„Jæja það kom að því. Fékk hjartaáfall á miðvikudag en af hæversku minni vildi ég ekki trufla heilbrigðiskerfið fyrr en á þriðja degi sem var mjög heimskulegt,“ skrifar Jóhann Páll Valdimarsson, fyrrverandi bókaútgefandi, sem þverskallaðist við að leita til læknis eftir að hafa fundið fyrir hjartaverk. Hann var á tæpasta vaði þegar hann loksins leitaði sér hjálpar. Við komuna á spítalann var hann umsvifalaust settur í þræðingu sem leiddi hið sanna í ljós.
„Búið að þræða mig og svo fæ ég gangráð á föstudag. Lyfjatilraunir í gangi til að ná niður blóðþrýstingnum. Annars góður og vel um mig hugsað,“ skrifar Jóhann Páll á Facebook.
Jóhann Páll var um áratugaskeið farsæll bókaútgefandi en settist í helgan stein fyrir nokkrum árum. Hann hefur undanfarin ár ferðast um heiminn með eiginkonu sinni, Guðrúnu Sigfúsdóttur ritstjóra. Hjartaáfallið setur örlítið strik í þann reikning en hugur Jóhanns leitar af sjúkrabeðnum til útlanda.
„Ætti að komast í ný ferðalög í júní,“ skrifar hann.