Miðvikudagur 9. október, 2024
1.7 C
Reykjavik

Litið um öxl – Forsíður ársins 2020

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er gaman og áhugavert að líta yfir farinn veg þegar áramótin nálgast. Hús og híbýli heimsótti fjöldann allan af glæsilegum heimilum á árinu sem er að líða og forsíður ársins bera þess glögglega merki. Hérna tökum við smá upprifjun og skoðum forsíður Húsa og híbýla á árinu 2020.

Fyrsta tölublað ársins

Nýr og glæsilegur DILL Restaurant prýddi fyrsta tölublað ársins. Gunnar Karl Gíslason,
eigandi staðarins og matreiðslumaður ræddi við Hús og híbýli um nýja staðinn.  Hann ákvað að hanna nýja DILL sjálfur og fékk til liðs við sig góðan vin sinn, hönnuðinn og listamanninn Anthony Bacigalupo.

Anthony og Gunnar. Mynd / Hallur Karlsson

Gunnar Karl sagði að markmiðið hafi verið að ná fram ákveðnum hughrifum hjá gestum staðarins en gengið er inn frá Laugaveginum þar sem oft er ys og þys. Gunnar Karl og Anthony voru algjörlega sammála um að sú nálgun að skapa nýjan heim sem tæki
gesti í ferðlag fjarri Laugaveginum væri sú sem þeir vildu leggja áherslu á.

Annað tölublað ársins

Náttúrulegt og afslappað í Laugardalnum var yfirskriftin á innlitinu sem prýddi þessa forsíðu.

- Auglýsing -

Við heimsóttum Dagnýju Berglindi sem er mjög hrifin af lítið unnum náttúrulegum efnum og það sem hún leitar eftir á nytjamörkuðum er gegnheill viður, bambus, bast og leirmunir
en hún er lítið fyrir plasthúðað. Heimili hennar ber þess merki að endurnýting er henni hugleikin.

Mynd / Hallur Karlsson

Þriðja tölublað ársins

- Auglýsing -

Við heimsóttum þau Caroline og Benoit á Álftanes en þau rifu sig upp með rótum
og fluttu með fjölskylduna til Íslands. Caroline og Benoit eru frá Le Mens í Vestur-Frakklandi en höfðu búið í Lúxemborg í yfir tíu ár áður en þau ákváðu að elta drauminn sem þau höfðu gengið með í nokkurn tíma, að flytja til Íslands.

Mynd / Hallur Karlsson

Húsið sem þau búa í er sérstaklega bjart og fallegt og þar kveður við einhvern nýjan og ferskan tón. „Við máluðum allt í mismunandi litum og svo voru auðvitað nokkrir veggir veggfóðraðir en krakkarnir fengu að velja litina og veggfóðrið í sín herbergi og gaman að sjá hvað þau völdu ólíkt,“ sagði Caroline í samtali við Hús og híbýli fyrr á árinu.

Fjórða tölublað árins

Þessi bjarta íbúð í Holtunum í Reykjavík prýddi fjórðu forsíðuna okkar. Þar búa þau Tanja Rós og Guðmundur ásamt syni þeirra Emanúel, tveggja ára.

Þau keyptu íbúðina haustið 2019 og réðust í töluverðar framkvæmdir á eigninni. Alrýmið var allt tekið í gegn og fimm vikum seinna voru þau flutt inn. Íbúðin er í ljósum tónum og fær hvert smá atriði að njóta sín vel.

Mynd / Hákon Davíð

Guðmundur og Tanja sögðu blaðamanni Húsa og híbýla frá framkvæmdunum. Þau gerðu íbúðina nær fokhelda, skiptu um allt gólfefni, hurðir og eldhúsinnréttingu. Þá settu þau upp vegg til þess að búa til aukaherbergi og útbjuggu rennihurð til þess að nýta rýmið sem best.

Fimmta tölublað árins

Í vor heimsóttum við þetta fallegt hús sem stendur við Gálgahraun í Garðabæ en húsið
hefur tekið miklum breytingum síðasta áratuginn. Það var arkitektastofan Gláma•Kím sem sá um að hanna viðbyggingu við húsið auk breytinga að innan árið 2003.

Húsið var síðan tekið í gegn að nýju 2018-2019 og var það innanhússhönnuðurinn Dóra Björk Magnúsdóttir sem sá um verkið í góðu samstarfi við eigendur hússins.

Dóra tók á móti okkur og sagði okkur frá þessu stórfenglega húsi.

Mynd / Hákon Davíð

Sjötta tölublað árins

Þetta undurfagra heimili prýddi sjötta tölublað ársins. Eva Dögg Rúnarsdóttir tók á móti okkur. Hún hefur skýra sýn þegar kemur að heimilinu og ræður náttúran ríkjum,
sem dregin er inn með efni og áferð á borð við tré, bambus, stein og gler,
keramík, kork og dempuðum jarðlitatónum.

„Ég get ekki ímyndað mér að eiga heima í íbúð þar sem allt er svart og grátt en mér líður best umvafin hvítum og ljósum litum,“ sagði Eva. Hún fylgir eigin innsæi og hugarheimi þegar kemur að heimilinu og lýsir hún stílnum sem náttúrulegum fyrst og fremst með exótísku ívafi.

Sjöunda tölublað ársins

Í fagurbláu húsi, byggt árið 1945, undir Eyjafjöllum hafa þau Fríða Jónsdóttir og eiginmaður hennar, Guðmundur Tómasson, búið sér fallegan íverustað. Þetta var einstaklega skemmtileg ehimsókn og bláa húsið rataði á forsíðu Húsa og híbýla í sumar.

Fríða hefur lengi verið viðloðandi sölu á antíkmunum og rak verslunina Hús fiðrildanna
um nokkurra ára skeið. Sumarhúsið ber þess glöggt merki enda hlaðið einstökum munum héðan og þaðan, litagleðin er við völd og eru þau hjónin óhrædd við að fara eigin leiðir.

Mynd / Hákon Davíð

Áttunda tölublað ársins

Stórkostlegt hús með sögu og sál var yfirskriftin á þessu skemmtilega innliti í veiðihúsið við Laxfoss.

Norðurá er um 62 kílómetra löng á sem á upptök sín í Holtavörðuvatni. Þrír fossar eru í ánni en þeir eru Laxfoss, Glanni og Króksfoss. Laxfoss er neðstur og er líklega frægasti fossinn í ánni en þar hefur staðið veiðihús frá árinu 1907. Sigrún Ása Sturludóttir náttúrufræðingur og Þór Gunnarsson lífeðlisfræðingur eru eigendur jarðarinnar Laxfoss í dag.

Elsti hluti veiðihússins við Laxfoss var byggður árið 1907 af Friðriki Jónssyni stórkaupmanni en hann var betur þekktur sem annar Sturlubræðra en þeir bræður, Friðrik og Sturla, voru meðal helstu kaupmanna og athafnamanna í Reykjavík fyrir og eftir aldamótin 1900.

Sigrún og Þór hafa ráðist í töluverðar framkvæmdir undanfarin misseri sem áttu að vera litlar en undu svo upp á sig eins og oft vill verða. Munirnir eru flestallir samofnir sögu hússins og tengjast margir þeirra veiðimennskunni. Ákaflega skemmtilegt innlit.

Mynd / Hákon Davíð

Níunda tölublað árins

Fyrir þetta blað heimsóttum við magnað hús Jakobs Jakobssonar og Guðmundar Guðjónssonar á Vestfjörðum.

Jakob og Guðmundur eru eigendur Matkránnar í Hveragerði. Þá hafði dreymt um að eignast afdrep úti á landi og varð sá draumur að veruleika árið 2011 þegar þeir festu kaup á jörð við fallegan fjörð fyrir vestan.

Bæjarhúsið var byggt um 1850 og hefur það tekið miklum breytingum í tímans rás. „Húsið var alveg á síðustu metrunum þegar við keyptum það. Það sem bjargaði því í raun frá eyðileggingu var að brúarstarfsmenn höfðu aðsetur hér á meðan þeir voru við vinnu í sveitinni. Þeir lögðu raflagnir svo hægt væri að búa í húsinu og þeir sáu um að hægt væri að setja hita á ofnana. Þakið lak og við byrjuðum á að setja málmplötur á þakið og kítta til að stöðva lekann en skiptum svo alveg um þakið síðar,“ sagði Jakob í samtali við blaðamann Húsa og híbýla.

Tíunda tölublað ársins

Í grónu hverfi í Hvassaleitinu, búa framtakssöm hjón, þau Hildur, arkitekt og
umhverfisfræðingur, og Hreiðar Levy fasteignasali. Við heimsóttum þau fyrir tíunda blaðið okkar. Það var Magnús Guðmundsson byggingafræðingur sem teiknaði húsið, tvílyft raðhús með íbúð í kjallaranum, sem telur rúma 270 fermetra.

Húsmunir bera þess merki að eigendur heillast mikið af klassískri hönnun um og eftir 1960, en einnig setja ýmiss konar gersemar af mörkuðum og sölusíðum sterkan svip á heimilið. Innanhússstraumar frá Danmörku hafa einnig fylgt þeim en Hildur bjó lengi vel þar í landi er hún lagði stund á nám í arkitektúr í Konunglegu dönsku listakademíunni.

Græni og grái liturinn nær að miklu leyti í gegnum íbúðina og ber opið rýmið litina vel. Stíll heimilisins er látlaus og klassískur og segist Hildur hafa það sem áhugamál að kaupa notuð húsgögn.

Mynd / Hallur Karlsson

Ellefta tölublað ársins

Við Vesturgötu í Hafnarfirði búa hjónin Elías Guðmundsson og Sólveig Eiríksdóttir í glæsilegu húsi sem var teiknað árið 2005 af Batteríinu.

Solla og Elías festu kaup á húsinu á vordögum 2018 og segir Elli að húsið hafi algjörlega uppfyllt þær kröfur sem þau gerðu til húsnæðis og nefnir hann þætti eins og mikla lofthæð,
fjölda svefnherbergja og stærð hússins í heild. Áður bjuggu þau í miðbæ Reykjavíkur þegar ferða­­mannaiðnaðurinn var að ná hámarki í borginni með tilheyrandi ys og þys.

Þau segjast bæði vera mjög sátt í Hafnarfirði og eru ánægð með menningarlífið sem þau eru dugleg að sækja og segja janframt að það líði oft margir dagar án þess að þau þurfi að sækja sér þjónustu utan bæjarins því þar sé flest allt við hendina og þau
vinna bæði mikið heima við.

Úr stofunni er gengið út á þaksvalir sem byggðar eru ofan á bílskúrinn og myndar einstaklega skemmtilegt útisvæði sem hjónin segjast nota mjög mikið. Mynd / Hallur Karlsson

Tólfta tölublað ársins

Forsíða jólablaðsins okkar var dökkblá og hátíðleg. Við skoðuðum hvernig er hægt að vinna með það sem til er í skreytingar. Hér var notast við greinar, greni, ber, köngla, kerti og pappastjörnur.

Við gáfum lesendum ýmsar skreytingahugmyndir í þessu blaði og sýndum meðal annars hvernig hægt er að skreyta kökur með ferskum blómum. Sum blóm eru æt og er til dæmis hægt að fá slík rósablöð í Jurtaapótekinu.

Mynd / Hallur Karlsson

Þrettánda tölublað ársins

Skreyting sem Ingunn Embla Axelsdóttir stillti upp fyrir okkur heima hjá sér prýddi hátíðarblað Húsa og híbýla. Dásamlega fallegir litir einkenna þessa forsíðu.

„Hugmyndin á bak við jólaskreytinguna mína var sú að nýta eitthvað sem venjulega er ekki
nýtt sem jólaskraut. Einnig fannst mér mikilvægt að þurfa ekki endilega að eyða pening í árstíðabundið jólaskraut sem maður geymir svo í kassa uppi á háalofti 90% af árinu, frekar nýta það sem til er. Þar sem ég bý til mína eigin skartgripi ákvað ég að nota þá sem skreytingu á litla jólatréð mitt,“ segir Ingunn um skreytinguna.

Fyrir áhugasama er hægt að skoða skartið hennar Ingunnar á Instagram-síðunni, ingunnemblaa.

Mynd / Hákon Davíð

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Íslenskt fagtímarit um heimili og hönnun

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu 13 tölublöð á 1.538 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 2.430 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -