Sunnudagur 28. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Nanna verslar ekki umhugsunarlaust – Hendir aldrei neinu sem hægt er að borða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nanna Rögnvaldsdóttur er neytandi vikunnar að þessu sinni. Hún er 66 ára, móðir, amma og langamma, einbúi í Fossvogi. Nanna var ritstjóri hjá Iðunni og síðar Forlaginu en fór á eftirlaun fyrir rúmu ári. Hún hefur þó enn nóg að starfa, þýðir, les prófarkir, skrifa bækur og fleira. Nanna hefur skrifað um 25 matreiðslubækur en er hætt því núna og hef snúið sér að öðru.

Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?

Já, yfirleitt. Ég kaupi sjaldnast neitt án þess að líta á verðmiðann og reyni að leggja á minnið hvað hluturinn kostar á hverjum stað til að hafa samanburð. Þegar ég kem að kassanum veit ég yfirleitt nokkurn veginn hvað ég mun þurfa að borga fyrir innkaupin. Ég kaupi samt ekkert alltaf endilega það sem er ódýrast, það er margt fleira sem skiptir máli.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Ég ber samanburð á verði milli verslana, kaupi oft vörur sem eru á tilboði, t.d. vegna dagsetningar – þó ekki hvaða vöru sem er – reyni að finna hagstæðustu stærðareiningarnar (þær stærstu eru ekki endilega hagkvæmastar þegar upp er staðið, síst fyrir einbúa). Nota frystinn töluvert, bæði til að geta nýtt mér tilboð og til að skipta niður stærri stykkjum og einingum og geyma. Ég rækta mínar eigin kryddjurtir og fleira. Ég kaupi aldrei tilbúna rétti og næstum aldrei skyndibita eða mikið unnar matvörur.

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

- Auglýsing -

Ég reyni að nýta alla matarafganga og sumar bækurnar mínar eru einmitt með leiðbeiningar um nýtingu á afgöngum. Ég hendi helst aldrei neinu sem hægt er að borða. Áður keypti ég dálitið af notuðum fötum og henti töluverðu á móti í fatagáma. Flest húsgögnin mín eru keypt á fornsölum og mestallt leirtauið líka.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

Að maturinn sem ég elda úr hráefninu verði góður og fjölbreyttur. Að fötin séu falleg og helst litrík og endist vel; að ég geti notað þau í mörg ár og að þau passi því að ég er löngu búin að átta mig á að það eru litlar líkur á að ég grennist ofan í flíkina. Að gjafirnar séu eitthvað sem gleður viðtakandann og hafi gjarna eitthvert notagildi fyrir hann.

- Auglýsing -

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

Einu sinni hefði ég sagt „matreiðslubókum“ en nú er ég hætt að kaupa þær og meira að segja byrjuð að fækka þeim. Ætli ég verði ekki að segja utanlandsferðum? Mér finnst gaman að koma á nýja staði og upplifa eitthvað nýtt og nú hef ég tíma til að ferðast. En ég geri mér grein fyrir umhverfisáhrifum flugferða og reyni að fækka þeim og a.m.k. að kolefnisjafna.

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Já, vissulega. Á móti flugferðunum kemur að einhverju leyti að ég hef aldrei átt bíl og fer minna ferða með strætó eða gangandi. Ég flokka allt sorp (já, fernurnar líka) og er að mestu leyti hætt að nota kemísk efni til hreingerninga eftir að ég eignaðist gufuhreinsivél. Margt af því sem maður er að gera skiptir kannski ekki miklu í stóra samhenginu en margt smátt gerir eitt stórt.

Annað sem þú vilt taka fram?

Það eru tvær reglur sem ég reyni að hafa í matarinnkaupum: að kaupa helst aldrei neitt (fyrir utan daglegar nauðsynjar) alveg umhugsunarlaust. Og að fara helst aldrei svöng út í búð. Ég hugsa að þetta tvennt hafi sparað mér töluvert í áranna rás.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -