Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor á Hólum: „Vil sjá rannsóknarmiðstöð íslenska hestsins rísa á Hólum“

top augl

„Ég fann fyrir svo mikilli tilhlökkun áður en ég byrjaði og áður en ég mætti og það hefur ekkert dvínað. Þannig að þetta er bara mjög skemmtilegt. Það er gott fólk þarna, mikil hefð, mikil saga, mikil menning og náttúrlega er skólinn á margan hátt mjög sérstakur,“ segir Hólmfríður Sveinsdóttir í hlaðvarpsviðtali við Guðna Ágústsson þar sem þau ræða meðal annars um Háskólann á Hólum og nám og fyrri störf rektorsins en hér fyrir neðan er minnst á Hóla en annars fara þau um víðan völl í viðtalinu. Hólmfríður tók við sem rektor Háskólans á Hólum 1. júní.

„Það verður gaman að halda áfram að byggja upp þessi fræðisvið sem nú þegar eru og nýta grunninn til þess að efla skólann.“ Þrjár deildir eru við skólann: Fiskeldis- og fiskalíffræðideild, Ferðamáladeild og og Hestafræðideild. Hólmfríður er með meistaragráðu í næringarfræði frá Justus Liebig háskólanum í Giessen í Þýskalandi og doktorsgráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands. Hún vann áður meðal annars hjá Matís og svo Fisk Seafood.

Verði sjálfbærara

Hólmfríður er spurð hvað blasi nú við og hvernig hún sjái framtíðina.

Alveg gríðarleg tækifæri hvort sem það er landeldi, sjóeldi eða úthafseldi.

„Nú er ég svolítið að taka stöðuna hvar hlutirnir eru staddir og síðan að efla þessi þrjú fræðasvið en það er gríðarlega góður og mikill grunnur á öllum þessum þremur fræðasviðum. Fiskeldið er sú atvinnugrein á Íslandi sem er að fara að skapa okkur líklegast hvað mest útflutningsverðmæti. Það eru skiptar skoðanir um fiskeldið en það verður ekkert aftur snúið; við byggjum hér upp fiskeldi. Það þarf bara að ná ákveðinni sátt og það verður gert að mínu viti með því að gera þetta aðeins sjálfbærara – meira í sátt við náttúruna og samfélögin og þar eru tækifæri fyrir Háskólann á Hólum. Alveg gríðarleg tækifæri hvort sem það er landeldi, sjóeldi eða úthafseldi.“

Þannig að þú gengur fordómalaus inn í þetta starf?

„Algjörlega og ég er náttúrlega búin að vera í kringum þetta fiskeldi lengi af því að í doktorsnáminu mínu var ég að skoða áhrif umhverfis á þorsklifur því þá var svo mikil áhersla á þorskeldi og ég var að skoða umhverfisþætti sem gætu haft jákvæð áhrif í lifunina. Þannig að ég kynntist eldinu mjög snemma og þessum aðilum sem eru að vinna í eldi. Þannig að ég þekki þann heim ágætlega.“

Ferðamannaiðnaður í dreifbýli

Talið berst að ferðamennsku og segir Hólmfríður að námið í Ferðamáldeild sé meira í fjarnámi. „Það vantar mikið starfsfólk inn í þennan geira; inn í ferðaþjónustuna. Það er mikil eftirspurn eftir starfsfólki. Við höfum verið með styttri námsbrautir þar en líka lengri og ég sæi alveg fyrir mér að auka framboð á styttri námsleiðum. Mig myndi langa út af staðsetningu Hóla að þróa okkur aðeins meira út í ferðamannaiðnað í dreifbýli. Og það er nú þegar verið að horfa í þá átt.“

Meiri rannsóknir

Hestafræðideildin á Hólum er vinsæl og komast einungis 20 nemendur inn á hverju ári. Hvað sér Hólmfríður fyrir sér á Hólum hvað hestinn varðar?

Svo langar mig að auka rannsóknir á samspili hests og manns.

„Ég sé fyrir mér á Hólum að auka rannsóknir á íslenska hestinum. Það er ekki mikið verið að stunda rannsóknir á íslenska hestinum og Háskólinn á Hólum hefur gert mjög vel í að auka alla fagmennsku í kringum reiðmennsku. Þeir eiga alveg hrós skilið og við sem höfum verið í þessu svolítið lengi sjáum hvernig hestamennska hefur orðið faglegri. En ég myndi vilja sjá miklu meiri rannsóknir. Hesturinn er einstakt dýr. Það er búið að vera einangrað hérna og okkur hefur tekist vel upp í ræktun og þetta er orðin mikil keppnislífvera ef svo má segja. Það er mikið verið að keppa á hestinum. Hvaða áhrif er þetta allt að hafa? Og svo langar mig að auka rannsóknir á samspili hests og manns; hvernig getum við breikkað notendahópinn? Íslenski hesturinn er með sérstaka gangtegund; tölt. Er hægt að nýta það fyrir þá sem geta ekki hreyft sig? Svo hefur maður séð að þeir sem eiga við andleg veikindi að stríða ná einhverju sambandi við hestinn og hesturinn gerir þeim gott. Þannig að þetta er eitthvað sem við eigum að horfa á finnst mér við Háskólann á Hólum og ég vil sjá rannsóknarmiðstöð íslenska hestsins rísa á Hólum.“

Hesturinn getur verið guðsgjöf fyrir hinn fatlaða og hinn sjúka.

„Já, þetta eru hugmyndir sem koma frá kennurunum á Hólum. Hvað varðar áfallastreitu og annað sem bæði margir fullorðnir og börn verða fyrir á lífsleiðinni þá hætta sumir að treysta og þá virðist hesturinn hafa þá eiginleika að brjóta einhvern múr þannig að fólk byrjar að treysta honum; þetta hefur líka verið sýnt með hunda. Og svo er það líka þessi hreyfing; þetta leysir úr læðingi einhver hormón sem valda ákveðinni vellíðan. Við þekkjum þetta sem höfum riðið á góðu tölti að þetta vekur ákveðna vellíðan. En við vitum svo lítið um þetta. Þetta þarf að rannsaka. Og þarna þurfum við að fá með okkur allt öðruvísi sérfræðinga heldur en sérfræðinga á sviði hestafræðinnar. Þarna er alveg óplægður akur að mínu mati.“

Og þá þurfum við að fá stjórnvöld með okkur.

Rektorinn nýi er spurður hvort aðstaðan á Hólum sé fullnægjandi.

„Hún var fullnægjandi þegar hún var byggð upp hérna á sínum tíma. Við þurfum að fara í átak. Tækni og þekkingu hefur fleygt fram. Við vitum núna meira um svo mikið varðandi aðbúnað og við megum ekki dragast aftur úr. Við verðum að vera með besta aðbúnaðinn eða allavega á pari við það sem gerist úti í iðnaðinum. Og það er því miður ekki þannig núna. Við verðum að fara í átak. Og þá þurfum við að fá stjórnvöld með okkur. Því mér finnst þetta svo mikilvægt. Við megum ekki gleyma þessum menningararfi og þessum sendiherra sem hesturinn er fyrir Ísland. Þetta er einstakt.“

Hólmfríður segir að framtíðin sé björt fyrir Háskólann á Hólum. „Ég sé gríðarlega mikil tækifæri og ég veit að fólkið á Hólum sér líka þessi tækifæri. Við ætlum að efla þessi þrjú fræðasvið sem eru gríðarlega mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélagið hérna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni