Þriðjudagur 3. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

„Forréttindi að starfa við mitt stærsta áhugamál“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 Förðunarsnillingurinn Natalie Hamzehpour starfar sem þjálfari og almannatengill á snyrtivörusviði Nathan & Olsen. Natalie er 24 ára en hefur þrátt fyrir ungan aldur skipað sér í fremstu röð förðunarfræðinga á Íslandi. Við fengum hana til að segja aðeins frá sjálfri sér, starfinu og förðunartrendunum fyrir haustið.

Natalie er fædd og uppalin í Þýskalandi en hefur búið á Íslandi síðastliðin 11 ár. Hún hóf feril sinn sem sminka í Borgarleikhúsinu og hefur síðan þá unnið fjölmörg störf í faginu. Aðspurð segir hún áhugann á förðun hafa kviknað sem barn. „Mamma mín er hárgreiðslukona og pabbi minn var módel og ég fékk oft að fylgjast með á bak við tjöldin þegar mamma var með stórar sýningar fyrir Paul Mitchel. Ég hef alltaf heillast af förðun og fannst skemmtilegast að fylgjast með förðunarfræðingunum vinna sína vinnu. Mamma var með NoName á stofunni hjá sér á þessum tíma og ég var svo heppin að fá að eiga prufurnar og fékk meira að segja að hafa standinn inni í herberginu hjá mér þegar hún fékk nýja. Svo fékk ég vinkonur heim til mín eftir skóla til að vera módel hjá mér, mér fannst hreinlega ekkert skemmtilegra en að farða,“ segir hún.

Þessi brennandi áhugi á förðun hefur síst farið minnkandi með árunum en Natalie starfar, sem fyrr segir, sem þjálfari og almannatengill á snyrtivörusviði Nathan & Olsen. „Starf mitt felst í því að halda námskeið fyrir sölufólkið okkar og þjálfa vöruþekkingu þess. Ég sé einnig um allt sem tengist pressu og áhrifavöldum. Í haust mun ég samhliða því kenna förðun í Makeup stúdíói Hörpu Kára og er ótrúlega spennt. Ég lít á það sem forréttindi að geta starfað við mitt stærsta áhugamál og vera umkringd skemmtilegu fólki á hverjum degi. Starfið er líka svo fjölbreytt að ég fæ aldrei leiða á því.“

Á haustin má oft sjá nýjar áherslur og stefnur í förðun, og Natalie er með allt á hreinu hvað það varðar. „Mér finnst gaman að sjá hvernig förðunartrendin í haust eru ekki jafnfullkomin og „Instagram-leg“ og þau hafa verið undanfarið. Förðunin er raunverulegri og eins og búið sé að ganga hana aðeins til. Hlýir brúnir tónar sem ramma inn augun eru áberandi og þessi „grunge“-stemning sem ég hrífst mjög af er að koma aftur. Húðin fær að njóta sín og best er að þekja hana ekki of mikið. Sterkur varalitur er alltaf málið á haustin, ég heillast mjög af ýmis konar ólíkum rauðum tónum. Litir eru líka áberandi. Þá er ég ekki að tala um mjög litríka förðun heldur aðeins „pop“ af lit. Kannski gulur augnskuggi í innri krók eða appelsínugulur í vatnslínuna.“

Þegar Natalie er spurð um ráðleggingar fyrir heilbrigða húð nefnir hún klassísku ráðin að drekka vatn, sofa ekki með farða og nota sólarvörn. „Svo mæli ég með að kynna sér glýkól- og salisýlsýrur. Ég fullvissa þig um að þær munu gjörbreyta lífi þínu (og húðinni),“ segir hún að lokum.

 

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Natalie, en viðtalið í heild sinni má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

- Auglýsing -

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -