Þriðjudagur 23. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Dularfullur ljósagangur við Kjöl: Draugagangur og dauðaþögn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kojan mín lék á reiðiskjálfi og mér fannst sem einhver ógnarkraftur lyfti henni upp á endann og hristi til hliðanna. Upplifunin var eins og þegar A-hýsið mitt tókst á loft í ofsaveðri á Norðurfirði með mig og hundinn Tinna innanborðs. Ég var milli svefns og vöku. Jafnskjótt og lætin hófust féll allt í dúnalogn. Ég settist upp við dogg í svitabaði. Það var svartamyrkur í herberginu og dauðaþögn fyrir utan svefnhljóðin í samferðafólkinu. 

Við höfðum fengið þá stórsnjöllu hugmynd að fara með hóp af barnabörnum í ævintýraferð upp í hálendið og gista eina nótt í skála Ferðafélags Íslands í Hvítárnesi. Skálinn sá er annálaður fyrir draugagang. Þverkoja nokkur, í innra herbergi á neðri hæðinni þótti sérlega varasöm. Sumir sem þar hvíldu höfðu vaknað á gólfinu eftir að hafa verið gripnir heljartökum í fastasvefni og bókstaflega þeytt fram úr fletinu,  Ótal sögur eru til um þann draugagang sem var í skálanum við Hvítárvatn. 

Þegar okkur bar að garði var tekið að húma að kveldi. Börnin léku við hvern sinn fingur í netmyrkrinu. Við kveiktum upp í skálanum og 12 volta rafgeymar lögðu okkur til birtu. Myrkrið læddist að. Mér varð hugsað til draugagangsins en fullyrt var við mig að hann væri mun minni eftir að þverkojan var rifin. Nú voru víst aðeins flökkudraugar á sveimi. Tvær stúlkur vildu sofa í fremra herberginu. Svo komst ró yfir skálann. Það leið þó ekki á löngu áður en stúlkurnar yfirgáfu fremra herbergið og allir voru saman í einu rými. Fyrr en varði sofnuðu allir, nema ég. Mér fannst eitthvað óhreint vera í loftinu án þess þó að verða neins var. Það var mið nótt þegar ég sofnaði. 

Ég vaknaði við djöfulganginn og hugsaði með mér að þetta væri martröð, sprottin af heilaspuna. En það undarlega var að ég var sem lamaður í kojunni. Skyndilega barst skært ljós inn um gluggann. Herbergið var baðað skjannabirtu. Ég blindaðist. Þetta var ekki ólíkt því að bíll varpaði háu ljósunum inn í skálann. Það gat þó ekki staðist því bílastæðið var að húsabaki, 100 metra frá skálanum. Skyndilega slokknaði ljósið og niðadimmt myrkrið tók aftur við. Ég lá sem lamaður í dauðaþögninni. Ég leiddi hugann að því hvort þetta hefði verið fólk með höfuðljós en komst að þeirri niðurstöðu að ljósið væri of skært. Skyndilega skall ljósið á mér aftur. Herbergið var sem flóðlýst. Ekkert heyrðist að utan. Svo slokknaði það og kviknaði í þriðja sinn af sama styrkleika áður en myrkrið tók alveg yfir. 

Sögustund í skálanum.
Mynd: Reynir Traustason.

Um morguninn sagði ég frá atburðum næturinnar. „Það eru ekki til draugar,” sagði ég eins sannfærandi og ég gat við börnin. Þá skyndilega spratt hurðin á herberginu upp eins og einhver hefði sparkað í hana utanverða. Allir hrukku í kút og sumir æptu. Við pökkuðum saman í rólegheitunum. Fyrir utan skálann var ekkert að sjá sem gæti skýrt það sem gerðist um nóttina. Við ókum suður Kjöl með minningar í farteskinu. 

 

- Auglýsing -

Lestu allt um málið og meira til í brakandi fersku helgarblaði Mannlífs hér eða flettu blaðinu hér fyrir neðan: 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -