Föstudagur 12. júlí, 2024
12.8 C
Reykjavik

Þar sem fjöllin og himinninn sameinast

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það var á bjartasta tíma ársins sem gönguklúbburinn Vesen og vergangur var með skipulagða ferð á suðurfjörðum Vestfjarða. Á fjórum dögum upplifði göngufólk ævintýri frá morgni til kvölds hvort sem það tengdist náttúrunni eða sögunni.

 

Einar Skúlason stofnaði Vesen og vergang fyrir 12 árum síðan og í fjögur ár hefur undirrituð gengið með honum bæði hér á landi og erlendis og á meðal ferða í sumar var fjögurra daga ferð um suðurfirði Vestfjarða. Í þessari ferð sá frændi hans, Hákon Ásgeirsson, um leiðsögnina með honum.

Svava Jónsdóttir.
Vaðalfjöll. (Mynd: SJ).

Sólin skein í heiði þegar hópurinn stöðvaði bílana við Bjarkalund og þar var svo sameinast í bíla og ekið upp að Vaðalfjöllum: Tveir um 100 metra háir blágrýtistappar, stuðlabergsstandar, sem standa upp úr Þorskafjarðarheiði. Hvað getur maður sagt um þessi náttúruundur? Maður hugsar um ævintýralegar kvikmyndir þar sem þetta gæti verið umhverfið. En upp gengum við í sólskininu og þegar komið var að blágrýtistöppunum, stuðlabergsstöndunum, vorum við óskaplega lítil og tíkarleg. Þannig er bara náttúran. Flestir fóru upp á topp með því að fara upp brattan klettavegginn en svo var líka hægt að ganga meðfram tappanum, stuðlabergsstöndunum, og leggjast þar í mosann og njóta góða veðursins þar til hópurinn kom að ofan. Það sem fer upp fer almennt niður og þegar komið var í bílana var haldið að næsta áfangastað þennan fyrsta dag.

Svava Jónsdóttir (Vaðalfjöll).

Vatnsfjörður. Þvílík fegurð. Fjörðurinn var lýstur sem friðland á sjötta áratug síðustu aldar. „Tilgangur friðlýsingar er að vernda náttúru á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar,“ segir á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

- Auglýsing -

Og það er svo sannarlega hægt að njóta náttúrunnar þarna.

Þarna er að finna Gíslahelli en sagan segir að Gísli Súrsson hafi falið sig þar í útlegðinni en það var þegar heimurinn var í huga sumra í svarthvítu þar sem svo langt er síðan og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta var. Gísli ku hafa verið á flótta undan Berki digra og mönnum hans. Skríða þarf niður í hellinn um hálfgerða holu og þurfa fæturnir að fara á undan. Holan er svo lítil að það er ekki fyrir hávaxna né þrekna menn að komast þar inn en einn reyndi og honum tókst. Spurning hvort það hafi nokkuð þýtt fyrir Börk digra að prófa. Það eru engin kósíheit í holunni en hvað veit maður hvernig þetta hefur verið i den. Kannski hefur Gísli verið með sauðagæru í hellinum til að halda á sér hita. Hver veit.

Svava Jónsdóttir
Gíslahellir. (Mynd: SJ.)

Þar rétt hjá standa klettar og teygja sig átt til þess sem öllu ræður. Þar má finna trjáholur enda var þarna mikill skógur þegar hraunið rann og hraunið umlukti trjábolina sem koluðust og því eru þessar hringlaga holur sem minnisvarði um veröld sem var á upphafsskeiði myndunar Íslands fyrir milljónum árum síðan.

- Auglýsing -

Hörgsnes heitir nesið þar sem hópurinn skoðaði sig um og kletturinn með trjáholunum heitir Hörgur; hörgur er heiðið blótshús eða blótstallur og er talið að hörgar hafi upphaflega verið blótstaðir undir berum himni. Talið er einmitt að blót hafi verið haldin undir klettinum.

Næst var haldið á Patreksfjörð þar sem gist var næstu þrjár nætur. Sumir gistu á tjaldstæðinu. Aðrir á hóteli. Félagsheimilið var okkar þessa daga fyrir morgunmat og kvöldmat. Kvöldvökur. Söng. Og dans.

 

Rauður eins og ástin

Rauðasandur. Um 10 kílómetra strandlengja. Birtan ku ráða því hvort rauðleitur sandurinn virðist vera gulur, rauður eða jafnvel svartur. Rauði liturinn stafar af skeljabrotum frá hörpudiskaskeljum. Öldurnar dönsuðu við sandinn og báru kveðju úr djúpinu þennan dag sem endranær. Þarna er hægt að búa til listaverk í sandinum með göngustöfunum. Móta hjarta. Móta hjarta í rauðan sandinn sem er rauður eins og ástin.

Svava Jónsdóttir
Hjarta á Rauðasandi. (Mynd: SJ.)

Skammt frá lágu selir og horfðu með barnsaugum á íslenska sumarið.

Svava Jónsdóttir.
Á Rauðasandi.

Ást og hatur. Nokkurra kílómetra ganga er að bæjartóftunum þar sem áður stóð bærinn Sjöundá en anno 1802 voru þar framin morð. Tvö morð. Ástæðan ku hafa verið ást í leynum. Tvenn hjón. Svik. Framhjáhald. Morð. Þann dag hefur sandurinn kannski orðið svartur.

Taka átti glæpaparið af lífið í Noregi en áður en að því kom lést glæpakvendið á Íslandi og er ekki vitað um dánarorsök hennar. Ástmaður hennar var hins vegar fluttur til Noregs þar sem höfuð hans mátti fjúka. Svartfugl meistara Gunnars Gunnarssonar lýsir þessari átakanlegu sögu um ást og hatur. Líf og dauða.

Svava Jónsdóttir
Sjöundá. Bæjartóftir. (Mynd: SJ.)

Það var skýjað þennan dag þegar hópurinn stóð og sat í bæjartóftunum þar sem örlögin urðu anno 1802 eins og þau urðu. Skrifað í gestabók. Eftir það var gengið upp í mót fyrir ofan bæjartóftirnar. Ölduskarð. Þeir hugrökkustu héldu svo áfram upp í þokunni og alla leið á klettasyllur niður í Stálvík og skoðuðu surtabrandsnámurnar sem þar eru. Þar þarf að skríða ofan í holu eins og til að komast inn í Gíslahelli.

Þjóðarblómið, holtasóleyin, skartar sínu fegursta á íslensku sumri. Í fyrra var trendið hjá Veseni og vergangi að taka selfí við lambagras. Þetta sumarið er það holtasóleyin. Við vorum þrjár sem lágum flötum beinum á litlu svæði við þessa athöfn þegar ungur Svisslendingur kom að okkur og fór að spjalla. Hann var búinn að vera á Íslandi í tvær vikur, sagðist vinna við tölvumál í heimalandi sínu og að hann gæti ekki búið á Íslandi af því að hér væri svo kalt.

Hann tók ekki selfí við holtasóleyjarbreiðu. Hann gerir það hins vegar kannski við alprarósarbreiðu í heimalandi sínu en þar er alparós þjóðarblómið.

Svava Jónsdóttir
Rauðasandur. (Mynd: SJ.)

 

  1. júní

„Hæ, hó, jibbí, jei og jibbí, jei, það er kominn 17. júní,“ orti Bjarmar Hannesson.

Þjóðhátíðardagurinn rann upp bjartur og fagur.

Svava Jónsdóttir
Horft til Patreksfjarðar. (Mynd: Stefán Guðleifsson.)

Undirrituð hafði keypt íslenska fánann og skreytti hann bakpokann þegar haldið var gömlu þjóðleiðina yfir Lambeyrarháls til Tálknafjarðar og var komið niður rétt við bæinn Lambeyri í Tálknafirði og er brekkan niður frekar brött en farið er þó eftir stíg. Um er að ræða um sjö kílómetra leið og er hækkun um 450 metrar.

Svava Jónsdóttir
Gengið var 17. júní þjóðleiðina yfir Lambeyrarháls til Tálknafjarðar. Og auðvitað var íslenski fáninn með í för. (Mynd: SJ.)

Kríuvötn ofan á heiðinni minna á rjóma ofan á tertu sem bökuð hefur verið í tilefni dagsins.

Leiðin er þægileg yfirferðar þar sem hún er aflíðandi og uppi á heiðinni má sjá glæsilegar vörður sem minna á þá sem þarna hafa farið um. Og auðvitað var íslenski fáninn settur niður svo sem ofan á vörðu í tilefni dagsins og til að taka mynd.

Þegar niður var komið fóru sumir í aðra gönguferð hinum megin við fjörðinn, upp á Geitárhorn, og aðrir fór í heitan pott, Pollinn, fyrir utan Tálknafjörð; bæinn sjálfan.

 

Nýr heimur

Síðasti dagur þessarar ævintýraferðar Vesens og vergangs rann upp jafnbjartur og fagur og aðrir dagar þótt ský og þoka hafi varpað skugga á daginn sem farið var á Rauðasand. Patreksfjörður var kvaddur og ekið var áleiðis að Arnarfirði. Hrafnseyri við Arnarfjörð þar sem Hrafn Sveinbjarnarson bjó og starfaði á Sturlungaöld við miklar vinsældir alþýðunnar og var svo veginn af Þorvaldi Vatnsfirðingi í valdabaráttu þess tíma. Þar í grenndinni fæddist Jón Sigurðsson, kallaður forseti, einmitt 17. júní. Á leiðinni hafði verið ekið fram hjá sjálfum fossinum Dynjanda sem lætur suma aðra fossa landsins blikna í samanburði. Þvílíkur er hann.

Svava Jónsdóttir
Uppi á Kaldbaki. Fararstjórarnir og frændurnir Hákon Ásgeirsson og Einar Skúlason (í rauðu).

Markmiðið þennan dag var að fara upp á Kaldbak; hæsta fjall Vestfjarða.

Sameinast var í bíla en langur fjallvegurinn að Kaldbaki er ekki fyrir hvaða bíl sem er.

Ekið var svo áleiðis upp fjallið eftir vegaslóða um Fossdal og síðan tók gangan við. Frekar brött ganga í grjóti og mosa. Toppur Kaldbaks tignarlegur og skreyttur snjósköflum að hluta. Nokkur létu sér nægja að komast á þann „topp“ þar sem sást yfir í næsta fjörð og yfir næstu fjöll og aðrir fóru á aðaltoppinn sjálfan sem er mun hærri.

Svava Jónsdóttir
Útsýni frá Kaldbaki. (Mynd: SJ.)

Þvílík upplifun. Þvílík fegurð.

Þegar upp var komið opnuðu náttúruvættir stórar dyr og við blasti nýr heimur. Síbreytilegt náttúrulistaverk sem hvorki El Prado- safnið í Madrid né Louvre-safnið í París geta státað af.

Og sjálft þjóðarblómið skreytir svörðinn ásamt vetrarblómum og fleiri blómum og passaði vel, enda var þetta dagur norrænna villtra blóma.

Það var tilvalið að leggjast niður í þennan sama svörð í sólinni.

Hlusta á þögnina.

Hlusta á flugurnar.

Láta sig dreyma.

Ferðasögu Svövu og annarra má lesa í nýjast tölublaði Mannlífs:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -