Fimmtudagur 18. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Sakamálin – Jólaódæði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jólin er stundum nefnd hátíð ljóss og friðar og tengjast í hugum flestra fæðingu Jesú Krists. Flestir sem halda upp á jólin gera sér glaðan dag, en til eru þeir sem láta sig litlu varða hátíðina og þá helgi sem henni fylgir. Hér má lesa í stuttu máli um þrenn jól sem ekki lyktaði sem skyldi.

Síðasta jólamyndatakan

Á jóladag, árið 1929, höfðu jólin verið hugguleg og indæl hjá Lawson-fjölskyldunni í Germantown í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Heimilisföðurnum, Charlie, hafði tekist að öngla saman nægu fé til að fara með alla fjölskylduna í bæinn.

Í bænum hafði Charlie klætt alla fjölskylduna upp og meira að segja látið taka fjölskyldumynd af hersingunni allri; honum og eiginkonunni Fannie, 37 ára, og börnunum þeirra sem voru sjö talsins, Arthur, 19 ára, Marie, 17, Carrie, 12, Maybell, 7, James, 4, Raymond, 2, og Mary Lou, fjögurra mánaða.
Þetta voru alls ekki afleit jól, í ljósi þess að kreppan mikla var rétt skollin á.

Það sem síðar gerðist hefur enginn getað hent reiður á. Einhverra hluta vegna ákvað Charlie að bana allri fjölskyldunni. Hann skaut Carrie og Maybell þegar þær voru rétt lagðar af stað i heimsókn til frænku sinar og frænda. Eftir að hafa fullvissað sig um að þær væru báðar dánar, kom hann líkunum fyrir í hlöðunni.

Síðan skaut Charlie, eiginkonu sína, sem sat úti á veröndinni. Þegar skotið ómaði rak Marie upp hræðsluóp inni í húsi. Charlie snaraði sér inn og skaut hana og fann síðan syni sína, James og Raymond, þar sem þeir höfðu reynt að fela sig. Hann skaut þá til bana. Þá var röðin komin að Mary Lou og hlaut hún sömu örlög og systkini hennar.

- Auglýsing -

Arthur slapp með skrekkinn, því einhverra hluta vegna hafði Charlie sent hann einhverra erinda rétt áður en morðæði rann á hann.
Sjálfur fór Charlie að þessu loknu út í nærliggjandi skóg og svipti sig lífi.

Engin ástæða fannst nokkru sinni fyrir verknaðinum, en Gróa á Leiti lét ekki að sér hæða þá frekar en fyrri daginn. Sá kvittur fékk vængi að Charlie hefði níðst kynferðislega á Marie og að hún hefði verið barnshafandi. Charlie hefði fyrirkomið allri fjölskyldunni vegna skammar og sektarkenndar.
Krufning leiddi reyndar í ljós að ekkert var hæft í þeim orðróm að Marie hefði verið ólétt.

Enn hefur ekkert komið fram sem varpar ljósi á þennan atburð sem átti sér stað á jóladag í Norður-Karólínu.

- Auglýsing -

 

Óskiljanlegt ódæði á aðfangadag

Í næstu frásögn víkur sögunni aftur til ársins 1881. Þann 23. desember það árið var Emma nokkur Carico hjá vinum sínum og nágrönnum í Ashland í Kentucky í Bandaríkjunum. Vinir Emmu, Robert og Fannie Gibbons bjuggu í húsinu við hliðina á heimili hennar og öll voru þau á táningsaldri og leið vel saman.
Þar sem móðir Emmu var, sem fyrr segir, í næsta húsi var fátt sem gaf til kynna annað en að fullkomlega öruggt væri fyrir Emmu að gista heima hjá Gibbons-fjölskyldunni.
Einhvern tímann á milli 23. og 24. desember áttu sér stað óhugnanlegir og óskiljanlegir atburðir á heimili Gibbons-fjölskyldunnar.
Inn á heimilið brutust þrír karlar vopnaðir öxum og börðu unglingana þrjá til bana. Ekki létu ódæðismennirnir það nægja, heldu báru eld að húsinu í kjölfarið.
Móðir Emmu sá eldhafið út um glugga heima hjá sér, en ekki varð við nokkuð ráðið og síðar fundust lík unglinganna í rústunum.
Múrhleðslumaður að nafni George Ellis játaði síðar á sig verknaðinn og benti á samstarfsmenn sína, William Neal og Ellis Craft, sem vitorðsmenn. Ekki þótti öruggt að hafa þá í haldi í Ashland, enda vildi ólmur almenningur helst hengja þá á dóms og laga. Voru þremenningarnir í haldi í Cattleburg fram að réttarhöldum, 16. janúar 1882.
Neal og Craft voru dæmdir til dauða og áfrýjuðu þeir dómnum. Réttað var yfir George Ellis 30. maí, og fékk hann lífstíðardóm. Óður múgur náði honum úr fangelsinu 31. maí og hengdu hann án dóms og laga í Ashland.
Dauðadómur var síðar staðfestur yfir Craft og Neal og sá fyrrnefndi fór til fundar við skapara sinn 12. október, 1883, og sá síðarnefndi 27. mars, 1885.
Aldrei fékkst á hreint hví þremenningarnir frömdu ódæðið.

 

Misráðin morð um jól

Um jólin 1951 höfðu Harry og Harriette Moore heldur betur ástæðu til að fagna. Ekki aðeins jólunum heldur einnig 25 ára brúðkaupsafmæli sínu. Þann 25. desember höfðu þau litlar áhyggjur, þrátt fyrir að þau hefðu verið áberandi í jafnréttisbaráttu þeldökkra, sem á þeim tíma var afskaplega illa séð hjá íhaldssömum Bandaríkjamönnum. Þannig var mál með vexti að Moore-hjónin voru á meðal þeirra blökkumanna sem hæst höfðu á þessum tíma í Flórída.

Moore-hjónin og dóttir þeirra héldu upp á jólin á heimili sínu í Mims í Flórída eins og hefð var fyrir. Þau áttu ekki von á neinu óvæntu, en annað kom svo sannarlega á daginn.
Sprengja, sem hafði verið komið fyrir undir húsi fjölskyldunnar, sprakk með miklum látum um kvöldið.
Hjónin slösuðust illa en dóttir þeirra lifði sprenginguna af því hún var í öðrum hluta hússins. Harry dó í sjúkrabíl á leið á sjúkrahús, en Harriette lést af áverkum sínum níu dögum síðar.

Aldrei þessu vant var lögreglan ekki lengi að komast að því hverjir voru á bak við sprenginguna; meðlimir Ku Klux Klan. Samtökin hugðust þagga niður í hjónunum í eitt skipti fyrir öll. Reyndar tókst lögreglunni ekki að hafa hendur í hári hinna seku, sem voru fjórir, til þess að gera háttsettir karlar innan Ku Klux Klan; Earl J. Brooklyn, Tillman H. Belvin, Joseph Cox og Edward L. Spivey.
Sá síðastnefndi varpaði sök á Cox þegar hann var við dauðans dyr vegna krabbameins. Cox svipti sig síðar lífi. Brooklyn og Belvin önduðust báðir á meðan rannsókn alríkislögreglunnar FBI stóð yfir.
Tíminn leiddi síðar í ljós að sprengjutilræði fjórmenninganna var afskaplega misráðið því samtökum um borgarleg réttindi blökkufólks óx fiskur um hrygg í kjölfarið og ól af sér mótmæli og reiði í garð ódæðismannanna.

 

Sakamálin birtust í síðasta tölublaði Mannlífs sem lesa má hér:

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -