Mánudagur 15. júlí, 2024
14.8 C
Reykjavik

„Innsæið öskrar á mig að taka þetta skref“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Unnur Eggertsdóttir var ekki há í loftinu þegar hún tók þá ákvörðun að verða leik- og söngkona. Frá unglingsaldri hefur hún unnið hörðum höndum að því að uppfylla þann draum, og hefur undanfarin ár verið búsett í landi tækifæranna, Bandaríkjunum. Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá útskrift úr virtum leiklistarskóla hafa verkefnin verið fjölmörg. Unnur stendur nú á tímamótum eftir að hafa sagt upp hlutverki sínu í stórum söngleik sem settur var upp í Las Vegas.

Leiðin hefur ekki alltaf verið greið síðustu ár í lífi Unnar, þrátt fyrir að á blaði virðist tækifærin hafi hreinlega dottið upp í hendurnar á henni. Sjálf gefur hún lítið fyrir þá hugmynd að hægt sé að meika það á einni nóttu. „Það er einhver rómantík yfir þeirri hugmynd í Hollywood sem fræga fólkið virðist oft vilja halda í,“ segir hún. „Það hljómar kannski betur að hafa orðið frægur á einni nóttu, því fólk vill ekki segja frá svitanum, grátinum og barningnum sem hefur farið í þessa vegferð á kannski tíu árum, meðan enginn vissi hver þau voru. Það er kannski eitt hlutverk sem gerir þau fræg, en öll vinnan fram að þessu hlutverki, það tala fáir um hana. Sjálfri finnst mér skemmtilegra þegar fólk segir hvað búið er að fara í baráttuna, það gefur mér mikinn innblástur. Það er oft talað um að gullna reglan sé tíu ár. Ef þú gefst ekki upp í áratug og vinnur eins mikið og þú getur, þá verðurðu á góðum stað. Þetta er bara eins og í öðrum greinum – ef þú vilt stjórna stóru fyrirtæki eða vinna þig upp sem læknir, þarftu að leggja alveg jafnmörg ár í það eins og ef þú vilt verða virtur leikari. Margir líta á þetta ferli sem spretthlaup, og bara á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að ég útskrifaðist úr leiklistarnáminu hef ég sé marga gefast upp. Mér finnst mikilvægast að hafa þolinmæði og yfirvegun, og halda í drifkraftinn.“

Unnur hefur síðustu þrjá mánuði leikið hlutverk Jayne Mansfield í söngleik um líf Marilyn Monroe sem settur var upp í Las Vegas. Hlutverkið er það stærsta sem Unnur hefur leikið hingað til, og hafa síðustu mánuðir verið mikil keyrsla. „Það var mögnuð lífsreynsla að búa og vinna í Vegas. Ég hafði fyrst ekki hugmynd um við hverju ég ætti að búast og fannst ég svolítið rugluð að flytja í þessa djammborg. En þetta voru óendanlega skemmtilegir og lærdómsríkir mánuðir. Þarna var ég að vinna með margföldum Broadway-stjörnum og fagfólki með áratuga reynslu í bransanum. Leikhópurinn varð mjög náinn og allir sem komu að sýningunni voru með óbilandi metnað. Við vorum oft á 12 tíma æfingum marga daga í röð, að læra 18 tónlistaratriði með erfiðum dönsum og röddunum. Svo tóku sýningar við og þá sýndum við sex kvöld í viku, aðeins í fríi á mánudögum. Ég lærði svo mikið um sjálfa mig, rödd mína og líkama, hvað ég þurfti að gera til að halda mér í sem bestu formi til að geta sýnt svona erfiða sýningu næstum daglega. Í því fólst að anda að mér gufu í klukkutíma á dag, taka milljón vítamín og drekka kínverskt hunang, hvíla röddina fyrir hádegi, hita hana vel upp, og kæla hana svo niður eftir sýningu. Svo var ég í sjúkraþjálfun þrisvar sinnum í viku því það var mikið álag á bakinu í þessum dönsum sem ég var í. Þetta tók allt þvílíkt á, en alveg klárlega það lærdómsríkasta sem ég hef gert.“

Til stóð að sýningar á söngleiknum stæðu yfir í sex mánuði til að byrja með, en fyrir mánuði tóku framleiðendur sýningarinnar ákvörðun um að skipta um leikhús og gera breytingar á rekstrarumhverfinu. „Vegna þessara breytinga var ákveðið að senda leikarana í sumarfrí, sem mér fannst æðislegt. Ég fór í tvær vikur til New York að leika mér og hitta gamla vini, og er svo búin að eiga tvær dásamlegar vikur hér á Íslandi,“ segir Unnur, en vegna alls þessa þarf að endurnýja samninga við leikarana eftir sumarfríið. Hún hefur hins vegar tekið ákvörðun um að endurnýja ekki sinn samning.

„Í stærra samhenginu held ég að það sé betra fyrir mig og minn feril að endurnýja hann ekki, heldur fara aftur til Los Angeles og einbeita mér að því að finna ný verkefni. Nú þegar þetta er komið í ferilskrána og reynslubankann finnst mér það rétta í stöðunni að skoða ný tækifæri og hlutverk, í staðinn fyrir að vera þarna í ár í viðbót, eins ótrúlega gaman og það samt er. Þetta er auðvitað meiri áhætta, en ég finn innra með mér að þetta er rétt ákvörðun. Á svona stundum þarf að hlusta á innsæið – og það öskrar á mig að ég verði að taka þetta skref, eins hrædd og ég er við það.“

Þetta er aðeins brot út ítarlegu viðtali við Unni. Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

- Auglýsing -

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir / Aðstoðarljósmyndarar: Unnur Magna og Jökull Sindrason
/Förðun: Björg Alfreðsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -