Fimmtudagur 25. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Í dag vel ég að telja blessanir en ekki böl“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Birna le Sage de Fontenay segir það dulbúna gæfu að alast upp við alkóhólisma en það fékk hana til að leita inn á við og heila þá brotnu sjálfsmynd sem hún bjó lengi við.

Hún byggði sig upp eftir andlegt hrun vegna álags og lét æskudrauma rætast en í dag tekur hún viðtöl við fyrirmyndir sínar á Ahamoment.is og miðlar af reynslu sinni á námskeiðum tengdum andlegri heilsu og uppeldi.

„Það má segja að ég sé blanda af borgarbarni og sveitastelpu,“ segir hún aðspurð um æskuárin. „Ég er fædd og uppalin í Efra-Breiðholti en á sterkar rætur í sveit. Foreldrar mínir eru bæði fædd og uppalin á sveitabæjum á Suðurlandi og því var ég nánast um hverja helgi og öll sumur í sveitinni hjá ömmum mínum og öfum. Eitt það dýrmætasta sem ég tek með mér úr æsku minni er sú djúpa tenging við náttúru og dýr sem ég fékk eftir veru mína í sveitinni, ásamt mikilli samveru fjölskyldunnar.

Ég var mjög opin sem barn en hvarf svo inn í sjálfa mig og lærði að vera Pollýanna sem kunni að hlýða.

Ég er alþýðustelpa sem ólst upp við fjárhagskröggur í 111 Reykjavík, flutti svo í Setbergið, því næst í Hollywood-hæðir Hafnarfjarðar í 10. bekk og fór þaðan í Verzló til að leika og syngja. Fimleikar, söngur og leikur áttu hug minn allan í æsku. Ég var mjög opin sem barn en hvarf svo inn í sjálfa mig og lærði að vera Pollýanna sem kunni að hlýða, vera stillt og góð og standa mína plikt,“ segir hún og brosir út í annað.

Korter í kulnun

Hún vann yfir sig og álag setti sitt strik í reikninginn, það var stutt í algert þrot. „Ég hætti eiginlega sökum þess að ég var korter í kulnun og var að sligast undan hrunskuldum. Ég var í yfir 200% vinnu, á RÚV og að sjá um bókhald fyrir fyrirtæki, var í hljómsveit, að takast á við veikindi í fjölskyldu og erfiðan skilnað foreldra. Ég hætti því á RÚV án þess að hafa reynt almennilega við æskudrauminn, að vera spyrill og miðla, fjalla um og lyfta upp öllu því góða í samfélaginu okkar.

Ég hætti því á RÚV án þess að hafa reynt almennilega við æskudrauminn.

En eftir stóð bókhaldið, ágætlega launað starf sem krafðist ekki mikils af mér, sem var eitthvað sem ég verulega þurfti á að halda til að ná andlegu og líkamlegu jafnvægi á ný eftir að hafa gengið fram af mér með álagi. Svo ílengdist ég í því starfi enda hentaði það sveigjanlega starf vel eftir að ég fann ástina í lífi mínu og raðaði niður tveimur börnum bak í bak, gerði upp íbúð og hús með unnusta mínum.“

- Auglýsing -

En hugsjónamanneskjan sem hafði alla tíð valið sér starf með tilgang og göfugt markmið í huga – þjálfun, kennslu, umönnun, félagsstörf, fangavörslu, vinnu með fólki með fötlun og almennt eitthvað sem snertir á mennskunni og samskiptum – var orðin vægast sagt eirðarlaus í bókhaldsstarfi, þrátt fyrir annir í einkalífinu.

Guðrún Birna segist hafa verið andlega þenkjandi alla tíð og leitandi frá því hún man eftir sér.

„Ætli dulbúna gæfan mín hafi ekki verið að alast upp við alkóhólisma og gera mér þess vegna snemma grein fyrir því að ég kom út í lífið með skökk viðhorf. Það varð til þess að ég leitaði mér hjálpar og leitaði lausna, leit inn á við og ræktaði andann og geðið. En þetta var löng leið því ég vissi ekki hvert ég átti að leita og hef því prófað ótalmargt. Ég var strax sem barn mjög áhugasöm um öll trúarbrögð, sökkti mér svo niður í stjörnuspeki og dulspeki. Síðan fór ég að lesa mér til um alkóhólisma og meðvirkni á unglingsárunum og tók þann leiðarvísi og fór að leika ómeðvirka manneskju – sem gerði mig enn meðvirkari en áður.

Ætli dulbúna gæfan mín hafi ekki verið að alast upp við alkóhólisma og gera mér þess vegna snemma grein fyrir því að ég kom út í lífið með skökk viðhorf.

- Auglýsing -

Síðan fór ég að grúska og læra um sálfræði, félagsfræði og félagsráðgjöf. Las ófáar sjálfshjálparbækur og fór þaðan í spíritisma og núvitund. Lærði og stundaði hugleiðslu úr ýmsum áttum og fór að stunda jóga. Fór í 12 spora samtök, lærði markþjálfun, hitti ráðgjafa, sálfræðinga, geðlækna og svo gæti ég lengi talið. En eftir alla þessa leit rambaði ég á Gló motion, heilræktarkennaranám hjá Guðna í Ropeyoga-setrinu. En Guðna tekst í heimspeki sinni og bókum að flétta saman gamalli og nýrri speki og töfra hana fram með djúpum skilningi á íslenskri tungu og mætti orðanna. Þetta sameinar og rifjar upp allt það besta sem ég hef lært og uppgötvað hingað til en umturnar á sama tíma öllu með nýrri auðskilinni nálgun. Skrefunum 7 til velsældar.

Hjá Guðna lærði ég að vilja mig til fulls, nákvæmlega eins og ég er núna – hætta að hafna mér og vera þess í stað þakklát þegar ég gríp mig í sjálfsniðurrifi eða gagnrýni á aðra. Þakka fyrir að sjá mig – því þá hef ég tækifæri til að beina athygli minni annað – velja mér viðhorf – velja hvert ég stefni og hvað ég rækta í mér. Það er svo merkilegt hvað við getum eytt mikilli orku í að skamma, stjórna og sparka í okkur liggjandi í stað þess að rétta okkur hjálparhönd – vera okkar besti vinur, sýna okkur kærleika og umhyggju. Þegar maður elskar sig nákvæmlega eins og maður er núna, þá heilar maður fortíð sína og hættir að hafa áhyggur af framtíðinni, því maður er fullkominn, það er, kominn til fulls í þetta augnablik,“ segir hún af mikilli innlifun.

 Föst í þráhyggju hugans

Okkur leikur forvitni á að vita hvað sé það erfiðasta sem hún hefur gengið í gegnum í lífinu. „Vá, hvað það er gaman að fá þessa spurningu,“ segir hún og bætir við; „það er nefnilega svo merkilegt að þegar maður sannarlega vill sig, nákvæmlega eins og maður er þá verður maður svo þakklátur fyrir það sem hefur komið manni á þann stað, gert mann að þeirri manneskju sem maður er. Nú lít ég á allt lífið, öll tímabilin, mótbyr og meðbyr, með nýjum augum. Ég er svo sammála því sem Alda Karen segir, sum tímabil eru til að læra af og önnur til að njóta.

Guðrúnu Birnu tókst að byggja sig upp eftir andlegt hrun vegna álags og lét æskudrauma rætast. Mynd / Hallur Karlsson

En ef ég horfi yfir farinn veg þá fann ég fyrir mestum sársauka þegar ég steig út  úr æskunni, varð sjálfráða og uppgötvaði að ég væri frjáls til að gera mitt á minn hátt. En ég var með skökk viðhorf, litla sjálfsvirðingu og kunni ekki að gera hluti fyrir sjálfa mig, né að sinna þörfum mínum og löngunum og kunni hvorki að setja sjálfri mér né öðrum mörk.

Ég var aldrei nóg, að mínu mati. Eins og er svo dæmigert fyrir uppkomið alkabarn.

Ég var með fullkomnunaráráttu og „allt eða ekkert“-hugsunarhátt, uppfull af skömm yfir því að vera ekki betri en ég var – ég var aldrei nóg, að mínu mati. Eins og er svo dæmigert fyrir uppkomið alkabarn. En líka dæmigert fyrir marga af minni kynslóð, þar sem stelpum var kennt að vera hlýðnar og góðar, hlýða skipunum og standa undir væntingum, og það var ausið yfir þær hrósi fyrir að gera það sem þeim var sagt. Svo kemur maður út í lífið og á að vita hvað maður sjálfur vill? Allt í einu á maður að að vera í tengslum við sjálfan sig, óháður kröfum annarra og standa sig áfram í öllu upp á tíu. En lífið er kannski orðið flóknara og áhugasviðið stærra, svo reikningsdæmið gengur hreinlega ekki upp.

Það var hreinlega ósjálfráður kækur að sparka í mig liggjandi og hafna sjálfri mér öllum stundum.

Viðtalið við Guðrúnu má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Á þessum tíma var ég föst í þráhyggju hugans, var í stanslausu sjálfsniðurrifi og upplifði mikinn kvíða og þunglyndi. Það var hreinlega ósjálfráður kækur að sparka í mig liggjandi og hafna sjálfri mér öllum stundum. Á sama tíma var ég að hætta í fimleikum og hafði ekki þá líkamlegu og andlegu útrás sem íþróttir og hreyfing eru.

Ég leitaði mér samt hjálpar, var hjá sálfræðingi, lærði hugræna atferlismeðferð og fleiri tól – en það var bara ekki nóg, það vantaði þessa allsherjar hugarfarsbreytingu að vilja sig og beina athyglinni að því sem ég vildi í stað þess að stara á það sem ég vildi ekki. Því lögmál lögmálanna, orsök og afleiðing, virkar þannig að það sem þú veitir athygli vex og dafnar. Í dag vel ég að telja blessanir en ekki böl.“

Frábært viðtal við Guðrúnu Birnu er að finna í nýjasta tölublaði Vikunnar sem er í verslunum núna.

Mynd / Hallur Karlsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -