Fimmtudagur 22. febrúar, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Íslenskur detox-hópur á flótta undan kórónaveirunni – „Ekkert annað í stöðunni en að fara út í kuldann og myrkrið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hópur Íslendinga sem var í detoxferð í Póllandi átti fótum sínum fjör að launa í gærkvöldi við að komast burt úr landinu áður en því var lokað. Talskona hópsins segir að á tímabili hafi hún upplifað hálfgert stríðsástand.

Hrönn Hjálmarsdóttir, heilsumarkþjálfi og fararstjóri hóps Íslendinga.

„Þetta er mjög súrrealískt, bara eins að vera stödd í bíómynd. Ég er enn að átta mig á að þetta sé að gerast,“ segir Hrönn Hjálmarsdóttir, heilsumarkþjálfi og fararstjóri hóps Íslendinga sem slapp með naumindum frá Póllandi á sunnudagskvöld áður en landinu var lokað vegna aðgerða stjórnvalda til að hefta útbreiðslu COVID-19 kórónaveirunnar.

Hópurinn var hálfnaður með tveggja vikna heilsuferð í bænum Chmielno, sem er í tæp­lega klukku­tíma akst­urs­fjar­lægð frá Gdansk í Póllandi, þegar honum voru kunngjörð þau tíðindi að til stæði að loka landinu.

Hrönn segir fréttirnar hafa komið flestum í hópnum í opna skjöldu því fólk hafi reiknað með að geta klárað ferðina þrátt fyrir ástandið og því hafi þurft snör handtök til að koma hópnum, níu konum og einum karli, yfir til Vilnius í Litháen.

„Við vorum nefnilega svo græn að vorum fyrst pollróleg og þurftum því að hafa hraðar hendur til að koma okkur burt. Ég skoðaði á Netinu hvaða leiðir stæðu til boða, meðal annars þann möguleika að fara með ferju niður til Svíþjóðar en það gekk ekkert að bóka með henni og þá uppgötvaði ég sem betur fer að það var flug með Wizz air frá Vilniusi til Íslands í kvöld [mánudagskvöld]. Þannig að við bókuðum okkur í það í snatri og hóteleigandinn hjálpaði okkur að finna rútu sem gat ekið okkur að landamærum Póllands og Litháen.“

Að sögn Hrannar tók ferðalagið sex klukkustundir og um tíma var alls ekki útséð með það hvort hópurinn kæmst á leiðarenda. „Fyrir það fyrsta var ekkert auðvelt að fá rútu til að sækja okkur í Litháen. Það vildi ekkert rútufyrirtæki gera það,“ útskýrir hún.

- Auglýsing -

„En svo hafðist það til allrar lukku með aðstoð eins í hópnum, hann þekkti til manns í Litháen og sá hafði milligöngu um það að útvega rútu. Við vorum svo komin langleiðina að landamærunum þegar við fréttum að rútan sem ætlaði að koma og sækja okkur í Litháen hefði lent í slæmum árekstri og væri óökuhæf. Við náðum að redda annarri en um leið og bílstjórinn frétti að við værum Íslendingar neitaði hann af einhverri ástæðu að ná í okkur. Og þá voru góð ráð dýr.“

Þegar rútan kom að landamærum Póllands tóku á móti henni pólskir lögreglubílar og vopnaðir landamæraverðir. Hrönn segir að sem betur fer hafi bílstjórinn hjálpað þeim að talað við landamæraverðina og náð að útskýra stöðuna fyrir þeim og í framhaldinu hafi þeir hleypt íslenska hópnum í gegn.

„Þeir sögðust hins vegar ekki vita hvernig Litháarnir kæmu til að taka á móti okkur,“ segir hún. „En það var ekkert annað í stöðunni en að fara út í kuldann og myrkrið og draga farangurinn með okkur í gegnum þetta einskismannsland og yfir til Litháen.“

- Auglýsing -

Fór ekki út í smáatriði til að hræða ekki börnin 

Hrönn segir að mikil óvissa hafi einkennt ferðina, þar sem hópurinn hafi ekki vitað hverjar  móttökurnar yrðu í Litháen og hvort hópnum yrði yfirleitt hleypt yfir landamærin. Til að bæta gráu ofan á svart hafi hópurinn fengið óstaðfestar fréttir um að búið væri að fella niður allt flug til og frá Litháen og því óvíst hvort yrði af ferðinni heim til Íslands. Hrönn, sem er gift tveggja barna móðir, segist hafa verið í reglulegu sambandi við fjölskylduna sína heima á Íslandi meðan á þessu stóð en hún hafi gætt að fara ekki út í smáatriði til að hræða ekki börnin.

Ánægð með að hafa valið að flýja

Hrönn viðurkennir að hópurinn hafi verið svolítið á báðum áttum með að taka sjensinn og láta af þessu verða, en hún segist nú vera ánægð með þá ákvörðun þar sem litháesku landamæraverðirnir hafi blessunarlega hleypt þeim í gegn og rúta flutt þau upp á hótel í Vilniusi, þar sem íslenski hópurinn dvelur nú. Að öllu óbreyttu fljúgi þau með Wizz air heim í kvöld.

„Við erum auðvitað þvæld eftir þessa ellefu tíma sem tók að komast hingað upp á hótel en í raun erum við samt furðu róleg, ekki síst í ljósi þess að þetta var hálfgert stríðsástand í gær,“ segir Hrönn, þegar hún er spurð út hvernig íslenski hópurinn hafi það. „Við erum líka þakklát fyrir það að hafa verið keyrð upp á hótel og glöð með að komast heim, ef allt gengur eftir.“

Ferðin skrítin byrjun 

Þetta er fyrsta ferðin af þessi tagi sem Hrönn hefur milligöngu um í Póllandi og hún viðurkennir að þetta sé svolítið skrítin byrjun. „Svo átti að vera önnur ferð um páskana en hún hefur verið felld niður. Núna stefni ég á að bjóða upp á næstu ferð í október.“

Þetta hlýtur að setja strik í reikninginn hjá ykkur? „Auðvitað gerir þetta það. En ef við horfum á ljósu punktana þá náðum við samt viku á Wichrowe heilsuhótelinu og erum nokkuð spræk, hótelið ætlar bara að rukkar okkur fyrir tímann sem við dvöldum þar, Wizz air endurgreiðir flugið frá Póllandi til Íslands og við erum vonandi að fara að fljúga heim í kvöld og ættum að lenda klukkan 20 á íslenskum staðartíma. Viðbótarkostnaðurinn er bara fólginn í rútum, hótelum og nýju flugi. Í ljósi þess hversu hratt þetta gerðist, að öllu skyldi vera lokað svona skyndilega, og manni leið eins og í bíómynd þá virðist sem betur fer ætla að rætast úr þessu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

dfkjpogv

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -