Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Sjö heimagerðir andlitsmaskar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er gott fyrir húðina að setja reglulega maska á andlitið – og svo er það líka bara huggulegt dekur.

 

Stundum langar okkur að prófa eitthvað nýtt eða viljum tækla eitthvað ákveðið húðvandamál en fjárhagurinn leyfir okkur ekki að fara út í búð að kaupa maska. Þá er tilvalið að kíkja í eldhússkápana en þar leynist ýmislegt sem hægt er að nýta í andlitsmaska. Hér koma nokkrar góðar uppskriftir.

Kakóavómaski

Þessi ilmandi maski hefur margþætta virkni. Avókadó er afar nærandi ávöxtur sem hentar vel í andlitsmaska, kakó hefur hreinsandi og andoxandi áhrif og hunang er róandi og bakteríudrepandi.

¼ avókadó
1 msk. kakó
1 msk. hunang

Stappið avókadóið og hrærið kakó og hunang saman við. Berið á hreint andlit og látið vera á í tíu mínútur. Skolið af með volgu vatni og fylgið eftir með rakakremi.

- Auglýsing -

Sumarlegur jarðarberjamaski

Djúphreinsandi maski sem hentar öllum húðgerðum. Jarðarber hafa náttúrulega andoxunareiginleika sem hressa upp á húðina og vernda hana. Jógúrtið inniheldur svo mjólkursýru sem fjarlægir dauðar húðfrumur af yfirborðinu.

3 jarðarber
2 msk. sítrónusafi
1 dl grísk jógúrt
2 msk. hunang

- Auglýsing -

Stappið saman jarðarber og sítrónusafa. Blandið jógúrt og hunangi saman við. Setjið í frysti í tuttugu mínútur. Berið á hreina húð og látið vera á andlitinu tíu mínútur. Skolið af með volgu vatni.

Græðandi hunangsmaski

Hunang er náttúrulegur græðari og drepur einnig bakteríur. Þessi maski er því fullkominn fyrir bólótta húð. Næringarger er einnig ríkt af B-vítamíni sem hjálpar til við að koma jafnvægi á húðina.

1 bolli kamillute
1 msk. manuka-hunang
1 tsk. næringarger

Hellið upp á kamillutebolla með tveimur tepokum og látið kólna alveg. Hrærið saman hunang og næringarger. Bætið nægilega miklu tei saman við til þess að úr verði þykkt krem. Berið þunnt lag á húðina og látið vera á í um tuttugu mínútur. Skolið af með volgu vatni.

Lífrænn bananamaski

Suðrænn maski sem gefur húðinni fallegan ljóma og hentar fyrir allar húðgerðir.

½ banani
1 msk. appelsínusafi
1 msk. hunang

Stappið banana. Hrærið appelsínusafa og hunang saman við. Berið á andlit og leyfið maskanum að liggja á húðinni í fimmtán mínútur.

Matcha-maski

Hressandi maski sem vekur húðina og eykur ljóma hennar. Hann er líka ofureinfaldur í framkvæmd svo þú getur búið hann til hvar sem er.

1 tsk. matcha
1 tsk. chlorella
vatn

Það er hægt að nota matcha-duft í heimagerðan andlitsmaska.

Hrærið saman duftið og bætið nægu vatni út í þannig að áferðin verði þykk og leirkennd. Berið þunnt lag á andlitið og látið liggja á í tuttugu mínútur. Skolið af og þerrið húðina.

Hreinsandi eggjahvítumaski

Gott er að nota eggjahvítur á skítuga eða feita húð því þær hreinsa upp úr húðholunum. Appelsínusafinn veitir C-vítamín á meðan túrmerik hjálpar til við að jafna húðlit.

1 eggjahvíta
1 tsk. appelsínusafi
½ tsk. túrmerikduft

Þeytið eggjahvítuna örlítið, bætið svo appelsínusafanum og túrmeriki saman við og berið á húðina. Athugið að túrmerkið er litsterkt og getur litað föt og handklæði. Skolið maskann af þegar hann hefur þornað alveg, eftir um það bil fimmtán mínútur.

Bjórmaski

Eins ósennilegt og það hljómar þá getur bjór verið mjög góður fyrir húðina. Hann inniheldur B-vítamín, humla, sykrur og ger sem leysa upp dauðar húðfrumur, jafnar olíuframleiðslu og eykur ljóma húðarinnar. Eggjahvítan er hreinsandi en jafnframt næringarrík og límónan er smáskot af C-vítamíni.

1 eggjahvíta
½ bolli bjór, eða pilsner
2 tsk. ferskur límónusafi

Þeytið öll hráefnin saman og berið á andlitið. Leyfið maskanum að liggja á húðinni í tíu mínútur og skolið svo af með volgu vatni.

Umsjón / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -