Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.8 C
Reykjavik

New York með stæl

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

6 spennandi boutique-hótel á Manhattan.

Boutique-hotel
Stór hluti af hverju ferðalagi er gististaðurinn. Fallegt og vel staðsett hótel getur breytt upplifuninni svo um munar. Ég hef þá reglu að vera á vel staðsettu hóteli ef ég stoppa stutt í borgum því þá er tíminn dýrmætur. Hótelið þarf ekkert endilega að vera fínt, sér í lagi ef ætlunin er að skoða mikið og vera lítið á hótelinu. Ef ég dvel í lengri tíma t.d. viku eða meira finnst mér fínt að vera aðeins út úr, jafnvel með íbúð, það er oft ódýra og góð tilbreyting. En fátt er þó yndislegra en að vera á góðu og fallegu hóteli þar sem umhverfið er upplifun í sjálfu sér og eftir því sem ferðir mínar um heiminn verða tíðari þá hallast ég meira að því að vera einni nótt styttra og splæsa í æðislegt hótel þegar buddan leyfir. Svokölluð boutique-hótel hafa notið vinsælda undanfarin ár en það eru yfirleitt mun minni hótel en almennt gerist og oft eru þau sérlega persónuleg og falleg. Hér bendi ég á nokkur slík á Manhattan en hafið í huga að sum þessara hótela eru ekki endilega þau ódýrustu í borginni svo fylgist vel með tilboðum.

The Quin 
Yndislegt lúxushótel sem minnir meira á borgarhús (townhouse) en hótel þrátt fyrir að það séu 208 herbergi á The Quin sem er staðsett rétt hjá Central Park. Hótelið er einstaklega fallegt og stílhreint. Meðal frægra sem gistu forðum í húsinu eru listamenn á borð við O´Keeffe og Chagall. Dvöl í svalarsvítunum (terrace suites) er ævintýri líkast en þar er nánast eins og gestir séu með sinn eigin þakbar.
Vefsíða: thequinhotel.com

The Refinery
Mjög töff og fallegt hótel á frábærum stað á Manhattan ekki langt frá Macy´s en í raun er stutt í allar áttir. Hönnunin er afar stílhrein með hvítum veggjum og fallega dökkum koníakslituðum við og inn á milli eru litrík húsgögn, sérlega smekklegt. Skemmtilegur bar er á þakinu í ekta New York-stíl með grófum múrsteinsveggjum og seríum með hvítum ljósum og algerlega þess virði að byrja kvöldið þar á góðum drykk.
Vefsíða: refineryhotelnewyork.com

- Auglýsing -

The Redbury
Lifandi hótel í hjarta borgarinnar en það er á horninu á Madison Avenue og 29. strætis og því sérlega þægileg staðsetning hvort sem ætlunin er að versla, fara í leikhús eða skjótast upp í Empire States-bygginguna. Hótelið er með svolitlu Hollywood-kvikmynda yfirbragði, herbergin eru rauð og svört með mörgum myndum á veggjum. Hér eru fínir kostir í veitingum, góðar pítsur eru á veitingastaðnum Marta en einnig er kaffihús og bar á hótelinu.
Vefsíða: theredbury.com/newyork

The Ace (sjá efstu mynd)
Sérlega hipp og kúl hótel á horninu á 29. stræti og Brodway þannig að stutt er í allar áttir jafnt til að versla eða fara á helstu ferðamannastaðina. Hönnunin er fremur hrá og einföld og minnir svolítið á farfuglaheimilisstíl. Herbergin eru mismunandi og mörg hver skreytt með áhugaverðum og töff veggmyndum. Á hótelinu er gott kaffihús, Stumptown coffee og veitingastaðurinn The Breslin er sérlega góður en matreiðslumeistarinn sem rekur hann hlaut hin eftirsóknarverðu James Beard-verðlaun. Einnig er að finna góðan og notalegan bar á The Ace sem kallast því einfalda nafni The Lobby bar.
Vefsíða: acehotel.com/newyork

- Auglýsing -

Hotel Hugo
Þetta hótel er í SoHo-hverfinu á Manhattan en það er einstaklega fallega innréttað. Hlýleg hnota er á sumum veggjum og húsgöngin eru stílhrein og minna svolítið á 6. áratug síðustu aldar. Fallegar plöntur eru einnig víða en herbergin eru almennt fremur stílhrein. Skemmtilegur þakbar er á hótelinu sem snýr út að Hudson-ánni og algerlega frábært að fá sér drykk þar í sólsetrinu þegar veður leyfir.
Vefsíða: hotelhugony.com

Public
Eigendur þessa hótels opnuðu dyr sínar í júní 2017 og er kannski á mörkunum að flokkast undir boutique-hótel en er engu að síður afar áhugavert. Public er á Lower East Side og því fremur neðarlega á Manhattan. Hótelið er sérlega hipp og kúl og fremur svalt um þessar mundir. Hægt er að fá pínulítil herbergi upp í stór en hönnunin er sérlega einföld en samt svolítið framúrstefnuleg. Rúmin eru inn í einskonar hólfi inn í herberginu. Ljós viður og hvítir veggir með virkilega kósí lýsingu gera þetta hótel að góðum kosti. Rúllustigarnir á Public eru mjög töff og vinsælt að taka myndir þar. Nokkrir veitingastaðir og barir eru á hótelinu sem eru bæði fallegir og bjóða upp á góðan mat. Þakbarinn er sérlega skemmtilegur og vinsæll og um að gera að nýta sér hann. Þjónustan er svolítið öðruvísi en menn eiga að venjast, t.d. er ekki hægt að fá „room service“ á herbergið en hægt er að panta mat og drykk og sækja sjálfur svo dæmi sé tekið.
Vefsíða: publichotels.com

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -