Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Andri lýtalæknir – Brjóstaminnkanir (hyperplasia mammae)

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eitt af algengustu vandamálum kvenna sem koma til lýtalæknis er að brjóstin þeirra eru of stór og hamla þeim í leik og starfi. Oft fer þetta saman við að brjóstin séu meira sigin en konan vill. Því er ágætt að fara aðeins í gegnum hvernig brjóstaminnkun fer fram og hvað þarf að huga að áður en sú aðgerð er framkvæmd.

Stærð á brjóstum kvenna byggist á tveimur mismunandi þáttum.

Annars vegar er í um kirtilvef að ræða, þ.e. vefinn sem framleiðir mjólk eftir meðgöngu og fæðingu. Hversu mikið er af honum ræðst annars vegar af genunum, sem ráða því hversu mikið er af kirtilvefnum frá byrjun, en hins vegar hversu mikið þessi kirtilvefur hefur rýrnað eftir fyrri meðgöngur, eða með aldri konunnar. Hinn vefurinn sem er ráðandi í brjóstinu er fituvefur, sem ræðast af almennu magni fitu í líkamanum, þ.e. því meira sem almennt magn fitu er fyrir hendi, því meira af henni er í líka í fituvef brjóstanna. Reyndar er hlutfallið milli þess hversu mikið almennt magn fitu í líkama kvenna, miðað við hversu mikið af þeim er í brjóstunum, líka bundið í genin.

Ekki er því óalgengt að konur með fremur háan líkamsþyngdarstuðul (BMI) hafi einnig mikið af fitu í brjóstunum og því þyngri brjóst en þær kæra sig um. Þessar konur geta minnkað fitu á líkamanum, lést, og þannig fengið minni brjóst. Meðan þetta getur mögulega hjálpað til við að minnka einkenni frá öxlum og hnakka, þá skilur það yfirleitt eftir sig enn meira sigin brjóst, með togvinkli sem ennþá reynir mikið á efri hluta hryggjarins, axlirnar og hnakkann. Það að létta sig mikið segir því ekki alla söguna um hvernig einkenni geta minnkað við einungis minni massa í brjóstunum. Ekki má heldur gleyma því að of stór brjóst hamla því að konan geti stundað líkamsrækt, og því kemur upp ákveðinn vítahringur.

Einkenni við of stór brjóst 

Konur með stór brjóst hafa ýmis konar einkenni, þar sem ekkert þeirra er lífshættulegt, en samantekið geta þau hindrað margt af því sem hún vill gera

- Auglýsing -
  1. Verkir í baki, hnakka og öxlum
  2. Erfitt með að finna föt sem passa
  3. Höfuðverkir
  4. Skorur á öxlum þar sem brjóstahaldari hefur þrýst niður
  5. Brjóstin eru aum
  6. Minnkuð tilfinning í „nipplum“
  7. Sveppasýkingar eða nudd í fellingunum undir brjóstunum
  8. Geta ekki hlaupið eða stundað líkamsþjálfun eins og þær vilja
  9. Óvelkomnar augngotur
  10. Mæði
  11. Þau eru “fyrir” t.d. í vinnu
  12. Mígreni
  13. Slæm líkamsímynd

Stór brjóst eru einn af þeim sjúkdómum sem opinbera heilbrigðiskerfið viðurkennir og meðhöndlar. Þessar aðgerðir eru gerðar á Landspítalanum af lýtaskurðlæknum þar með góðum árangri. Þessar aðgerðir ganga yfirleitt vel og útkoman verður yfirleitt góð og konurnar ánægðar. Eina vandamálið við þetta er að biðtíminn er mjög langur og eins eru kröfurnar hvað varðar þyngdarstuðul nokkuð strangar (BMI < 25 ef konur eru undir 50 ára og < 27 ef yfir 50 ára). Allar aðrar konur þurfa að annað hvort sætta sig við ástandið, eða greiða fyrir meðferðina sjálfar.

Brjóstaminnkunaraðgerðir eru gerðar af öllum sjálfstætt starfandi lýtalæknum og kosta yfirleitt milli 800 og 1100 þúsund krónur, upphæðin fer yfirleitt eftir því hversu stór brjóstin eru, hvernig heilsa konunnar er og hversu miklar líkur eru á fylgikvillum, vegna þess að öll eftirmeðferð er innifalin í verði aðgerðarinnar.

Aðgerðin sjálf er gerð í svæfingu og tekur í kringum 2 tíma, eftir því hversu stór brjóstin eru og hvort fitusjúga eigi í holhöndinni hjá þeim konum sem hafa brjóst sem teygja sig næstum aftur á bak.

- Auglýsing -

Það sem gert er í brjóstaminnkunaraðgerð er þetta:

  1. Geirvarta og vörtubaugur (nipplan) er skorin út, og ysta lagið á húðinni hringinn í kring er fjarlægt.
  2. Skorið er í fellinguna undir brjóstinu og farið niður að vöðvalagi.
  3. Í þessu lagi, ofan við vöðvann, er farið uppávið og neðri hluti brjóstsins er losaður frá stóra brjóstvöðvanum.
  4. Þessi neðri hluti er skorinn burt.
  5. Ef konan er yfir þrítugt, eða ef saga er um brjóstakrabbamein í fjölskyldu hennar er vefurinn sem hefur verið fjarlægður sendur í smásjárskoðun til að sjá að aðeins sé um frískan vef að ræða.
  6. Farið er svo skipulega yfir allt sárið og allar litlar blæðingar stoppaðar, svo allt sé þurrt og fínt.
  7. Nipplan er síðan færð upp á við, á þann stað þar sem ákveðið hefur verið að hún á að sitja og að athugað er hvort það sé nægt blóðflæði til hennar svo allt geti gróið vel.
  8. Allt er svo saumað í þremur lögum með þráðum sem leysast upp af sjálfu sér. Innsta lagið er þykkur og sterkur þráður sem heldur því grófasta á góðan hátt. Millilagið er úr fínni þræði sem stýrir saman húðköntunum, en grynnstu þræðirnir eru örfínir og tryggja það að húðkantarnir liggi vel upp að hver öðrum.
  9. Stundum eru skildir eftir einstaka saumar á yfirborðinu, sérstaklega ef brjóstin hafa verið mjög stór. Þeir eru teknir yfirleitt eftir 7-10 daga.
  10. Konan vaknar og fylgst er með lífsmörkum og verkir stilltir í nokkra klukkutíma. Hún þarf að geta borðað, drukkið og pissað, og verkirnir þurfa að vera skaplegir áður en hún fer heim.
  11. Endurkoma er svo til lýtaskurðlæknisins eftir 7-10 daga þar sem er litið til gróandans og framhaldsins.

En útkoman þá?

Flestar konur fá frá fysta degi heilmikla bót meina sinni. Um leið og þær vakna eftir aðgerðna þykir þeim að togið á herðarnar hafi orðið miklu minna og vísindarannsóknir hafa sýnt að lífsgæðaaukning þessara kvenna byrjar frá fyrsta degi. Hvað þetta varðar, skiptir ekki máli hver þyngdarstuðullinn hefur verið fyrir aðgerðina, konurnar sem hafa lægri þyngdarstuðul (“eðlilegan” þ.e. < 25) fá jafn mikla bót og þær sem hafa hærri stuðul.

Það eru því engin vísindaleg rök sem mæla fyrir um að konur þurfi að vera í ákveðinni þyngd til að fá gagn af aðgerðinni, en það sem máli skiptir hins vegar að hægt sé að svæfa konur í hvaða þyngdarstuðli sem er án mikillar áhættu.

Ef þú kannast við þessi vandræði og einkenni geturðu heimsótt reyndan lýtalækni til að ræða málin.

Andri Már Þórarinsson, MD, PhD

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -