Dísella Lárusdóttir: „Ég nennti ekki að láta fólk segja mér hvað ég mætti“

top augl

Dísella Lárusdóttir hefur í mörg ár starfað hjá Metropolitanóperuhúsinu í New York og fékk í vor ásamt Grammy-verðlaun ásamt samstarfsfólki fyrir uppsetningu Metropolitan-óperunnar á verki Philips Glass, Akhnaten. Dísella hefur þó mest verið heima frá því að Covid-faraldurinn skall á og hér býr fjölskyldan. Í viðtali við Reyni Traustason talar hún meðal annars um tónlistina, verðlaunin, ráðlegginginum sem hún vildi ekki fara eftir og skrýtna tímabilið.

Hjördís Elín Lárusdóttir; betur þekkt sem Dísella: Óperusöngkonan sem hefur staðið á sviðinu úti í hinum stóra heimi og tekið þátt í ævintýrum fyrir framan áheyrendur ólst upp í Mosfellsbæ, dóttir Sigríðar Þorvaldsdóttur leikkonu og Lárusar Sveinssonar tónlistarmanns. tTompetleikara. Systurnar eru þrjár: Hún, Ingibjörg og Þórunn.

Dísella Lárusdóttir
Ljósmynd: Kazuma Takigawa – búið er að klippa myndina til

„Við hlæjum oft að því að við fengum ekki snuð; við fengum munnstykki,“ segir Dísella en þær systur lærðu á trompet og það er elsta barn Dísellu, sonurinn Bjartur Lárus, farið að gera. „Hann er kominn með framtennurnar þannig að hann er kominn á trompet. Eins mun fara fyrir hinum börnunum mínum. Þau munu öll fara á trompet. Það er gott að læra að lesa nótur, læra músík og vera í skólahljómsveit. Mér finnst það vera gott og heilbrigt fyrir börn að læra þetta.“ Jú, Dísella var í skólahljómsveit og spilaði þar á trompetið sitt. Svo fór hún að læra á píanó.

Hún var undirleikari hjá Reykjalundarkórnum á sínum tíma, þar sem faðir hennar var stjórnandi, og þegar kórfélagar sungu lag þar sem ekki var krafist undirleiks söng Dísella sópranrödd. Faðir hennar sagði að hún væri með fína rödd og að hún ætti að læra söng. „Þannig að ég fór að læra söng.“

Faðir hennar lést svo árið 2000. „Hann var ekki nema 58 ára gamall. Það var mikið sjokk fyrir okkur. Hann var mjög hraustur að við héldum. Þetta var mjög skyndilegt. Hann eiginlega datt niður á fimmtudegi og var dáinn á þriðjudegi. Hann vaknaði aldrei. Hjartaáfall.“

Dísella ákvað að leggja sönginn fyrir sig. „Ég var byrjuð að syngja með Gunnari Þórðarsyni á Broadway sem var dásamlegur tími. Alveg hrikalega skemmtilegt. Ég segi stundum að það sé svolítið þeim tveimur að kenna, það voru Gunnar Þórðar og pabbi sem ýttu mér út í þetta. Pabbi var svo hvetjandi og svo var Gunnar að gefa mér vinnu sem söngkonu. Það var lykilatriði í þessu öllu saman. Ég var til 2002 að mig minnir á Broadway og tók þátt í söngvakeppninni tvisvar, hvort sem það var bakrödd eða til að taka þátt í keppninni sjálf, og kynntist æðislegu fólki. Þetta var mjög skemmtilegt tímabil. Ég ákvað síðan að fara alveg út í klassíska sönginn. Ég ætlaði mér alltaf að fara til Austurríkis eins og pabbi hafði gert. Það var draumurinn. Líka upp á tungumálið. Og ég fór í inntökupróf. Ég hafði aldrei upplifað ofnæmi en daginn sem inntökuprófið var haldið var ég algjörlega raddlaus. Það kom ekki píp út úr mér. Ég mætti samt en þetta var allt ferlega óþægilegt. Þetta var einhvers konar barkabólga. Ég komst ekki inn í skólann sem var allt í lagi. Ég fór þá til Ameríku en ég var algjör bjáni að reyna ekki aftur. Það var bara hugsunarhátturinn þá. Ég mögulega skammaðist mín og skildi ekki hvað hafði gerst og var hrædd um að þetta myndi gerast aftur.

Ljósmynd: Kazuma Takigawa – búið er að klippa myndina til

Ég endaði á að fara til Bandaríkjanna í nám sem kostaði fullt af peningum og ég er ennþá að borga. En fyrir vikið endaði ég á að vera í Bandaríkjunum og fara þessa leið að fara í Metropolitankeppnina og komst þar inn.“

Dísella fékk þá fyrsta samning sinn við Metropolitan-óperuhúsið sem var staðgengilssamningur. „Það var einhver önnur ráðin en ég var til vara. Þannig eru allar sýningar á Met. Ég fékk þetta staðgengilshlutverk fyrir Philip Glassóperuna Satyagraha og er hlutverkið sópranhlutverkið í þeirri óperu. Við gerðum þá óperu og svo átti að gera hana nokkrum árum seinna og þá vildu þeir heyra í mér aftur. Þá var ég búin að eignast Bjart.“

Tækifærunum fjölgaði og talar Dísella um óperusöngkonu sem átti að koma fram í einni óperunni og átti Dísella að vera til vara. „Það vill svo til að stjórnandinn var búinn að nefna nokkrum sinnum við stelpuna, sem ég var staðgengill fyrir, að hún lagaði eitthvað en hún lagaði það aldrei. Hann var orðinn svolítið ergilegur við hana og okkur var svissað; ég fékk hlutverkið og eftir það fór ég að fá meira að gera. Ég þurfti alveg að vinna mig upp stigann. Kannski minni hlutverk.“

Hlutverkin eru mun fleiri.

Og svo var það Garsenda.

„Debutið mitt var Garsenda í Francesca da Rimini eftir Zandonai. Það er flott hlutverk en ekki aðalhlutverkið. Ég var að taka að mér minni hlutverk þangað til ég fór í prufu og eftir það fékk ég að verða staðgengill sem Lulu sem er titilhlutverk og eftir að ég söng það þá var ég allt í einu komin í aðeins þyngri hóp.“

Ofar í röðinni.

„Já.

Grammy-verðlaunin

Lulu.

„Þetta áttu að vera átta sýningar og það voru tvær sýningar lausar fyrir staðgengilinn.“ Hún segist hafa verið mjög spennt. Svo var hringt í Dísellu í árslok 2018 og var henni tjáð að það yrðu bara fimm sýningar á Lulu. „Það var búið að kippa mínum tveimur sýningum út. En sem málamiðlun af því að þeir vildu ekki að ég yrði fúl þá ákváðu þeir að bjóða mér annað hlutverk. Ég var ferlega svekkt af því að Lulu er svo flott hlutverk.“ Henni var boðið hlutverk Queen Tye í óperunni Akhnaten eftir Philip Glass. „Þetta var eiginlega bara heppni vegna þess að það átti að sýna Lulu frá janúar til mars 2021 en þá var Met lokað vegna Covid þannig að sýningin var aldrei sett upp. Hins vegar var það Akhnaten sem við fengum Grammy-verðlaunin fyrir. Þetta er hin fullkomna saga um réttan tíma og réttan stað. Þannig að ég er mjög sátt eftir á að hyggja.“

Jú, Dísella hlaut Grammy-verðlaunin ásamt samstarfsfólki fyrir uppsetningu Metropolitan-óperunnar á verki Philips Glass, Akhnaten. Verðlaunin eru fyrir bestu óperuupptökuna en Dísella lék burðarmikið hlutverk í óperunni, einmitt hlutverk Queen Tye eins og þegar hefur komið fram.

Hvernig er að vinna svona stór verðlaun?

„Þetta er bara súrrealískt. Ég held ég átti mig ekki á því ennþá. Maður er allt í einu kominn inn í eitthvað „society“ og farinn að fá tilkynningar um hvar næstu Grammy-verðlaun verða tilkynnt. Maður er kominn í einhverja lúppu. Það er skrýtið. Það er verið að tala um mann sem kollega. Æ, ég veit það ekki. Þetta er bara súrrealískt. Þetta er dásamlega skemmtilegt en ég læt þetta ekkert stíga mér til höfuðs. Ég er alveg með fæturna á jörðinni. Mér finnst ég ekki vera búin að sýna allt sem í mér býr þannig að ég er ennþá að reyna að bæta mig.“

Fussaði við þessu

Dísella er spurð hvort hún hafi snúið bakinu við dægurlögunum þegar hún varð klassísk söngkona.

„Mér var ráðlögð alls konar vitleysa þegar ég var í skóla. Þetta var fyrir allar þessar byltingar eins og MeeToo. Heimurinn er búinn að breyast svo svakalega; ég tala nú ekki um eftir Covid. Á þessum tíma var mér ráðlagt að tala ekki um það ef ég ætti mann og tala ekki um að ég vildi fjölskyldu.“

Það var verið að gera út á kvenímyndina. „Algjörlega. Ég fussaði við þessu; einhver íslensk remba í mér. Og ég tók ekki þátt í þessu. Ég eignaðist barn þegar ég var að byrja minn frama og var opinberlega gift og tók son minn með mér hvar sem ég söng.“ Eiginmaðurinn á þeim tíma var Teddy Kernizan en þau Dísella skildu síðar. Lárus Bjartur, sem er 12 ára, er sonur þeirra. „Við erum ennþá í góðu sambandi og erum „coparenting“. Þetta er erfitt á milli landa en við erum að reyna að skiptast á.“ Sonur þeirra er önnur hver jól hjá föður sínum og segir Dísella að hann hitti föður sinn alltaf á sumrin. Maður Dísellu í dag er Bragi Jónsson og eiga þau tvö börn saman. Jökull Orri er sjö ára og Snædís Lind er að verða tveggja ára. „Með báða strákana var meðgangan ekkert mál en svo kom stelpan. Ég veit ekki hvort það sé af því að hún er stelpa eða af því að ég er aðeins eldri; ég gat ekki setið síðustu þrjá mánuðina. Ég varð ýmist að standa eða liggja. Það var mjög erfitt. Ég er vön að eiga við brjósklos og yfirleitt þegar ég fæ verk í bakið þá fer ég út að labba og labba verkinn af mér en í þetta skipti var þetta ekki það. Þetta var einhver taugaverkur og hann versnaði með því að ganga. Ég vissi það ekki fyrr en ég fór til sjúkraþjálfara að ég væri að gera þetta verra með því.

Aftur að tónlistinni og ráðleggingunum. „Mér var líka ráðlagt að hætta öllu þessu poppstandi þannig að þegar ég fékk einhver gigg hérna heima svo sem jólatónleika þá þurfti ég alltaf að passa upp á að vera mjög klassísk. Þetta var mjög kjánalegt af því að í dag og miðað við hvernig heimurinn er orðinn þá sýnir þetta fjölbreytileika; að maður geti sungið pott og klassík. En á þessum tíma var mér ráðlagt að gera þetta ekki af því að ég yrði aldrei tekin alvarlega sem óperusöngkona ef ég væri að syngja eitthvað popp til hliðar.“

Dísella tók þátt í Eurovison árið 2006 og söng þá lagið Útópía. „Þetta var mjög skondið af því að kennarinn minn var alltaf að sýna öðrum nemendum þetta myndband af mér að syngja Útópíu af því að hún var að dást að raddtækni minni. En samt mátti ég ekki stæra mig af þessu af því að þetta var poppsöngur og þá var ekki hægt að taka mig alvarlega. Hvert sem ég fór var ég alltaf beðin um að taka þetta lag,“ segir Dísella og nefnir matarboð í Perú þar sem hún söng það án undirleiks. „Þetta er skemmtilegt lag og vakti greinilega lukku.“

Þú er í óperusöngnum í dag en ertu farin að taka einhver gigg sem eru dægurlög?

„Ég er farin að gera það núna. Ég ákvað á einhverju tímabili – Covid hefur kannski hjálpað til líka – að ég nennti þessu ekki lengur; ég nennti ekki að láta fólk segja mér hvað ég mætti og hvað ég mætti ekki.“

Hún segir að sér finnist vera gaman að syngja popp.

Hvað er í uppáhaldi hjá þér í poppinu? „Kannski ekki popp,“ segir hún. „Þetta er meira djass. Það er ekkert sérstakt. Það er falleg laglína og fallegur texti. Því einlægara því betra. Einhver svona hlýlegur texti.“

Dúndrandi krítík

Dísella hefur mest verið á Íslandi eftir að Covid-heimsfaraldurinn skall á. Hvað ertu að fást við í dag?

„Ég er á svolítið skrýtnu tímabili núna. Ég var hérna heima í Covid sem var dásamlegt og ég var orðin góðu vön að fá allt í einu að vera heima. Mér fannst það dásamlegt. Ég velti því jafnvel fyrir mér hvort þetta væri nýja lífið mitt – að hætta þessu gauli og vera bara til staðar fyrir börnin.“ Svo fékk Dísella Grammy-verðlaunin í vor og söng aftur í sýningunni og segist hún hafa fengið dúndrandi krítík. „Það var rosalega hvetjandi þannig að ég er aftur að hugsa um að halda þessu aðeins áfram og sjá hvað gerist. Ég er ekki mjög drífandi í að sækja mér atvinnutækifæri.“

Hún talar um að heimurinn sé mjög skrýtinn núna. „Ég var að vinna hjá Met í vor. Og það var nýtt fólk í öllum hornum þar. Fólk hætti bara. Og þetta er ekki eina húsið sem er þannig. Það voru margir sem gáfust upp. Ég var ekki sú eina sem sat heima hjá mér; það er annað í lífinu en þetta stress í gegnum þennan brjálaða óperuheim.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni