Sunnudagur 16. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Segir marga myndlistarmenn lenda á milli skips og bryggju í kerfinu – „Staðan er almennt mjög vond“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bandalag íslenskra listamanna stendur nú fyrir könnun meðal félagsmanna aðildarfélaga sinna um hvernig listamönnum hefur gengið að fá lausn mála sinna í úrræðum Vinnumálastofnunar vegna tekjumissis sem þeir hafa orðið fyrir vegna kórónuveirufaraldurins.

Hlynur Helgason myndlistarmaður situr í stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) og er í matsnefnd úthlutunar hjá Myndlistarsjóði. Hann segir vísbendingar benda til þess að margir sjálfstætt starfandi listamenn séu í vondri stöðu og lendi á milli skips og bryggju í kerfinu þegar kemur að því að sækja um bætur á móti tekjumissi hjá Vinnumálastofnun.

„Staðan er almennt mjög vond,“ segir Hlynur. Hann segir stöðuna vissulega vera breytilega á milli stétta innan listaheimsins en almennt blasi mikil óvissa við listamönnum.

„Við vitum ekki hvernig þróunin verður í þessari kreppu en ef við miðum við síðustu kreppu þá þornaði sala á myndlist alveg upp. Það tók fimm til sex ár að ná einhverri sölu upp aftur,“ segir hann og bætir við að aðgerðir stjórnvalda við að koma til móts við listamenn muni vissulega laga stöðuna hjá einhverjum listamönnum en þau úrræði dugi skammt.

Myndlistarsjóður fékk til að mynda 57 milljónir aukalega til að veita í styrki til sjálfstætt starfandi listamanna til að sporna gegn efnahagsáhrifum COVID-19 innan stéttarinnar.

„Fólk er farið að finna fyrir áhrifunum.“

Hlynur segir rúmlega 300 listamenn hafa sótt um styrk úr þeim sjóði og rúmlega 100 fá styrk. „Þannig að þetta lagar stöðuna að einhverju leyti hjá einhverjum listamönnum.“

- Auglýsing -

Hann segir marga listamenn ná að dekka fastan kostnað, svo sem efniskostnað og leigu á vinnustofu, með listaverkasölu. En þegar kreppa blasir við dregst listaverkasalan saman og listamenn sjá ekki fram á að ná endum saman með þessu áframhaldi. „Fólk er farið að finna fyrir áhrifunum,“ segir Hlynur.

Lenda á milli skips og bryggju í kerfinu

Könnun á úrræðum Vinnumálastofnunar fyrir sjálfstætt starfandi listamenn stendur yfir. Niðurstöður liggja ekki fyrir en Hlynur segir umræðuna innan myndlistaheimsins benda til þess að margir listamenn lendi á milli skips og bryggju í kefinu þegar komi að því að sækja um bætur í tímabundnum samdrætti vegna kórónuveirufaraldursins.

- Auglýsing -

„Þetta fer auðvitað eftir listamönnum. Sumir hafa verið mjög skipulagðir og alltaf greitt tryggingargjald en aðrir hafa ekki haft nógu miklar tekjur til að ráða við það. Svo eru enn aðrir sem hafa greitt einhvern hluta en ekki nóg til að geta sótt um bætur á móti skertum tekjum. Þeir sem hafa svo ekki greitt tryggingargjald eru í vondum málum,“ segir Hlynur.

Hann tekur fram að það sé hugur í mönnum og að margt fólk bíði nú og voni að ástandið muni batna sem fyrst.

Listasnautt umhverfi leiðin að þunglyndi

Umræðan um mikilvægi listar og menningar er oftar en ekki fylgifiskur umfjöllunar um kjör og starfsumhverfi listamanna. Spurður út í gagnrýnisraddir sem heyrast gjarnan þegar málefni listamanna eru til umfjöllunar, þar sem listamönnum er sagt að fá sér „alvöruvinnu“ segir Hlynur: „Við getum sagt að listin hefur verið einkenni mannlegs samfélags áður en menn fóru að tala. Þessi hugmynd um að menn þurfi bara að borða, drekka og hafa húsaskjól til að lifa af, það er búið að afsanna hana.“

Hann segir listasnautt umhverfi leiðina að þunglyndi. „Það er nauðsynlegt að byggja upp fjölbreytt umhverfi. Listin leiðir af sér mikla nýsköpun og þróun og skapar fjölbreytt samfélag. Það er sérstaklega mikilvægt að hlúa að listgreinum í litlum samfélögum og fámennum löndum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -