Föstudagur 26. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Þú getur átt góða og ástríka stjúpfjölskyldu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Samskiptastöðinni.  

Þið hafið bæði verið áður í samböndum og eigið börn úr fyrra sambandi. Þið viljið vera saman og hafið hugsað ykkur að blanda þessum tveimur ólíku fjölskyldum saman og búa til ykkar eigin fjölskyldu með vonina og bjartsýnina að leiðarljósi.

Grunnurinn að því að nýja fjölskyldan geti virkað er að parsambandið ykkar byggi á trausti og samskiptaleiðir séu opnar. Auk þess þarf að liggja ákvörðun að baki hjá ykkur báðum að þið séuð tilbúin til að leggja vinnu og þolinmæði í að ná því að byggja upp góða stjúpfjölskyldu. En er það svo einfalt?

Gott er að vera vel undirbúin og vita hvaða áskoranir geta komið upp. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.

  1. Setjið raunhæf markmið. Það tekur tíma að byggja upp traust og tengsl saman. Það getur tekið nokkur ár fyrir stjúpfjölskyldu að virka. Það er mikilvægt fyrir ykkur sem par að geta átt opinská samskipti og ekki vera hrædd við að orða áhyggjur. Það mun koma upp ágreiningur. Lykilatriði er að hlusta á maka sinn og sýna skilning. Málamiðlun er lykilatriði ef þið eruð ekki sammála.
  2. Samskipti eru lykilatriði. Það getur verið auðvelt að missa fljótt vonina um að þetta muni ganga þegar stjúpfjölskyldur eru annars vegar. Mundu að þið eruð ný fjölskylda, blönduð af börnum úr fyrra sambandi. Hugmyndir ykkar um venjulega fjölskyldu eiga ekki endilega við hér. Það eru fyrri makar og fyrrum tengdafjölskyldur. Ykkar fjölskylda er ný tegund af fjölskyldu og taka verður mið af því.
  3. Alið börnin upp saman en ekki í sitthvoru lagi. Það er auðvitað mikilvægt að halda trausti og trúnaði við barnið sitt en samt sem áður að ala börnin upp saman og vera sammála um hvernig þið ætlið að gera það. Þetta atriði á sérstaklega við á unglingsárum. Talið saman um hvernig þið ætlið að gera þetta saman. Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að tækla vandamál. Er eitthvað sem ykkur fyndist óþægilegt að tækla þegar um er að ræða stjúpbarn. Hvað er eðlilegt í ykkar huga? Þið eruð kannski búin að eiga þetta samtal en alltaf gott að spyrja sig aftur. Er það breytt eftir að þið byrjuðuð að búa saman?
  4. Skapið ykkar eigin venjur sem ný fjölskylda. Mundu að það getur tekið tíma að finna traust og samhug í stjúpfjölskyldum. Hafðu það í huga að þetta tekur tíma. Búið til nýjar venjur þar sem fjölskyldan kemur saman sem hægt er að treysta á, t.d. pizza á föstudögum eða brunch á sunnudögum. Sameiginleg reynsla sem þessi hjálpar til að ná tengslum milli aðila.
  5. Haldið tengingunni og kærleika ykkar á milli. Rifjið upp ykkar sameiginlegu markmið og styðjið hvort annað í því. Það er mikilvægt að halda parsambandinu ykkar góðu. Kíkið út saman eða sinnið sameiginlegu áhugamáli án barnanna.
  6. Æfið ykkur í að sýna þolinmæði og skilning. Þetta er langhlaup. Hugsaðu það sem slíkt. Þið ákváðuð í byrjun að fara af stað í “ferðalagið”, reynið að njóta þess þegar góðu stundirnar koma (þær munu gera það). Sýndu þolinmæði þegar maki þinn fer yfir strikið og mögulega notaði aðferðir í uppeldi sem þú ert ekki hrifin(n) af. Talið um það. Haldið umræðunni opinni. Mundu að þið eruð saman í liði þegar upp kemur ágreiningur!
  7. Ekki gefast upp! Þegar illa gengur að samþætta og/eða þið eigið erfitt í sambandinu eða við börnin er mikilvægt að minna sig á byrjunina á sambandinu og af hverju þið ákváðuð að byrja að búa saman. Talið saman um erfiðleikana. Það getur verið gott að orða upphátt að þetta sé erfitt, að þetta sé erfitt tímabil núna en jafnframt ákveða það að fara í gegnum það saman. Leita leiða og styðja hvort annað.
  8. Leitið til fagmanns þegar þarf. Ef upp koma áskoranir sem erfitt er fyrir ykkur að tækla þá getur verið gott að leita til fagmanns. Fyrr er betra en seinna. Algeng mýta í para/hjónaráðgjöf að það séu aðeins þeir sem eru á barmi skilnaðar sem eru í ráðgjöf. Best er að leita til fagmanns áður en allt fer í þrot eða jafnvel þegar vel gengur með það að markmiði að styrkja sambandið enn frekar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -