Þriðjudagur 16. júlí, 2024
9.1 C
Reykjavik

Kom í jólafrí til Íslands en snéri ekki til baka

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fagurkerar landsins og áhugafólk um matargerð kannast eflaust margt hvert við Maríu Gomez, snillingin á bakvið heimasíðuna Paz.is. Heimilis-og uppskriftavefurinn hefur vaxið ört á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að hún tók af skarið og opnaði hann, eftir að hafa gengið með hugmyndina lengi í maganum.

Vefurinn og vinnan á bakvið Paz.is sameinar mörg af helstu áhugamálum Maríu en hún leggur áherslu á einfaldleika bæði í eldamennsku og þegar kemur að skreytingum á heimilinu. Sjálf hefur María gengið í gegnum margt í lífinu, en tilvera hennar hefur tekið stakkaskiptum þónokkrum sinnum í gegnum tíðina.

Mynd / Unnur Magna

María á ættir að rekja til Spánar og bjó þar fyrstu árin en faðir hennar er spænskur og móðir hennar íslensk. Fimm ára gömul fór hún til Íslands í jólafrí með móður sinni en dvölin lengdist og fór það svo að þær snéru ekki til baka og hófu nýtt líf á Íslandi.

„Ég veit ekki hvort það hafi verið upphaflegt plan hjá henni að snúa aldrei aftur,“ segir María um ákvörðun móður hennar.

„Það varð úr að hún hringdi í pabba og skildi við hann í gegnum símann. Þá voru tímarnir aðrir, dýrt að fljúga milli landa, langlínusímtöl rosalega dýr og heimurinnn svo miklu stærri og fjarlægðin meiri en er í dag þar sem hægt er að ferðast ódýrt milli landa og spjalla tímunum saman gegnum snjallsímaforrit án þess að það kosti krónu.“

María segir þetta hafa haft bæði góð og slæm áhrif á sig. „Ég var auðvitað búin að tengjast spænsku fjölskyldunni minni sterkum böndum og kunni bara spænsku. Ég var því alveg mállaus þegar við fluttum til landsins en skildi íslenskuna vel og var því fljót að ná henni.

 

Það að heita Gomez vakti alltaf upp spurninguna hvort ég væri ekki íslensk.

- Auglýsing -
María Gomez prýðir forsíðu Vikunnar

Íslenska fjölskyldan mín var mér alveg ókunn nema afi minn sem við fluttum til, ég hugsa að það hafi bjargað mér alveg að hafa búið hjá honum fyrst um sinn með mömmu. Hann var yndislegur og hafði mikla ást á mér, við vorum mjög náin þar til hann dó þegar ég var níu ára. Á þessum tíma var erfitt að vera hálfur útlendingur, Ísland var ekki þetta fjölmenningarsamfélag sem við þekkjum í dag. Það að heita Gomez vakti alltaf upp spurninguna hvort ég væri ekki íslensk.

Ég var líka mjög dökk miðað við íslensk börn. Ég tók þetta afar nærri mér, vildi ekki vera öðruvísi og hætti því alveg að tala spænsku og kenndi mig á tímabili við þáverandi stjúpa minn. Það entist þó ekki lengi því ég er og verð alltaf Gomez.  Ég hef alltaf fundið til mikils söknuðar til spænsku fjölskyldunnar, menningarinnar og matarins en ég er miklu líkari spænska fólkinu mínu og hef alltaf haldið góðum samskiptum við það. Ég hef aldrei tengst íslensku móðurfjölskyldu minni og er í ekki í sambandi við neinn nema móðurömmu og hálfsystur móður minnar, sem ég hef mikið dálæti á.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Maríu, en í nýjasta tölublaði Vikunnar má lesa það í heild sinni. Þar má að auki finna uppskriftir frá Maríu af jólamat fjölskyldunnar og myndir af glæsilegu jólaboði sem hún hélt fyrir Vikuna. 

- Auglýsing -

Myndir / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -