafi Jónssyni.

Gekk þetta bara snuðrulaust? Og þú varst alsæll á Ólafi Jónssyni. Þú ert yfirleitt kenndur við hann.

„Ef maður þarf að kynna sig segir maður Kiddi á Ólafi Jónssyni,“ segir Kristinn sem var í 21 ár karlinn í brúnni.

Svo var það sameiningin við Akranes. Hvernig gekk það?

„Það voru bara svik á svik ofan. Það stóð ekki steinn yfir steini. Þetta var í lok árs 1996 en þá voru áhafnirnar á Ólafi Jónssyni og Sveini Jónssyni boðaðar á fund uppi á Akranesi.“

Miðnes í Sandgerði átti Ólaf Jónsson og það var Haraldur Böðvarsson sem var að taka yfir.

„Á þessum fundi var verið að kynna þetta og þá spurði einn áhafnarmeðlimur á Sveini Jónssyni hvort þetta yrði ekki eins og aðrir samningar; þetta myndi enda allt uppi á Skaga og allt yrði bara gleymt og grafið í Sandgerði. Þá var hann áminntur af framkvæmdastjóra HB að menn ættu ekki að vera með svona dylgjur og kjaftæði; það stæði ekki til að minnka neina starfsemi í Sandgerði heldur ætti að efla hana. Hvað gerðist? Þegar við komum til löndunar 22. desember 1977 þá komu Rússar um borð að skoða skipið,“ segir Kristinn og bætir við að þeir hafi verið að kaupa skipið.

Þetta var einu ári eftir sameininguna.

Og þar með voru menn orðnir atvinnulausir eins og hann spáði drengurinn á Sveini Jónssyni.

„Já, hann var ekkert að fara með fleipur. Þetta var hárrétt.“

Þetta var náttúrlega ömurlegt.

Hvernig varð þér við? Hvernig var að upplifa þetta?

„Þetta var náttúrlega ömurlegt. Ég var búinn að vera með skipið frá upphafi og búinn að fara með hann í gegnum breytingar í Póllandi. Hann var lengdur og endurbyggður. Hann var í mjög góðu standi, Ólafur.“

Þá var markmiðið að þurrka upp allan kvóta í Sandgerði og fara með hann?

„Já, þeir gerðu það. Þeir fóru með úr Sandgerði rúm 5000 þorskígildi.“

Ertu reiður út af þessu?

„Já, þetta mun ég aldrei fyrirgefa.“

 

Að átta sig

Kristni bauðst til að fara á önnur skip eftir þetta en hann hafði ekki áhuga á því. Hann segist hafa farið að bardúsa í fiskvinnslu og rak hann sitt eigið fyrirtæki.

„Ég byrjaði á því 1998 strax eftir að ég hætti á Ólafi og rak það þangað til ég fór til Afríku. Þegar ég kom frá Afríku 2005 fór ég að vinna hjá flugmálastjórn við eftirlit á flugbrautunum.“

Kvótakerfið átti ekki við mig.

Þú varst alveg búinn að fá nóg af sjónum þá.

„Já, kvótakerfið átti ekki við mig.“

Þú áttir erfitt með að taka við svona fyrirskipunum.

„Já, þetta var ekki fyrir mig. Þetta var ekki ég. Mér leiddist þetta mjög.“

Kristinn réð sig til Súðavíkur í tvö ár til að stýra þar harðfiskvinnslu en árin urðu fjögur og hann er nýhættur.

Svo ertu að fara þangað á morgun.

„Að tína ber.“

Aflaskipstjórinn sem tíndi ber.

„Já.“

Er það ekki bara eins skemmtilegt og að veiða karfa?

„Jú, jú, það er bara mjög gaman. Og yndislegt að vera í Súðavík. Það er staður sem ég myndi vilja eyða ellinni á.“

Er ekki tækifæri til þess?

„Jú, við höfum hús þarna,“ segir Kristinn sem stundar golf og syndir á morgnana.

Það er um að gera að fóta sig í tilverunni.

„Maður er bara að átta sig á hlutunum. Maður hefur alltaf verið í hellings aksjón og svo allt í einu þá er bara ekki neitt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni