Laugardagur 15. júní, 2024
6.8 C
Reykjavik

Stelpulegur stíll í Urriðaholti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á einkar blautum og vindasömum mánudagsmorgni brunuðu blaðamaður og ljósmyndari í innlit í Urriðaholtinu, en þar býr Kristjana Sunna í 95 fm íbúð í nýju fjölbýlishúsi.

Kristjana flutti inn í apríl fyrr á árinu og hefur bersýnilega verið dugleg við að koma sér fyrir og nostra við heimilið. Hún stundar fjarnám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri ásamt því að starfa í heildsölu Swiss Color Iceland, þar sem hún sér um sölu- og markaðsmál.

Dýrðlegt útsýni yfir Urriðavatn

Mynd/Aldís Pálsdóttir

Hvernig líkar þér hér í Urriðaholtinu og hvað heillaði við hverfið? „Ég er úr Hafnarfirðinum og bjó á Völlunum áður en ég flutti hingað, en ég hafði verið að leita að réttu íbúðinni í tvö ár og var alltaf að skoða í þessu hverfi. Þegar ég gekk hér inn fann ég strax að þetta væri rétta íbúðin.“

Kristjana segist hafa kolfallið fyrir eigninni og það sem heillaði helst var skipulagið, borðstofuhornið, birtan og útsýnið, ásamt því að íbúðin tikkaði í öll boxin; gólfsíðir gluggar, suðursvalir, gluggi á baðherberginu, opið eldhús, þvottahús í íbúðinni og aukin lofthæð.

„Mér fannst mjög skemmtilegt í þessu ferli að kaupa og innrétta íbúð, að sjá hvað íslensk fyrirtæki eru komin langt hvað varðar gæði þjónustu – en það að fá góða þjónustu þykir mér alveg ómetanlegt og spilar stærsta þáttinn í vali á fyrirtæki og kaupferlinu öllu!“

Áttu þér uppáhaldsstað hér heimafyrir? „Uppáhaldsstaðurinn minn er klárlega borðstofukrókurinn, en þar er mjög gott að setjast niður og læra með góðan kaffibolla, þar hef ég einnig skapað góðar minningar með vinum og fjölskyldu.“

- Auglýsing -

Aðspurð um hvort það séu einhverjar frekari breytingar eða framkvæmdir í kortunum svarar hún: „Ég hætti eiginlega alveg að græja og gera hérna heimafyrir þegar ég tók þá ákvörðun að fara í meistaranám í stjórnun á Spáni í janúar næstkomandi, svo íbúðin verður í útleigu næstu tvö árin eða lengur, og ég mun því halda áfram að dúlla við íbúðina þegar ég kem heim aftur.“

 Frískað upp á stílinn við flutninga

„Hann er svolítið stelpulegur, ég er rosalega hrifin af öllu sem glansar eða glitrar, eins og hlutum úr kristal, en mér er sagt að ég hafi erft stílinn frá langömmu minni,“ segir Kristjana þegar hún er beðin um að lýsa stílnum sínum.

Ég er rosalega hrifin af öllu sem glansar eða glitrar, eins og hlutum úr kristal, en mér er sagt að ég hafi erft stílinn frá langömmu minni

- Auglýsing -

Aðspurð um áherslur í litavali segir hún pastelliti og bleikan vera í miklu uppáhaldi og þá helst í bland við hreinlega ljósa tóna, glansandi málma og glært gler. Þar sem íbúðin er í nýbyggingu og enginn búið þar áður, segist Kristjana hafa hugsað þetta kjörið tækifæri til að endurhugsa stílinn örlítið.

„Töluvert af innbúinu úr gömlu íbúðinni minni var orðið lúið og kominn tími á að endurnýja, svo það var tilvalið að hreinsa aðeins til í stílnum við flutningana.“

Í forstofunni hangir litfagurt málverk sem grípur augað, verkið er eftir listamanninn Norr, einnig þekktur sem Gummi kíró, og segist Kristjana vera í skýjunum með það. Hún gaf sjálfri sér verkið í innflutningsgjöf og segir það einskonar tákn til að minna sig á árið sem leið og allt það góða sem átti sér stað.

Hvaðan koma hlutirnir þínir og hvaða verslanir eru í uppáhaldi? „Ég held mikið upp á ljósið í borðstofunni frá By Rydens sem ég keypti í Rafkaup, svo er ég mjög hrifin af versluninni Fakó og fékk til dæmis borðstofuborðið og velúrstólana þar. Einnig finnst mér gaman að vafra um á Netinu og ég versla töluvert við netverslanir, en þær eru oft óháðar öðrum og með annað úrval, það er mikilvægt að styðja við ung sjálfstæð fyrirtæki. Svo verð ég að minnast á allar litlu búðirnar erlendis sem mér finnst gaman að skoða og get gleymt mér í, og tek ég þá gjarnan einn hlut með mér heim frá hverju landi þegar ég hef færi á.“

Hún bætir við að auðvitað sé alltaf gaman að taka hring í Epal eða Snúrunni, en þar séu margir hlutir að hennar skapi og tróna New Wave Optic-veggljósið, Flos-ljósakróna og String-hilla með skáp ofarlega á óskalistanum.

Við forvitnumst um söguna bak við stóran skúlptúr af andliti ásettan smáum speglum sem hangir á vegg í stofunni. „Mamma gaf mér hann í innflutningsgjöf því ég elska allt sem glitrar og henni fannst hún eiginlega verða að gefa mér hann, en hann er frá Zolo og co í Keflavík.“

Kristjana segist hafa fengið marga fallega hluti að gjöf við hin ýmsu tilefni og er dugleg að nota þá muni sem hún á til. „Ég reyni að skipta hlutunum mínum reglulega út fyrir aðra sem hafa hvílt í geymslunni, en ég vil ekki hafa of mikið uppi við í einu, einnig finnst mér skemmtilegast að vera með hluti sem hafa tilfinningalegt gildi og minna mig á fjölskylduna og góða vini.“

Við kveðjum Kristjönu og hlýlegu íbúðina í Urriðaholtinu að sinni og óskum henni góðs gengis í meistaranáminu í Barcelona.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -