Þriðjudagur 16. júlí, 2024
9.1 C
Reykjavik

Hefði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
eftir Óttar M. Norðfjörð

Ég sá ljósið í síðustu viku. Ég var að hlusta á Skúla Mogensen útskýra hvað fór úrskeiðis hjá WOW air og segja að hann hefði átt að hefja endurskipulagningu fyrirtækisins fyrr. „Ég trúi því að ef við hefðum fengið meiri tíma hefðum við klárað þetta.“

Hefði. Svo fallegt orð, tregafullt, svo ljóðrænt. Það tók mig 39 ár að átta mig á því, en ekkert annað orð í íslenskri tungu lýsir okkur Íslendingum jafn vel. Við erum upp til hópa dugleg og sífellt að reyna, en á lokasprettinum klúðrum við alltaf einhverju og þá grípum við til hefði. Hversu margir íslenskir stjórnmálamenn hafa komist hjá því að segja af sér með því að nota gamla, góða hefði? „Ég hefði átt að gúggla betur“ var raunverulegt svar íslenskrar stjórnmálakonu við eigin afglöpum. Þetta er hin fullkomna afsökun þegar maður gerir upp á bak. Hefði – sjálf þjóðarsálin í fimm stöfum. Aðrar þjóðir stunda auðvitað líka hefði, en Íslendingar eru bara svo miklu betri í því, búnir að fullkomna listina. Við erum í raun svo góð í hefði að við ættum að flytja það út. Við myndum græða milljónir.

Nú hef ég upplifað þrjár kreppur, misstórar, á sirka tíu ára fresti og alltaf er stutt í blessað hefðið. Um árþúsundamótin var það netbólan sem sprakk með tilheyrandi hefði. 2008 var það bankahrunið, en aldrei í sögu hefðisins hafa heyrst jafnmörg hefði og þá. Og nú, rúmum tíu árum síðar, er ferðamannahrunið í fullum gangi og Skúli reið á vaðið í hefðinu, en er alveg örugglega ekki sá síðasti. Það þarf engan snilling til að sjá mynstrið. Ég bíð allavega spenntur eftir því að hetja Íslands eftir sirka áratug stígi fram þegar óskabarnsfyrirtækið hennar fer á hausinn og segi okkur hinum hvað hún eða hann hefði átt að gera.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -