Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

„Pabbi minn drap mann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Erla Rós Bjarkadóttir var aðeins níu ára þegar pabbi hennar gerðist sekur um manndráp.

„Barinn með búsáhaldi“ og „Eins og að ganga inn í sláturhús“ eru meðal fyrirsagna sem birtust í fjölmiðlum daginn eftir að Bjarki Freyr Sigurgeirsson varð Braga Friðþjófssyni að bana við Dalshraun í Hafnarfirði þann 17. ágúst 2009.

 

Þann 15.  nóvember síðastliðinn var fjallað um málið í þættinum Ummerki á Stöð 2 og segir Erla það hafa tekið mikið á sig og fjölskyldu sína að heyra fjallað um þetta í sjónvarpinu og ekki hafa fengið neinar ábendingar um það.

„Það var ákveðið að taka mig upp í sveit í viku eftir atburðinn því mamma var hrædd við hvað þetta myndi hafa mikil áhrif á mig. Þetta var út um allt í fjölmiðlum og andlitið hans á öllum blöðum.“

- Auglýsing -

Móðir hennar, stjúpfaðir, amma og afi settust niður með henni daginn eftir kvöldið örlagaríka og greindu frá stöðu mála. „Pabbi þinn er að fara í fangelsi – hann drap mann,“ var Erlu sagt. „Þau fengu ráðleggingu frá presti að segja mér strax frá þessu en ekki fara djúpt í það. Þau sögðu mér svo að pabbi væri búinn að vera veikur og ekki ganga vel í lífinu.“

„Þetta var mjög mikið sjokk. Ég vissi ekki almennilega hvernig mér átti að líða, ég varð bæði reið og sár og fannst ég ekki þekkja hann á sama hátt og áður. Þetta breytti þeirri mynd sem ég hafði búið til af pabba.“

Hélt að hann ynni úti í sveit

Erla ólst að mestu upp með móður sinni og stjúpföður en saman eiga þau litla bróður Erlu. Móðir hennar og Bjarki slitu samvistum þegar Erla var tveggja ára eða frá því að Bjarki féll aftur í áfengis- og vímuefnaneyslu eftir hafa verið edrú í nokkur ár.

- Auglýsing -

„Samskiptin voru mjög takmörkuð, ég hitti hann stundum þegar hann var edrú og þá alltaf með ömmu minni og afa, aldrei ein, honum var ekki treyst. Það var alltaf bara fínt, þetta var bara pabbi minn sem ég hitti stundum. Ég vissi aldrei að hann væri í neyslu, mér var alltaf sagt að hann væri að vinna úti í sveit og þess vegna hitti ég hann svona sjaldan.“

Mikil neysla og óregla

Bjarki hafði verið í mikilli langvarandi áfengis- og fíkniefnaneyslu áður en hann banaði Braga Friðþjófssyni. Í dómsskýrslunni kemur fram að Bjarki hafi verið háður fíkniefnum og hafi verið í óreglu frá unglingsárum. Hann hefði sprauti sig með hinum ýmsu efnum sem hann næði í. Þá þótti hugsanlegt að hann hafi fengið heilaskaða á táningsaldri vegna sniffneyslu og að hann glímdi við kvíða og þráhyggju.

Morðið þótti hið óhugnanlegasta en sjónarvottur sem kom fyrst á vettvang glæpsins lýsti aðkomunni sem algjörum hryllingi.

Áfall og skömm

Á þessum tíma var Erla að byrja í fjórða bekk í Sjálandsskóla. „Ég man þegar ég kom í skólann í fyrsta skipti eftir þetta, það voru öll augu á mér og ég skammaðist mín mjög mikið. Það var búið að ræða við krakkana um hvað hefði gerst og þau beðin um að tala ekki um þetta og fara varlega í að tala um pabba sína.“

Á sama tíma var Bjarki, pabbi hennar að trappa sig niður eftir langvarandi vímuefnaneyslu í fangaklefa á Litla Hrauni. „Þetta var auðvitað líka mikið áfall fyrir hann að hafa get þetta. Þetta var ekki beinlínis slys, alls ekki, en hann varð samt að fá tíma til að átta sig á hvað hann hafi gert.“

Atburðurinn tók mikið á Erlu þrátt fyrir fyrir að tengslin við föður hennar hefðu verið lítil frá tveggja ára aldri. „Ég hugsaði bara að allir krakkarnir ættu venjulega foreldra en ég væri barnið sem ætti pabba sem hafði drepið mann. Það var samt alltaf verið að minna mig á að ég þyrfti ekki að skammast mín. Þetta væri ekki mér að kenna að pabbi minn hafi gert þetta. Ég komst samt held ég frekar fljótt yfir þetta, þegar maður er krakki pælir maður minna í hlutunum en þetta var mjög erfitt fyrsta árið.“

Feðginin Erla Rós og Bjarki Freyr

Samskipti hófust á ný ári eftir atvikið

Bjarki var dæmdur í sextán ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjanes þann 30. nóvember 2009, hann áfrýjaði ekki dómum. Fyrsta árið eftir atvikið að Dalshrauni hitti Erla aldrei föður sinn. „Mig minnir að hann hafi stundum hringt og heyrt í mér en ég fór ekki í heimsókn til hans á Litla Hraun fyrr en eftir ár.“

Heimsóknirnar urðu svo reglulegar á tveggja mánaða fresti að ráði prests sem lagði til að hún fengi að sjá hvernig aðstæður væru. Það var gert til að taka þá ímynd sem börn kunna að hafa af fangelsum. „Það var gott að sjá að Litla Hraun væri ekki eins hræðilegur staður og ég hélt.“ Erla hefur gegnum þetta allt haldið góðu sambandi við föðurfjölskylduna sína. Fjölskyldan er samheldin og heilsteypt og sótti hún heimsóknir til föður síns með föðurömmu sinni og afa. Heimsóknirnar fóru í fyrstu fram á Litla Hrauni og eftir nokkra mánuði fengu þau að hafa heimsóknirnar í sérstöku samveruhús fyrir fanga. „Þar gátum við borðað saman, spilað og bondað aðeins meira.“

„Ég var Rósin hans, hann var með rósartattú fyrir mig og sagði alltaf hvað honum þætti vænt um mig þegar við hittumst, mér þykir mjög vænt um þær minningar í dag.“

Unglingsárin erfið

Eftir því sem Erla nálgaðist unglingsárin varð hún æ forvitnari að vita hvað hefði nákvæmlega gerst í íbúð föður hennar að Dalshrauni og hvers vegna hann sæti inni á Litla Hrauni og átti eftir að gera í nokkur ár í viðbót. „Ég fór að fletta upp nafninu hans á netinu og fann þar réttardómsskýrslu og Neyðarlínu þátt. Ég horfði á þáttinn og fór að hágráta, ég hafði ekki hugmynd um að þetta hefði verið svona ótrúlega gróft.“

Á þessum tíma var Erla að byrja áttunda bekk í Garðaskóla. „Ég var bara þrettán ára, að byrja að átta mig á hvernig lífið virkaði. Ég varð ótrúlega sár og reið út í hann að hafi gert þetta. Ég hafði ekki hugmynd um að þetta hafði verið svona ótrúlega gróft. Ég fór strax að minnka samskiptin við hann og fór svo smám saman að hætta að heimsækja hann.“

Erla sagði engum frá því að hverju hún hefði komist þegar hún fletti upp nafni pabba síns á netinu og reiðin og skömmin magnaðist innra með henni. Þetta braust út í miklu óöryggi sem hafði áhrif á skólagönguna. „Í áttunda bekk fór sjálfsmyndin mín bara að brotna og óöryggið fór á hæsta stig. Ég setti á mig risa skjöld og átti mjög erfitt þessi seinustu þrjú ár í grunnskóla. Ég var bara algjört vesen og fór mikið út af brautinni.“

Fjölskyldan árið 2002

Hún einangraðist og hætti nánast alfarið að mæta í skólann í níunda bekk sem endaði með því að móðir hennar og stjúpfaðir báðu um hjálp frá barnaverndarnefnd. „Ég var bara reið og leiðinleg við aðra, aðallega á netinu, það var auðveldast. Mér leið ömurlega en bar mig svakalega hátt, innst inni var ég bara brotin sál.“

„Ég reyni að skammast mín sem minnst fyrir það hvernig ég var, ég veit að ég var að ganga í gegnum mikið, þetta voru erfiðir tímar. Margir krakkar láta svona, þú ert að ganga í gegnum eitthvað og það brýst út í vondri hegðun. Þú ert bara að fela hver þú ert í raun og veru og ert vond við fólk sem á það ekki skilið.“

Erlu fór að líða betur þegar hún byrjaði í framhaldsskóla. Þar eignaðist hún nýja vini en hætti svo eftir þrjár annir. „Ég fann mig ekkert í skóla eftir allt sem hafði gengið á í Garðaskóla svo ég fór bara að vinna. Mér leið ekki vel.“

Flóknar tilfinningar

Í vor tók Erla ákvörðun að fara vinna úr áföllunum og fór að huga að sjálfsuppbyggingu.

„Í maí á þessu ári fékk ég ógeð af lífinu, ég bara varð að taka mig á. Ég sagði frá vandamálum mínum, fór vinna í sjálfri mér og styrkja mig sem manneskju. Ég byrjaði að opna mig fyrir fjölskyldunni og játaði mig sigraða. Ég fékk ótrúlega mikinn stuðning sem ég er svo þakklát fyrir. Það var erfitt þegar pabbi dó í síðasta mánuði. Ég var búin að vinna mikið í sjálfri mér og það var mikill skellur að fá fréttirnar um að pabbi væri dáinn. Þetta voru flóknar tilfinningar, því það er svo margt sem vekur sorg og reiði. Ég varð mjög reið yfir því að hann hafi aldrei verið þessi pabbi sem alla dreymir um að eiga en svo fann ég líka fyrir samviskubiti yfir því að hafa ekki gefið honum meiri tíma,“ segir Erla.

Bjarki Freyr fannst látinn á heimili sínu 4. október síðastliðinn. Erla og hann höfðu átt í svolitlum samskiptum áður en hann dó. Hún segir stundina þegar mamma hennar kallaði hana fram í stofu að tala við sig, stjúpföður hennar og ömmu, sem voru komin í heimsókn, hafa vakið upp gamlar minningar frá því þegar henni var tilkynnt að faðir hennar væri á leið í fangelsi.

„Þetta var mjög mikið sjokk. Ég vissi ekki almennilega hvernig mér átti að líða, ég varð bæði reið og sár og fannst ég ekki þekkja hann á sama hátt og áður.“

„Ég spurði hvort ég mætti giska hvað hefði skeð, „pabbi er dáinn““ og það reyndist rétt hjá henni. „Ég hitti hann lítið á þessum tíma en hafði verið dugleg að hringja og ég talaði oft við hann með SMSum. Ég var farin að taka eftir því að samskiptin voru farin að vera svolítið skrýtin og fann einhverja vonda tilfinningu. Hann hafði ekki svarað SMSunum mínum í þrjá daga og mig grunaði að eitthvað væri að – hann var örugglega bara dáinn. Amma og afi fundu hann svo dáinn heima hjá sér.“

„Ég hélt alltaf í vonina um að hann myndi komast á góðan stað, ég hafði trú á honum. Ég sá fyrir mér að ég væri styrkja mig og hann líka og við gætum svo mæst á betri stað í lífinu.“

Þátturinn á Stöð 2

„Ég sat við matarborðið með mömmu og Ísland í dag var að klárast og þá birtist mynd af senunni sem ég þekkti úr Neyðarlínuþættinum. Ég þekkti setninguna úr símtalsklippunni „buxurnar voru alblóðugar“ og horfði á mömmu og hún sagði bara við mig „já ég held að þetta sé um hann“ og ég varð svo reið. Ég skil ekki af hverju enginn lét okkur vita.“

Mál Bjarka var tekið fyrir í þættinum Ummerkjum á Stöð 2 þann 15. nóvember síðastliðinn. Í þættinum er rannsókn morðmála krufin og atburðarásin endurleikin. Fjölskyldan var slegin að hafa ekki fengið ábendingu um umfjöllunina.

„Ég hugsaði svo bara strax til fjölskyldu mannsins sem dó. Þetta var nógu erfitt fyrir okkur en ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta var fyrir þau og ég vona innilega að þau hafi verið látin vita. Amma varð alveg miður sín og það var sérstaklega erfitt að sjá þetta svona stuttu eftir að sonur hennar deyr.“

„Pabbi var góður maður“

Bjarki Freyr átti enga sögu um ofbeldisbrot áður en hann varð Braga Friðþjófssyni að bana. Hann hafði gerst sekur um ýmiss innbrot en hann hafði meðal annars stolið lyfseðilsskyldum lyfjum.

„Þetta kom öllum mjög mikið á óvart. Hann átti ekki sögu um einhver ofbeldisbrot og flestir sem þekktu pabba minn vita að hann var aldrei ofbeldismaður. Þetta var ekkert líkt honum. Hann var auðvitað í neyslu svo maður veit ekki allt en hann var enginn ofbeldisafbrotamaður. Hann var undir áhrifum mikilla lyfja þetta kvöld og það var mikil neysla og óreiða í lífi hans.“

„Ég sagði við hann í jarðarförinni, „ég fyrirgef þér pabbi“ og ég vona að hann sé á betri stað núna. Honum leið ekki vel.“

Erla segir huggun í því þegar fólk segir henni góðar sögur af föður hennar. „Það er gott að heyra hvernig fólk leit hann sem manneskju. Ég held að fjölskyldan mín hefði líka aldrei leyft honum að umgangast mig ef hann væri ekki góður maður sem meinti vel. Honum þótti ótrúlega vænt um mig. Ég var Rósin hans, hann var með rósartattú fyrir mig og sagði alltaf hvað honum þætti vænt um mig þegar við hittumst, mér þykir mjög vænt um þær minningar í dag.“

Fyrirgaf honum í jarðarförinni

„Ég hefði viljað gefa honum meiri tíma meðan hann lifði, hann til að sanna sig og ég til að treysta honum. Hann sat inni í einhver níu ár uppfullur af skömm. Ég get ekki ímyndað mér hvað hann var sár út í sjálfan sig og það var örugglega erfitt að halda sér edrú og halda áfram þegar þú hefur gert eitthvað svona“.

Maður getur ekki verið reiður endalaust. „Ég sagði við hann í jarðarförinni, „ég fyrirgef þér pabbi“ og ég vona að hann sé á betri stað núna. Honum leið ekki vel.“

Erla veit að hún getur nýtt reynslu sína til góðs og tekst óhrædd við áföllin sem lífið hefur fært henni.

Framtíðin er björt og Erla er á góðum stað í dag. Hún er byrjuð í förðunarnámi í Makeup studioi Hörpu Kára. Námskeiðið hefur að vísu setið á hakanum út af COVID en Erla sér fram á að starfa við förðun í framtíðinni.

Aðspurð hvort hún haldi að hún geti nýtt reynslu sína sér til framdráttar segist hún vona það. „Mig langar að geta hjálpað öðrum sem hafa upplifað eitthvað svipað og ég. Ég veit hvernig það er að líða illa og vita ekkert hvert maður stefnir. Ég gæti alveg hugsað mér að vinna á einhverskonar stofnun fyrir unglinga eins og á Stuðlum. Ég ætla að byrja á að klára stúdentinn eftir áramót og ég er búin að setja mér markmið um næstu skref.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -