Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Kynferðislegur kraftur, jafnvel ofsi, sem enginn hefur í raun komist í hálfkvisti við

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi í Eyjafirði er eitt af þjóðskáldum Íslendinga. Þótt hann hafi ekki verið tónlistarmaður kemur hann á ýmsan hátt við íslenska tónlistarsögu. Hann samdi fjöldann allan af ljóðum sem lög hafa verið samin við, upplestur hans á eigin verkum komu út á hljómplötum á síðustu öld, auk þess sem leikrit hans, Gullna hliðið var gefið út á plötum.

Davíð fæddist 21. janúar árið 1895 og lést á þessum degi 1. mars 1964.

Kynferðislegar fantasíur að skemmta sér við

Haustið 1919 komu Svartar fjaðrir út og hlaut bókin lofsamlega dóma og Davíð miklar vinsældir. Mikið var skrifað um bókina í kjölfarið, en skrifin sýna glögglega hvað orðræðan hefur breyst með tímanum. Í grein eftir Guðmund Andra Thorsson, rithöfund, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 17. apríl 2004 segir eftirfarandi um Svartar fjaðrir:

„Svartar fjaðrir eftir Davíð sló í gegn þegar hún kom út árið 1919. Hún þótti ekki síst höfða til ungra og eignalítilla kvenna og var kölluð vinnukonubók í niðrunarskyni, enda þótti menntamönnum þá engir lesendur fráleitari en vinnukonur. Sagt hefur verið að Davíð hafi gefið þessum ungu konum ljóð sem túlkuðu drauma þeirra og þrár, kannski það, ég er samt ekki alveg viss: hann höfðaði til þeirra kynferðislega, skapaði handa þeim kynferðislegar fantasíur að skemmta sér við.

Í ljóðum hans í þessari bók er kynferðislegur kraftur, jafnvel ofsi, sem enginn hefur í raun komist í hálfkvisti við. Davíð er með öðrum orðum umfram allt sexí skáld og eftir öðru að Íslendingar vissu ekki almennilega hvað þeir áttu að gera við slíkan mann eftir að hann náði hylli þjóðarinnar: reynt var að finna honum verkefni í þjóðhagslegum tækifæriskveðskap uns svo var farin að dofna títan á skáldgáfunni að hann fórnaði höndum og æpti upp: Brenni þið vitar!“

- Auglýsing -

Má í þessu sambandi láta fylgja ljóðið Biðlarnir úr Svörtum fjöðrum:

Biðlarn­ir

Ung­frú­in greiddi sér ekki þann dag
og aldrei í speg­il­inn leit,
sem fyrsti biðill­inn barði að dyr­um
og bað hana um ástar­heit.
Einn …
Ögn betra en ekki neinn.

- Auglýsing -

Ung­frú­in greiddi hár sitt til hálfs
og horn­augu spegl­in­um gaf,
brosti og söng í hálf­um hljóðum
og hitnaði löng­un af.
Einn … tveir …
Og mikið vill meir.

Ung­frú­in greiðir sér oft á dag
og ilm­vatn í hár sér ber,
horf­ir í speg­il­inn hlæj­andi,
hopp­ar og tel­ur á fingr­um sér: –
Einn … tveir … þrír …
og bráðum bæt­ist við nýr.

Gullna hliðið

Davíð Stefánsson og móðir hans, Ragnheiður Davíðsdóttir.

Davíð lauk gagnfræðiprófi frá Akureyri og bjó þar til um tvítugt er hann fór til ársdvalar til Kaupmannahafnar áður en hann settist á skólabók við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1919, sama ár og fyrst og frægasta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir, kom út. Davíð bjó mestan part ævi sinnar á Akureyri, starfaði við Amtbókasafnið þar í bæ en dvaldist einnig nokkrum sinnum á erlendum grundum.

Um tugur ljóðabóka liggur eftir skáldið, auk leikrita og skáldsögu en mörg ljóða hans er vel þekkt, þeirra á meðan eru Konan sem kyndir ofninn minn, Sálin hans Jóns míns, Kvæðið um fuglana (Snert hörpu mína), Bréfið hennar Stínu, Abba-labba-lá og Til eru fræ.

Fjölmargar plötur hafa komið út sem hafa að geyma ljóð Davíðs. Fjórar plötur komu út á vegum Fálkans 1958 með upplestri hans á eigin verkum, tvær þeirra voru litlar 45 snúninga plötur (7“), ein 78 snúninga (10“) og ein breiðskífa. Fálkinn gaf einnig út „split-plötu“ með upplestri Davíð og Halldórs Laxness árið 1964 undir yfirskriftinni Tveir þjóðskörungar íslenzkra bókmennta, og tveim árum síðar var Gullna hliðið gefið út í veglegum plötukassa, á þremur plötum.

Fleiri listamenn hafa notað ljóð Davíðs og gert við þau stök lög sem er að finna á mörgum plötum, en margir hafa einnig leitað fanga á annan hátt í smiðju Davíðs, til dæmis eru nöfn hljómsveitanna Sálarinnar hans Jóns míns og Möðruvallamunkanna beinar skírskotanir í verk hans. Það sama má segja um titil á plötu Sálarinnar, Gullna hliðið. Það má því með sanni segja að áhrifa hans gæti víða.

Kvæðið um Fuglana er fallegasta ljóð skáldsins að mati blaðamanns:

Snert hörpu mína, himinborna dís,
svo hlusti englar guðs í Paradís.
Við götu mína fann ég fjalarstúf
og festi á hann streng og rauðan skúf.

Úr furutré, sem fann ég út við sjó
ég fugla skar og líka’ úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf
og hlýt að geta sungið í þá líf.

Þeir geta sumir synt á læk og tjörn,
og sumir verða alltaf lítil börn.
En sólin gyllir sund og bláan fjörð
og sameinar með töfrum loft og jörð.

Ég heyri’ í fjarska villtan vængjaþyt.
Um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína himinborna dís,
og hlustið, englar guðs í Paradís.

Ljóðabækur:

  • Svartar fjaðrir, 1919
  • Kvæði, 1922
  • Kveðjur, 1924
  • Ný kvæði, 1929
  • Í byggðum, 1933
  • Að norðan, 1936
  • Ný kvæðabók, 1947
  • Ljóð frá liðnu sumri, 1956
  • Í dögun, 1960
  • Síðustu ljóð, 1966 (kom út að Davíð látnum)

Leikrit og skáldsögur:

  • Munkarnir á Möðruvöllum, 1926
  • Gullna hliðið, 1941. Leikritið er unnið upp úr þjóðsögunni „Sálin hans Jóns míns“. Kvæði hans, Sálin hans Jóns míns, sem kom út 1933 var þegar alþekkt.
  • Sólon Íslandus I-II, 1941 (Skáldsaga um Sölva Helgason).
  • Vopn guðanna, 1944
  • Landið gleymda, (frumsýnt árið 1953 en gefið út 1956).

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -