Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Eru kökur límið í samfélaginu?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 10. tölublaði Gestgjafans

Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna allir eru svona brjálaðir í kökur, ef fólk vill eitthvað sætt er þá ekki bara málið að hoppa inn í næstu sjoppu og kaup kók og prins? Við vinnsluna á þessu kökublaði rann upp fyrir mér að heimagerðar kökur hafa ómótstæðilegt aðdráttarafl og þær sameina unga sem aldna.

Eins og dyggir lesendur Gestgjafans vita eflaust þá eru matar- og kökuþættirnir í blaðinu gerðir frá grunni í tilraunaeldhúsinu okkar í Síðumúlanum. Þetta er töluverð vinna, því stundum eru búnar til uppskriftir sem renna út í sandinn eða eru hreinlega ekki nægilega góðar til að birtast í blaðinu og þá þarf að byrja upp á nýtt. Stílistinn færir svo öll herlegheitin í myndrænan búning og það þarfnast undirbúnings, það er eitt að fá hugmynd og annað að framkvæma hana. En þegar ljósmyndarinn mætir á svæðið til að mynda fara sumir starfsmenn að læðast í kringum okkur og spyrja ýmissa spurninga.

Þetta er yfirleitt ekki vandamál nema í kökublaðinu, þá fáum við lítinn vinnufrið, því allir elska heimabakaðar kökur. Það er líka gleði í húsinu þegar smakkið byrjar, þá er hlegið og gantast og talað um kökur, hver er best, hver óvenjulegust, fallegust, blautust, sætust, súrust eða hörðust og svo spá sumir í hvernig þær eru gerðar og hvort það verði ekki örugglega einhver afgangur svo að hægt sé að fá sér aftur daginn eftir. Já, kökur sameina!

Ég fór austur á land við vinnsluna á þessu blaði að kanna matar- og afþreyingarkosti á Egilsstöðum og hægt er að lesa um þá skemmtilegu ferð í blaðinu. Ég hafði heyrt um vinsælt kökuhlaðborð á Bókakaffi sem Egilsstaðarbúar væru duglegir að sækja og vildi kanna málið betur. Þegar við Ragga, ljósmyndari og blaðamaður, mættum sátu tveir ungir drengir við eitt borðið og nokkrar konur sátu og prjónuðu í einu horninu og allir biðu eftir að við mynduðum kökurnar svo hægt væri að byrja að borða. Við skynjuðum skemmtilega eftirvæntingu í loftinu og lukum okkur nokkuð fljótt af enda streymdi bæjarbúa að. Við settumst svo hjá konunum í horninu og gæddum okkur á nokkrum yndislegum sætum bitum. Umræðuefnið var auðvitað kökur og allir töluðu við alla á milli borða og mér fannst eins og ég væri í setti í góðri bíómynd, jafnvel eftir Laxnes því hér var enginn í snjallsímanum, það var bara spjallað, prjónað og borðað og áður en ég vissi af var búið að bjóða mér í heimsókn um kvöldið að skoða kaffibolla. Já, kökur sameina!

Í gegnum tíðina hefur það tíðkast í kökublaði Gestgjafans að fá einhverja hópa í samfélaginu til að baka sína uppáhaldsköku, í fyrra voru það bæjarstórar og þar áður bakarar. Okkur finnst afskaplega gaman að skoða hvort hóparnir eigi eitthvað sameiginlegt í kökubakstrinum. Í ár fengum við nokkra hressa söngvara til að baka sína uppáhaldsköku. Gaman var að sjá hvað kökurnar voru fjölbreyttar og ólíkar en afar góðar. Söngvararnir áttu það sameignlegt að vera ekkert að hafa of miklar áhyggjur af mælieiningunum og slíku enda listamenn og þá má alveg „dassa“ og spila af fingrum fram. En eitt eiga söngvarar sameiginlegt með kökum og það er að þeir gleðja og sameina! Kökur rokka!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -