Ný stikla fyrir tölvuleikinn Senua’s Saga: Hellblade II var birt um helgina en leikurinn er framhald af Hellblade: Senua’s Sacrifice, sem kom út árið 2017 við mikið lof gagnrýnenda. Í stiklunni er íslenskt landslag í fyrirrúmi í nokkrum atriðum en Ísland er sögusvið leiksins. Hönnuðir leiksins eyddu mörgum vikum á Íslandi til að hjálpa sér að smíða umhverfi leiksins. Ekki liggur fyrir hver saga leiksins er en fyrri leikurinn gerist á 8. öld og Senua er aðalpersóna leiksins og er stríðsmaður frá Orkneyjum. Í leiknum þarf hún að berjast við ýmsar vættir og djöfla til að bjarga sál látins elskhuga. Leikurinn er mikið innblásinn af norrænni goðafræði. Miðað við stiklu helgarinnar virðist leikurinn halda áfram að sækja innblástur í goðafræðina.
Fyrirtækið Ninja Theory býr til leikinn en það hefur búið til tölvuleiki síðan árið 2000 við gott orðspor. Ásamt því að gera Hellblade-leikina hefur fyrirtækið búið til DmC: Devil May Cry og Enslaved: Odyssey to the West. Áætlað er að Senua’s Saga: Hellblade II komi út árið 2024.
Hægt er að horfa á stikluna hér fyrir neðan