Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Pabbar geta grátið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég var lengi vel afar lokuð og erfið sál; allt snerist um að líta vel út á yfirborðinu og vera flottur.

Semsagt tómur.

Lífið í tóminu var ekki alltaf slæmt; maður finnur alltaf einhverja gleði hér og þar – en hún var einungis brúkleg til skamms tíma; síðan kom þynnkan; efinn; mórallinn og næsta helgi.

Hringrás tómleikans bítur í skottið á sér eftir ákveðinn tíma; þá hefur maður fengið ógeð á sjálfum sér og langar að baða sig upp úr hver rétt við Krýsuvík. Taka alla djöflana með sér ofan í og vona að þeir komist ekki upp á yfirborðið aftur.

En það er hins vegar bara undir manni sjálfum komið.

Það tók langan tíma að átta mig á þeirri staðreynd. Ég sem hélt alltaf að ég væri svo vel gefinn; svo gáfaður; æðislegur íþróttamaður og geggjaður námsmaður. Nei. Ég var bara tómur; besti vinur tómleikans heitir heimska.

- Auglýsing -

Ég hef gefið öðrum nokkur þung högg og ég hef fengið slatta af slíkum höggum á mig: Viðbrögðin voru oftast voða lítil hjá mér og það sem ég hélt alltaf á lofti var að ég væri maður sem gæfist aldrei upp. Allavega ekki fyrr en ég væri á leið inn í ofninn.

Flott afsökun. Bull. Þvæla og endemis þvæla á þvælu ofan. Lífið er kúla og jörðin er flöt; ávextir súrna og þú getur ekki bara lifað á hafragraut án þess að gubba upp í sjálfan þig.

Lausnin á svona er líklega afar einstaklingsbundin. Tengd persónuleikanum.

- Auglýsing -

Ég gafst bara upp á þessu; gleypti þýska handsprengju úr fyrra stríði; hún sprakk og ég fór í tætlur – dreifðist út um allt. Nýtti svo tímann sem áður fór í volæði og sjálfsniðurrif til að byggja eitthvað úr tætlunum; úr rústunum. Og það tók sinn tíma.

Allt hefur sinn tíma var pabbi vanur að segja við mig þegar ég varð hvað óþolinmóðastur yfir öllu og engu. Góð orð hjá ótrúlega góðum manni.

Þegar mesti stormurinn var genginn yfir mig og aðra og þá sem ekkert sáu og þá sem alltaf sögðu að ef þeir myndu fá annað tækifæri í lífinu myndu þeir engu breyta (þeir síðastnefndu eru mestu lygarar mannkynssögunnar) fór verkið að taka á sig mynd.

Ekkert ósvipað og myndin af Dorian Grey – nema að hjá mér var málverkið að breytast á þann veg að maðurinn á myndinni varð alltaf fallegri og fallegri og bjartari yfirlitum en áður eftir því sem hann opnaði sig meira við annað fólk.

Ég varð ekkert fallegri – bara myndin af mér.

Persónuleikinn tók að breytast til hins betra og það var í raun ómeðvitað eða meðvitað alltaf markmiðið. Punkturinn yfir hið fræga i var síðan það að leyfa sér að brotna niður; leyfa sér að gráta; skammast sín ekki fyrir tilfinningar sínar; játa mistök sín og biðjast fyrirgefningar.

Ég mæli með þessu. Þú þarft ekki að vera pabbi eða mamma – en ég veit allavega nú að pabbar geta grátið og þeir eiga að gera það ef líðanin er þannig; og þeir eiga að vera stoltir af því að mínu mati.

Ég er stoltur af mér, núna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -