Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Óvissunni ekki eytt þrátt fyrir stórtíðindi gærdagsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Enn er mikil óvissa um íslensku flugfélögin eftir tíðindamikinn gærdag. Þótt bráðabirgðasamkomulag liggi fyrir um kaup Indigo partners á WOW liggi fyrir þá er rekstur félagsins enn í járnum. Á sama tíma kynnir Icelandair stórhuga áform um aukin umsvif en þrátt fyrir það hríðféllu hlutabréf félagsins í morgun.

Icelandair féll í gær frá kaupunum á WOW eftir að ljóst varð að fjárþörf lággjaldaflugfélagsins var umtalsvert meiri en stjórnendur Icelandair höfðu gert ráð fyrir. Í tilkynningu til kauphallar var það orðað þannig að viðskiptin hafi ekki staðist þær forsendur sem gerðar voru við undirritun kaupsamningsins. Til stóð að samþykkja kaupin á hlutahafafundi Icelandair sem haldinn var í morgun en tillaga fundarins var, eðlilega, borin tilbaka.

Ákvörðun Icelandair þurfti ekki að koma á óvart í ljósi þess hvað gerðist í aðdraganda fundarins. Að beiðni FME höfðu viðskipti með Icelandair verið stöðvuð og þá upplýsti Skúli Mogensen, forstjóri WOW, í tölvupósti til starfsmanna sinna að hann ætti í viðræðum við aðra fjárfesta. Það kom flatt upp á stjórnendur Icelandair. Loks bárust fréttir af því að WOW myndi skila fjórum þotum sem það hafði haft á leigu sökum minnkandi umsvifa.

Seint í gærkvöldi bárust svo tíðindi af bráðabirgðasamkomulagi um kaup fjárfestingafélagsins Indigo Partners á WOW. Bandaríska félagið hefur víðtæka reynslu af rekstri lággjaldaflugfélaga og er til að mynda aðalfjárfestirinn í Tiger Airways sem er með bækistöðvar í Singa­pore, og Spi­rit Air­lines, sem er staðsett í Flórída. Það er einnig stór fjár­fest­ir í Wizz Air Hold­ings, Plc, Frontier Air­lines, Volar­is Air­lines og JetS­MART. Það yrði því mikill happafengur fyrir Skúla og WOW gangi kaupin í gegn.

Það er hins vegar ekkert víst að svo verði enda einungis um bráðabirgðasamkomulag að ræða og enn er margt á huldu um viðskiptin. Þannig kemur ekkert fram í tilkynningu WOW hverjir skilmálarnir eru og þá eru uppi efasemdir um rekstrarhæfi WOW. Öldurót undanfarinna vikna hefur án efa haft áhrif á bókanir og um leið fjármagnsflæði til fyrirtækisins. Sú staðreynd að Skúli þurfti að lýsa því yfir að starfsmenn fengju greidd laun nú um mánðarmótin segja sína sögu um stöðu fyrirtækisins. Fyrirhuguð kaup Indigo og WOW munu taka einhvern tíma og Skúli þarf þess vegna að tryggja rekstur WOW þangað til. Til þess gæti þurft umtalsverðar fjárhæðir og tíminn mun leiða í ljós hvort og þá hvernig það bil verður brúað. Nú þegar er farið að grípa til ráðstafana og fengu 15 starfsmenn WOW uppsagnarbréf í morgun.

Það er mikið undir fyrir íslenskt efnahagslíf að kaupin gangi í gegn enda gerir greining stjórnvalda ráð fyrir að fall WOW myndi þýða umtalsverða veikingu krónunnar og samdrátt hagvaxtar um allt að 3%. Höggið fyrir ferðaþjónustuna yrði gríðarlegt sem sést á því að Airport Associates á Keflavíkurflugvelli sagði upp 237 manns í gær þegar ljóst var að kaup Icelandair á WOW myndu ekki ganga í gegn. Um varúðarráðstafanir er að ræða og standa vonir til að hægt verði að draga uppsagnirnar tilbaka ef það tekst að halda WOW á floti.

Hræringar hjá Icelandair

- Auglýsing -

Hlutabréf í Icelandair ruku upp þegar tilkynnt var um kaupin á WOW. Að sama skapi hríðféllu þau þegar tilkynnt var um að ekkert yrði af þeim. Á hluthafafundi í morgun var tilkynnt um metnaðarfull áform Icelandair um að stækka leiðarkerfið og stjórfjölga flugferðum á helstu áfangastaði félagsins. Hægt yrði að auka sætaframboð um 35% og auka fjölda ferðamanna til Íslands um 350 þúsund. Þá var samþykkt tillaga um að auka hlutafé í Icelandair um allt að 625 milljónir hluta að nafnvirði.

Ólíkt því sem við mátti búast héldu hlutabréf í Icelandair áfram að falla í morgun, þrátt fyrir þessi tíðindi. Annað hvort hefur markaðurinn ekki trú á fyrirætlunum stjórnenda fyrirtækisins eða hann metur sem svo að mögulegur nýr eigandi WOW sé ógn fyrir Icelandair. Að sama skapi hefur markaðurinn tekið vel í tíðindin af WOW því gengi krónunnar hefur styrkst gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum og gengi allra félaga í kauphöllinni, að Icelandair undanskildu, hafa hækkað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -