Sunnudagur 16. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Söngkona í heillandi bakhúsi í miðbænum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Thorlacius er heillandi karakter með fallega og fíngerða rödd. Blaðamann grunaði að heimili hennar væri líka heillandi og ákvað að hringja í söngkonuna með fallegu röddina með þá von í brjósti að hún væri til í að leyfa okkur að kíkja í heimsókn. Sigríður tók vel í hugmyndina. Nokkrum dögum síðar vorum við mætt í litla bakhúsið hennar við Þórsgötu.

„Ég hef búið hér í tæp þrjú ár, ég bjó áður á Grettisgötu en ég ólst upp í Hlíðunum. Flutti svo í Laugarneshverfið og bjó þar alla mína skólagöngu þangað til ég flutti að heiman. Ég ákvað að fara fyrst til Parísar með vinkonu minni í hálft ár sem var æðislegt, við vorum bara að læra frönsku, drekka kaffi og rauðvín og njóta lífsins. Ég leigði svo í nokkur ár og keypti síðan mína fyrstu íbúð 2008. Hún var 35 fermetrar og við Grettisgötu. Svo flutti ég hingað í heila 50 fermetra og fyrir mér var þessi íbúð mjög stór því ég var að koma úr svo pínulitlu,“ segir hún hress í bragði og sýnir okkur litlu íbúðina sína. „Mér líður alveg brjálæðislega vel hérna og vil ekki hafa meira pláss, ég þarf ekki meira pláss og ég myndi bara safna að mér meira dóti ef ég byggi í stærra húsnæði því ég er svo mikill safnari í mér,“ segir hún sátt við sitt krúttlega bakhús í miðbænum.

Svo flutti ég hingað í heila 50 fermetra og fyrir mér var þessi íbúð mjög stór því ég var að koma úr svo pínulitlu.

Stemmningin á heimili Sigríðar er svolítið frönsk.

Syngur ekki mikið í hljóðbæra bakhúsinu

Syngur þú mikið þegar þú ert ein heima? „Nei, ekki mikið hérna heima því það býr stelpa á hæðinni fyrir ofan mig og þetta hús er gamalt og mjög hljóðbært. Ég heyri í kisunum hennar niður til mín og vatnið renna sem mér finnst afskaplega notalegt en ég verð að sýna tillitssemi í svona hljóðbæru húsi og er því ekki mikið að góla,“ svarar hún hlæjandi. Heiðdís ljósmyndari skýtur þá inn í umræðuna, þar sem hún stendur í stofunni með myndavélina, að það muni nú örugglega enginn kvarta yfir söng frá sjálfri söngdívunni Sigríði Thorlacius, það þætti bara plús að búa fyrir ofan hana og allir viðstaddir gestir eru sammála því.  „Stundum nota ég heimilið þegar ég þarf að æfa mig aðeins með einhverjum, þá æfum við okkur hérna í eldhúsinu. En annars æfi ég mig ekki mikið ein, ég syng nánast á hverjum einasta degi og þannig held ég mér í æfingu.“

Rómantískur stíll einkennir svefnherbergið.

Var augljóst frá því að þú varst krakki að þú myndir feta þennan veg; ætlaðir þú þér alltaf að verða söngkona? „Nei, það var alls ekki augljóst, ég var svo feimin sem barn og til baka. Ég fór svo í söngnám, byrjaði í klassísku söngnámi þegar ég var að byrja í menntaskóla og svo var ég í Hamrahlíðarkórnum í tíu ár og það var, má segja, minn stóri skóli. Þegar ég fór til Parísar hætti ég í klassíska söngnáminu og fór að læra jass þegar ég kom til baka og kynntist þá fólki í bransanum og þannig eiginlega gerðist það að ég varð söngkona,“ svarar hún hógvær og kveikir á kertunum á eldhúsborðinu.

Baðkerið griðastaður söngkonunnar

Sigríður skellir sér í bað þegar hún þarf að núllstilla sig.

Eldhúsið í litlu íbúðinni hennar Sigríðar er einstaklega notalegt og innréttingin í meira lagi óhefðbundin en hún segir að svona hafi eldhúsið verið þegar hún keypti íbúðina. Gamaldags og sjarmerandi og hæfir húsinu vel. Og þegar blaðamaður spyr hana hvar í íbúðinni henni líði best segir hún að eldhúsið sé hennar staður: „Mér líður mjög vel hérna við eldhúsborðið og þegar ég fæ gesti sitjum við oftast í eldhúsinu en mér finnst líka rosalega gott að liggja í baði, þar slaka ég á og stundum fer ég í bað tvisvar á dag til að slaka á. Ástæðan fyrir því að ég keypti þessa íbúð var baðkerið því ég var bara með sturtu þar sem ég bjó áður,“ segir hún og við kíkjum inn á baðherbergið þar sem fallegt, frístandandi baðker, grámálaðir panelveggir og rómantískar lugtir í gluggakistu skapa notalegt andrúmsloft.

- Auglýsing -

Stemningin á heimilinu er örlítið frönsk og þegar Sigríður er spurð út í það segir hún okkur að París sé uppáhaldsborgin hennar, þar bjó hún á sínum tíma og drakk í sig franska menningu. Eftir þá dvöl hefur hún reynt að komast til Parísar helst á hverju ári, að minnsta kosti annað hvert ár. „Ég er einmitt á leiðinni þangað núna í september,“ segir hún brosandi og blaðamaður kemst að því að uppáhaldslagið hennar er gamalt franskt lag sem hún hefur sungið við mikilvæg tímamót í sönglífi sínu.

Gulir tónar, lifandi blóm og kaffiilmur

Heimili Sigríðar er litríkt og lifandi.

Íbúðin er í hjarta borgarinnar en hún er samt alveg laus og við ys og þys mannlífsins og töfraorðið til að ná þessu rólega andrúmslofti er bakhús. „Ég verð ekkert vör við bílaumferð eða mannaferðir, það á aldrei neinn leið fram hjá húsinu mínu. Það breytir öllu að vera í bakhúsi, mér líður bara eins og ég sé ein í heiminum hérna. Ég er ekki viss um að ég myndi velja að búa í miðbæ Reykjavíkur nema bara af því að hér get ég verið alveg í friði. Það finnst mér geggjað. Mér finnst líka æðislegt að búa í göngufæri við flest því ég er ekki á bíl. Ég er bara ein og hjóla og geng eiginlega allt og finnst það mjög þægilegt. Það er minn lífsstíll.“

Ég er ekki viss um að ég myndi velja að búa í miðbæ Reykjavíkur nema bara af því að hér get ég verið alveg í friði.

- Auglýsing -
Sigríði þykir nauðsynlegt að eiga góða kaffivél.

Það fer ekki fram hjá okkur að bjartir litir heilla söngkonuna og lifandi blóm, og hún segir okkur að það sé einmitt það sem hún freistast helst til að kaupa sér; afskorin blóm. „Ég elska blóm og ég er nánast alltaf með lifandi blóm á eldhúsborðinu. Mér finnst svo notalegt að koma heim og það er góð lykt sem tekur á móti mér,“ segir hún brosandi.

Heimilið er litríkt og gulir tónar áberandi. „Ég vil gjarnan hafa liti í kringum mig og gæti aldrei búið í svart/hvítu umhverfi. Ég held rosalega mikið upp á stóra málverkið við endann á sófanum en systir mín sem var mér mjög kær málaði það og hún málaði líka hitt stóra verkið í stofunni. Kannski ég velji ómeðvitað gula tóna inn á heimilið út frá málverkunum hennar. Mér finnst aðalmálið að hafa notalegt í kringum mig og að eiga góða kaffivél,“ segir Sigríður og fær sér sopa af ilmandi kaffi. Við kveðjum söngkonuna með fallegu röddina og höldum út í helgina sem er handan við hornið.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -