Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinna, hrósaði þeim konum sem treystu sér til að taka slaginn við Jón Baldvin Hannibalsson. Það gerði hún í færslu sem hún birti í hópnum #metoo Jón Baldvin Hannibalsson á Facebook.
„Reglulega kemur upp hjá mér reiði, sorg eða biturð yfir þessu máli og nú langar mig að koma því frá mér. Þegar ég heyri um Jón Baldvin talað í fréttum eða á Netinu, þá líður mér illa. Fjölskyldan mín er splundruð út af þessu og mér finnst eins og það sé kominn tími til að fólk fái að vita sannleikann og taki afstöðu. Ég vil að fólk lesi bréfin og sjái svart á hvítu hvað í þeim stendur. Sumir þykjast standa með mér en mæta svo í veislur til Jóns Baldvins. Mér finnst vissulega skrítið að koma fram í fjölmiðlum en tel það einu leiðina til að fá fólk til að horfast í augu við staðreyndir.“
Þannig lýsir Guðrún Harðardóttir, systurdóttir Bryndísar Schram eiginkonu Jóns Baldvins Hannibalssonar, árið 2012 ástæðum þess að hún steig fram í umfjöllun í Nýju lífi og sagði frá bréfum sem Jón Baldvin, fyrrverandi ráðherra og formaður Alþýðuflokksins, sendi henni þegar hún var barn að aldri.
Nokkrir einstaklingar innan Samfylkingarinnar vissu af klámfengnum bréfum Jóns Baldvins áður en þau voru gerð opinber.
Ítarleg skýring Kjarnans um málið birtist í Mannlífi á föstudaginn og á vef Kjarnans.
Þar er farið yfir það hvernig Jón Baldvin verið skipaður í heiðurssæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir komandi alþingiskosningar í byrjun árs 2007. Í mars sama ár var Guðrúnu tilkynnt að Ríkissaksóknari hefði ákveðið að fella mál hennar gegn Jóni Baldvini niður.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og ráðherra, fékk vitneskju um bréfin og þar af leiðandi aðgang að þeim. Í kjölfarið boðaði hún Jón Baldvin til fundar ásamt Degi B. Eggertssyni borgarfulltrúa þar sem Jóni Baldvin var tjáð að hann yrði fjarlægður af framboðslista flokksins.
Hún greindi frá því í stöðuuppfærslu inni á metoo-hópnum á Facebook að Jón Baldvin hefði brugðist illa við en hún sagði nauðsynlegt að halda þessu til haga í ljósi þess algjöra skorts á sómakennd sem Jón Baldvin hefði sýnt að undanförnu. Ingibjörg Sólrún lýkur færslu sinni á því að segja að Aldís Schram og Guðrún séu meiri hetjur en þær geri sér grein fyrir og hrósar um leið hinum konunum.
„Ég tek ofan fyrir þeim konum sem hafa ákveðið að taka slaginn við JBH og láta ekki undan síga þó að hann beiti öllum tiltækum vopnum sem finnast í vopnabúri hinnar eitruðu karlmennsku. Sérstaklega vil ég segja við Aldísi og Guðrúnu – þið eruð meiri hetjur en ég held þið gerið ykkur grein fyrir,“ segir hún í færslunni.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.