Föstudagur 19. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Tómas missti afa og ömmu sama daginn: „Ég vonaði að pabbi myndi vilja hitta mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tómas Tómasson veitingamaður, sem er hvað þekktastur fyrir rekstur Tomma hamborgara og nú Hamborgarabúllu Tómasar, vill á þing en hann er oddviti Flokks fólksins í Reykjavík norður. Tómas talar hér meðal annars um áherslumál sín, föðurinn bandaríska sem vildi ekkert af honum vita, Bakkus, ferilinn og uppáhaldshamborgarann, þunglyndið tengt ástarsorginni, lyftingarnar og húðflúrin og flatköku með roast beef og rækjusalati.

Tómas Tómasson veitingamaður er oddviti Flokks fólksins í Reykjavík norður í alþingiskosningunum í haust. „Það var nú þannig að árið 1978 tók ég þá ákvörðun að ég myndi fara í stjórnmál þegar ég yrði orðinn eldri og þroskaðri og væri kominn í sæmilegt fjárhagslegt öryggi. Ég sá í hendi mér núna orðinn 72 ára gamall að ég á ekki nema eitt skot í byssunni svo ég ákvað að demba mér í slaginn núna og reyna að láta gott af mér leiða í restina; svona á síðustu metrunum.

Ég valdi Flokk fólksins vegna þess að hann hefur verið að berjast fyrir hag eldri borgara og þar sem ég er nú orðinn eldri borgari þá finnst mér rétt að staðsetja mig þar. Eldri borgarar á Íslandi eru um 48.000 og þeim fjölgar sífellt og það þarf að hugsa um hag þeirra af því að þeir hafa orðið svolítið út undan.“

Tómas segir baráttumál sín vera nokkur. „Ég ætla að berjast fyrir því að allir eldri borgarar fái að vinna ef þeir geta unnið og vilja vinna. Ég vil berjast fyrir því að frítekjumarkið hækki verulega. Það er í dag 100.000 krónur ef fólk vinnur og ég vil sjá það fara upp í að minnsta kosti 200.000 krónur. Ég vil að það sé farið að hugsa alvarlega um það að hjálpa eldri borgurum að búa heima hjá sér eins lengi og þeir vilja og eins lengi og þeir geta og síðan vil ég sjá til þess að það séu hjúkrunarheimili og elliheimili sem munu geta tekið á móti fólkinu þegar það er komið á það stig að það verður að fá aðstoð.

Síðan hef ég mikinn áhuga á því að námsmenn fái að vinna ótakmarkað með sínu námi án þess að það skerði námslánin. Það kostar ríkið ekkert því fólkið er að fá peningana lánaða og borgar þá til baka; en það er alveg út í hött að þvinga námsmenn til þess að súpa nánast dauðann úr skel ef þeir eru með stóra fjölskyldu og í erfiðu námi ef þeir geta unnið og vilja vinna. Maður sem vinnur með námi er miklu betri starfskraftur þegar hann kemur út í atvinnulífið að loknu námi vegna þess að hann veit hvað það er að vinna. Það er ekki það sama að læra og skrifa ritgerðir og fara síðan út í atvinnulífið og vinna; bretta upp ermarnar og taka þátt í því sem er að ske. Svo er það mjög hættulegt þegar námsmenn freistast til þess að vinna svarta vinnu því það er ekki gott fyrir þjóðfélagið og svo geta þeir ánetjast því að vinna bara svart og það hefur enginn gott af því að lifa í þeim heimi. Námsmaður sem vinnur með námi aflar tekna og hann borgar skatta þannig að ríkið fær skatta af tekjum námsmannsins og hann verður ánægðari með lífið og tilveruna. Honum er ekki haldið í fátækragildru. Það er mikið atriði. Háskólanemar eru um 20.000 og þeim fylgja að minnsta kosti 10.000 manns; eiginkonur, eiginmenn og börn. Svo hjálpa sumir foreldrar námsmönnunum kannski af vanefnum en gera það samt. Þannig að þetta væri öllum til hagsbóta.“

Eldri borgarar á Íslandi eru um 48.000 og þeim fjölgar sífellt og það þarf að hugsa um hag þeirra af því að þeir hafa orðið svolítið út undan.

What’s your problem?

- Auglýsing -

Tómas Tómasson sem vill fara á þing og er þekktastur sem Tommi í Tomma hamborgurum og svo Hamborgarabúllu Tómasar kom í heiminn í Reykjavík fyrir 72 árum eins og þegar hefur komið fram. Hann segist vera „kanabarn“.

„Faðir minn var bandarískur og vann hjá bandaríska hernum á Keflavíkurflugvelli og hann stakk af um leið og hann vissi að mamma var ófrísk. Hún varð fyrir miklum vonbrigðum því hún var búin að láta sig dreyma um að hún væri þarna búin að finna lífsförunaut sem var ekki. Hann var mjög leiðinlegur við hana þegar hún reyndi að tala við hann eftir að hann fór í burtu og gaf skít í hana.

Mamma flutti til Bandaríkjanna þegar ég var tveggja ára og það má segja að hún hafi skilið mig eftir hjá ömmu og afa því hún einhvern veginn ánetjaðist Ameríku og var þar allt sitt líf eftir það. Hún sendi mér stundum pakka með dóti í og gallabuxum sem var gaman að fá og amma og afi voru rosalega góð við mig þannig að ég einhvern veginn lifði við það að þetta væri bara sjálfsagður hlutur.“

- Auglýsing -

Tómas Tómasson

Hann var átta ára þegar hann sá móður sína næst en man ekkert eftir henni áður en hún flutti vestur um haf sex árum áður. Hann heimsótti hana svo af og til í gegnum árin. „Ég á tvær stelpur, önnur er 26 ára og hin er 14 ára, og það var ekki fyrr en þær fæddust sem ég gerði mér grein fyrir að þetta hafði ekki alveg verið eins og það átti að vera. Þó að amma og afi hafi verið góð þá voru þau alltaf að bíða eftir að mamma kæmi heim sem hún gerði ekki; þau þurftu að vera með mig í þeirri von að mamma kæmi heim. Þannig að fyrir vikið var ég svolítið afskiptur sem ég er að fatta núna mörgum árum seinna. Ég er rúmlega sjötugur og allt í einu skil ég þetta.“

Amma og afi Tómasar dóu sama daginn þegar hann var 15 ára.

„Amma dó klukkan sex um morguninn og afi klukkan 11 um kvöldið. Amma var með magasár og það dró hana til dauða og ég veit ekki annað en að afi hafi dáið úr sorg. Hún var 79 ára og hann var orðinn 85 ára gamall og þau voru búin að vera gift í rúmlega 50 ár. Þau elskuðu hvort annað og voru rosalega samrýmd. Afa fannst lífið bara vera búið þegar amma dó. Það leið yfir mig við kistulagninguna. Það var áfall að missa þau.“

Amma dó klukkan sex um morguninn og afi klukkan 11 um kvöldið.

Tómas Tómasson

Tómas flutti til móðurbróður síns og bjó honum næstu árin. Hann gekk í Verzlunarskóla Íslands og segir að sér hafi gengið illa í skólanum til að byrja með. „Ég komst einhvern veginn upp með að vera óreglusamur og féll í 1. og 2. bekk. Svo fór ég til Ameríku í high school og bjó hjá móður minni en ég var óhress og óánægður með að vera þar í skóla og kláraði ekki það ár og kom aftur til baka og fór í kokkinn.“

Tómas sá aldrei föður sinn sem hét Thomas Downey.

„Ég gróf upp símanúmerið hans þegar ég var orðinn 27 ára gamall og var í háskólanámi í hótel- og veitingarekstri við Florida International University í Miami. Ég hringdi í hann og spurði hvort hann myndi eftir móður minni og þá sagði hann: „What’s your problem?“ Ég endurtók spurninguna og sagðist halda að við værum skyldir og hann sagði aftur „What’s your problem?“ og hann gaf til kynna að hann vildi ekki tala við mig. Ég bað hann afsökunar og ég talaði ekki aftur við hann. Þetta var í eina skiptið sem ég hafði einhver samskipti við hann. Ég var svolítið skúffaður. Ég var búinn að vona að hann myndi vilja hitta mig og ég myndi kannski kynnast honum eitthvað en það varð ekki og ég einhvern veginn lærði að lifa með þessu.“

Ég hringdi í hann og spurði hvort hann myndi eftir móður minni og þá sagði hann: „What’s your problem?“

 

Bakkus

Tómas sagðist hafa komist upp með að vera óreglusamur. Hann var 13 ára þegar hann fékk sér fyrsta sopann.

„Ég man eftir honum eins og þetta hefði gerst í gær. Ég fékk mér sopa úr séniverflösku sem stóð á bak við gardínuna heima hjá vini mínum sem heitir Siggi. Við vorum að passa og horfa á Kanasjónvarpið. Ég sá þessa flösku, tók hana upp, skrúfaði tappann af og fékk mér sopa. Ég veit ekki af hverju ég gerði það. Mér fannst þetta vera gott og ég fann aðeins á mér og gerði þetta aftur næstu helgi. Svo var ég farinn að gera þetta eins oft og ég gat á þessum tíma.“

Ófermdur.

„Ég datt nú ekki í það á fermingardaginn en ég man að ég fékk svo mikinn pening í fermingargjöf að ég gat notað hluta af honum til þess að kaupa brennivín. Amma og afi gerðu sér ekki grein fyrir því að ég væri að drekka. Afi vissi að ég var byrjaður að drekka þegar ég var 15 ára rétt áður en hann lést. Það er engum hollt að drekka brennivín sem eru 13-14 gamlir. Þetta var eins og þegar krakkar á þessum aldri eru að stelast til að drekka um helgar. Svo þegar amma og afi dóu þá fékk ég frjálsari hendur við að drekka. Þegar ég fór síðar að vinna sem kokkur komst ég upp með að vera undir áhrifum í vinnunni og það var ekki eðlilegt.“

Tómas vann á Keflavíkurflugvelli um tíma þegar hann var 16 ára og bjó þá í bragga. „Hjartað í mér fór eitt kvöldið að slá með miklum látum og ég hélt hreinlega að ég væri að deyja. Ég var rosalega hræddur. Ég samdi við Guð um það að ef ég myndi ekki deyja þá myndi ég hætta að reykja og drekka. Svo bara hjaðnaði þetta og hjartað fór að slá eðlilega og svo sofnaði ég fyrir rest. Reyndar hafði læknir komið og skoðað mig og komst hann að þeirri niðurstöðu að þetta væri eins og þeir segja „false alarm“. Ég var skíthræddur við að deyja á þessum tíma en í dag átta ég mig á því að við endum öll á því að deyja einhvern tímann og ég er einhvern veginn sáttur við það að þegar það skeður þá bara skeður það og ég er alveg rólegur.“

Tómas segist hafa samið við Guð þetta kvöld í bragganum. Hann sveik loforðið og hélt áfram að drekka.

Tómasi dreymdi um að verða veitingamaður á þessum tíma. „Þegar ég var 16 ára byrjaði ég að vinna á pyslubar sem var í Austurstræti sem hét Prima pylsur. Ég var þá í Verzlunarskólanum og sópaði portið fyrir aftan staðinn og svo fékk ég að afgreiða pylsur inn á milli. Mér fannst svo gaman að afgreiða kúnnana að ég sagði „vá, þetta finnst mér gaman að gera“. Og ég einhvern veginn stefndi á þetta. Ég fór svo að læra að vera kokkur þegar ég var 18 ára og kláraði kokkanámið þegar ég var 22 ára.“

Og hann drakk allt of mikið í mörg ár.

„Alkóhólismi er nú þannig að hver og einn verður að hitta sinn botn og botninn getur verið misjafnlega neðarlega. Ég er af þeirri kynslóð sem þekkti ekki önnur vímuefni þannig að minn vímugjafi var bara áfengi. Ungt fólk sem fer í meðferð í dag er yfirleitt búið að vera í einhverjum efnum. Ég er eins og fermingardrengur við hliðina á þessu fólki sem er í meðferð í dag sem er búið að vera í harðri neyslu. Ég átti það til að drekka í tvo til þrjá daga í röð og það var of mikið og ekki rétt. Það endaði með því þegar ég var 31 árs að þá fannst mér nú vera nóg komið og fór ég í meðferð uppi á Silungapolli. Og ég hef ekki drukkið í 41 ár og tvo mánuði.“

 

Alkóhólismi er nú þannig að hver og einn verður að hitta sinn botn og botninn getur verið misjafnlega neðarlega

 

 

Hamborgaraævintýrið

Tómas vann sem matreiðslumaður í mörg ár. Hann vann meðal annars í eldhúsi Loftleiða og svo sá hann í þrjú ár um rekstur eldhússins í félagsheimilinu Festi í Grindavík á árunum 1974-1977; hann segist ekki hafa drukkið á þeim þremur árum.

Hann átti erfitt með að finna vinnu þegar hann kom úr meðferðinni á Silungapolli. Vinur hans spurði hann einn daginn hvort hann vildi hjálpa sér við að opna lítinn hamborgarastað við Laugaveg 116 og þeir gerðu það. „Þá komst ég að því að mér fannst gaman að steikja hamborgara og mér fannst þeir vera góðir. Það varð til þess að ég opnaði fjórum mánuðum síðar minn eigin hamborgarastað við Grensásveg undir nafinu Tomma hamborgarar. Það var 14. mars árið 1981.

Ég átti engan pening þegar ég fór af stað með minn eigin stað og bað vini og vandamenn um að hjálpa mér við að innrétta og svo klóraði ég mig áfram í rólegheitunum. Og einhvern veginn tókst mér að opna staðinn. Ég átti von á því að ég myndi selja á milli 2-300 hamborgara á dag en eftir fimm vikur var ég farinn að selja um 1000 hamborgara á dag. Fyrsta árið seldi ég um 353.000 hamborgara sem var þvílíkt ævintýri að ég hef aldrei lent í öðru eins.

Ég opnaði fleiri Tomma hamborgarastaði í framhaldinu af því og svo seldi ég þá og opnaði síðan Sprengisand við Bústaðaveg og var þar í þrjú ár. Síðan opnaði ég Hard Rock Café í Kringlunni og var þar í 10 ár, ég var með Ömmu Lú og svo rak ég Hótel Borg í 10 ár; ég átti hótelið að nafninu til. Ég opnaði svo Hamborgarabúllu Tómasar fyrir 17 árum. Þetta er í grófum dráttum ferillinn minn.“

 

Fyrsta árið seldi ég um 353.000 hamborgara sem var þvílíkt ævintýri að ég hef aldrei lent í öðru eins.

 

Tómas Tómasson
Með Helga Björns 1992 á fimm ára afmæli Hard Rock Cafe.

Það hefur gengið upp og niður í rekstrinum; bara svona eins og hafið bláa hafið er annaðhvort lygnt eða þá að stormar geysa og öldurnar teygja sit í átt til himins og láta öllum illum látum.

„Ég er búinn að lenda í alls konar ævintýrum í þessum fyrirtækjum sem ég hef stofnað og ég hef stundum skrifað nafnið mitt og það hefur tekið mig tvö eða þrjú ár að losa mig út úr einhverju sem ég skuldbatt mig til að taka ábyrgð á. Þannig að þetta er búin að vera ein allsherjar barátta í gegnum viðskiptin þótt það hafi gengið vel á köflum. Ég hef stundum lent í ævintýrum með að opna einhverja staði sem voru miklu dýrari í innréttingum heldur en átti að vera en ég hef einhvern veginn klórað mig út úr þessu. Málið er að maður þarf alltaf að taka einhverja áhættu þegar maður fer út í viðskipti. Þegar ég opnaði Hamborgarabúllu Tómasar þá var ég svo blankur að ég þufti að skrapa saman 500 kalli úr þremur bankareikningum til að kaupa inneign á síma. Ég þurfti bara að byrja upp á nýtt og ég gerði það og opnaði stað niðri við Geirsgötu sem hefur verið flaggskipið okkar.“ Annar sonur Tómasar sér nú um rekstur staðanna en Tómas segist vera meira upp á punt. „Það er mynd af mér á öllum stöðunum og ef það er eitthvað um að vera þá kem ég og steiki en dags daglega hef ég ekki lengur nein föst verkefni annað en bara að fylgjast með og vita hvað er að ske. En ég hef frjálsar hendur og fulla starfsorku og tíma til þess að fara út í stjórnmálin.“

Tómas er spurður um uppáhaldshamborgarann. „Hann er mjög einfaldur. Það er grófhakkað nautakjöt sem er um 20% fita og medium rare, aðeins rautt í miðjunni, brauð og ég dýfi þessu ofan í kokteilsósu. Og það verða að vera franskar með.“

Hamborgarakóngurinn er spurður hvað það er við hamborgara sem mörgum finnst vera svo gott. „Það er eins með hamborgarann og pylsuna. Það er auðvelt að borða hvort tveggja og þetta er svolítið eins og að fara í bíó og sjá B-bíómynd; hún er alltaf skemmtileg og góð, hún skilur ekkert mikið eftir en mann langar alltaf til að sjá aðra svipaða einhvern tímann seinna. Hamborgari er matur sem hægt er að borða hvenær sem er dagsins, jafnvel milli mála, og þetta er eins og Coca Cola; mörgum finnst alltaf gott að drekka kók. Og það má segja að hamborgarinn sé eins og nammi; sykurlaust nammi. Í dag er hægt að fá hamborgara mjög víða á Íslandi. Þetta hefur tekið svakalegum framförum og menn eru farnir að elda alveg hreint dásamlega hamborgara út um allt.“

 

En ég hef frjálsar hendur og fulla starfsorku og tíma til þess að fara út í stjórnmálin.

 

Ástin

Jú, hafið bláa hafið sýnir á sér margar hliðar eins og lífið sem getur verið eins og saltfiskur. Svo er það ástin og skuggarnir.

„Ég varð þunglyndur árið 1998 og mér leið mjög illa í um sex mánuði. Það var mjög erfiður tími. Ég var að skilja við sambýliskonu mína og ég tók það mjög nærri mér og það ágerðist bara og ég var ekkert að hugsa um sjálfan mig á þessum tíma. Ég borðaði lítið sem ekkert. Ég sat bara og horfði ofan í skrifborðið mitt og beið eftir að tíminn liði þangað til það kæmi kvöld til þess að ég gæti farið að sofa til þess að vakna svo morguninn eftir til þess að setjast aftur við skrifborðið mitt og horfa ofan í það. Það var líka ótrúlegt að liggja með Biblíuna á bringunni og biðja Guð um aðstoð. Svo hjaðnaði þetta smám saman og þegar þessu var lokið þá horfði ég til baka og sagði „vá, var ég þunglyndur og var ég í þessu óþægilega ástandi?“

Það var líka ótrúlegt að liggja með Biblíuna á bringunni og biðja Guð um aðstoð.

Tómas segist hafa leitað til 12 spora samtakanna þegar honum leið sem verst. „Ég hitti líka þerapista. Ég hef í gegnum tíðina farið til þerapista oft og mörgum sinnum. Það eiga allir að fara til þerapista og létta á sér og ræða ýmis mál.“

Hann talar um ástina til barnanna sinna. Hann á fjögur. Tvo syni og tvær dætur. Hann var varla kominn af barnsaldri þegar hann eignaðist eldri son sinn 19 ára gamall. Hann var svo 25 ára þegar hinn kom í heiminn. „Ég var ekki nógu þroskaður þegar þeir fæddust. Þeir voru lengi vel eins og bræður mínir. Þegar eldri dóttir mín fæddist þá átti ég von á því að þetta væri strákur frekar en stelpa en mig langaði svolítið til að eignast stelpu. Ég var viðstaddur fæðingu hennar og þegar hún kom út og ég sá að þetta var stelpa þá var eins og það hefði bráðnað einhver ísjökull sem var utan um hjartað á mér. Ég fann hvað ég elskaði hana mikið. Það er ótrúleg tilfinning þegar maður finnur allt í einu hvað ástin getur verið sterk. Og þegar yngri dóttir mín fæddist þá fann ég sömu tilfinninguna. Ég var líka viðstaddur fæðingu hennar og það var eins og himnarnir hefðu opnast þegar ég fékk að halda á henni alveg nýfæddri í handklæðinu og hjálpa til við að klippa naflastrenginn.“

 

Flatkaka með roast beef og rækjusalati

72 ára gamall maðurinn er í góðu formi og hann segist lyfta fjórum sinnum í viku. Það er saga á bak við hvers vegna hann fór að lyfta á sínum tíma.

„Ég fór árið 1981 á rokkhátíð á skemmtistaðnum Broadway sem var í Mjóddinni. Það komu fram allar aðalhljómsveitir landsins á þessum tíma og eitt síðasta skemmtiatriðið var með hljómsveitinni Egó sem Bubbi var í forsvari fyrir. Bubbi fór á kostum og söng lögin sem hann var frægur fyrir á þessum tíma. Hann var á þessum tíma gjarn á að fara úr að ofan og hann var stæltur og með six pack og ég veit ekki hvað. Ég dáðist að honum. Svo kom ég heim um kvöldið, horfði á mig í speglinum ber að ofan og sagði „vá, ég verð að gera eitthvað í þessu“. Það varð til þess að ég fór að æfa í „gimmi“ sem ég hafði ekki gert áður. Svo einhvern veginn ánetjaðist ég þessu og fór að æfa.“

Fjórum sinnum í viku. „Ég var að æfa áðan. Ég lyfti, fer í róðrarvélina og á hjólið og geri dittinn og dattinn. Þeir segja sko þegar maður æfir: If you don’t use it you loose it“. Á mínum besta degi snemma á þessu ári tók ég 100 kíló í bekkpressu. En ég geri það ekki á hverjum degi. Maður er misjafnlega vel upplagður. Ég fer kannski niður í 90 kíló en ef ég er í stuði þá get ég farið upp í 100 kíló. Það er eins og það sé svokallað „milestone“ að taka 100 kíló í bekkpressu. Þá er maður búinn að ná ákveðnum árangri. En það er ekki aðalmálið; ég meina, margir sem æfa reglulega taka 60-70 kíló og eru bara ánægðir með það að vera fitt og flottir.“

Á mínum besta degi snemma á þessu ári tók ég 100 kíló í bekkpressu.

Tómas skartar fullt af húðflúrum. Hann fékk það fyrsta í Kaupmannahöfn árið 1971 hjá Tattu Ole. Það er svört rós. Það er rós sem visnar ekki.

„Svo gerði ég ekkert í þessu fyrr en fyrir fimm árum síðan þegar ég byrjaði að láta húðflúra mig hægri vinstri. Hann Fjölnir tattú tattúverar mig gjarnan. Hérna er mynd af flugu sem dóttir mín teiknaði; ég læt yfirleitt húðflúra eitthvað sem tengist dætrum mínum eða einhverjum part í lífi mínu.“

 

Tómas Tómasson

Tómas, sem hefur fjórum sinnum verið í sambúð og kvænst þrisvar sinnum, býr einn í kjallaraíbúð í Grjótaþorpinu. Hann segist ekki sjá fram á að hann eigi eftir að búa aftur með konu. „Ég er orðinn vanur því að vera einn. Það er bara svoleiðis.“ Hann segist aldrei verða einmana. „Ég elska að vera einn. Það er mitt bread and butter að vera einn í rólegheitunum og vera að sýsla í bókum eða tölvunni og þess vegna að horfa pínulítið á sjónvarpið ef ég finn góða mynd eða seríu. Mér finnst vera rosalega gott að horfa á sorglegar myndir og gráta pínulítið. Besta myndin til að gráta yfir heitir I’m Sam; Sean Penn leikur þroskaheftan mann sem er að ala upp dóttur sína. Myndin er dásamleg. Ég horfi oft á hana.“

Mér finnst vera rosalega gott að horfa á sorglegar myndir og gráta pínulítið.

Tómas segist halda að hann sé mjúkur maður. Rosalega mjúkur maður.

Og honum þykir gaman að leysa sudoku-þrautir.

Uppáhaldsmatur Tómasar er ekki hamborgari. „Ég fékk uppáhaldsmatinn minn í fyrsta skipti þegar ég var 13 eða 14 ára og það er svo skrýtin samsetning á mat að það reka allir upp stór augu þegar ég segi frá þessu. Það er flatkaka með roast beef og rækjusalati. Það er það besta. Það var búð við Hjarðarhaga sem seldi flatkökur sem þeir fengu í bunkum og sem voru smurðar eftir hendinni og svo voru þeir með salat, kjötálegg og alls konar snarl og ég fékk þetta í fyrsta skipti í frímínútum þegar ég var í Hagaskóla. Og það var eins og himnarnir hefðu opnast. Þetta er þvílíkt lostæti og ég hef meira að segja borðað þetta á jólunum. Fyrir utan þetta finnst mér humar vera góður.“

Flatkaka, roast beef og rækjusalt. Allt í einum graut. Má kannski að einhverju leyti líkja þessu við líf Tómasar sem hefur gengið í gegnum súrt og sætt? „Er það ekki bara? Ég er hvatvís þannig að ég geri stundum hluti en ég ætti kannski stundum að hugsa mig betur um þannig að fyrir vikið er þeta svolítill hrærigrautur á köflum.“ Hvatvísi á eldri árum og hann talaði um óstýtilæti á æskuárunum. Hann er spurður um ADHD. Möguleikann á því. „Ég fór í ADHD-próf fyrir nokkrum árum síðan og gerði alls konar þrautir og ég var dæmdur ekki með ADHD. Ég var svolítið hissa á því. Ég hélt ég hlyti að vera með ADHD en ég er það ekki. Ég heyrði mjög góða reglu um daginn sem ég reyni að fara eftir en man það ekki alltaf en hún er sú að ef ég fæ góða hugmynd þá bíð ég þangað til daginn eftir að framkvæma hana. Og ef hún er þá jafngóð eins og daginn áður þá get ég hugsað mér að framkvæma hana. Annars ekki.“

Tómas. Veitingamaðurinn sem fer kannski á þing á áttræðisaldri. Hann er spurður hvernig hann vilji að fólk minnist sín. „Ég var talinn vera svolítið skrýtinn í gamla daga. Ég var alltaf að spyrja. Á einhverjum tímapunkti var ég kallaður „Tommi af hverju“. Og núna nýt ég þess heiðurs að vera talinn sérvitur. Fyrir utan það að ég vil að fólk minnist mín af því að ég átti gott samband við börnin mín sem ég elska mikið þá er ég alveg sáttur við það að vera talinn sérvitri karlinn sem bjó til góða hamborgara.“

Ég hélt ég hlyti að vera með ADHD en ég er það ekki.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -