Föstudagur 19. júlí, 2024
12.1 C
Reykjavik

Þyrfti að vera dýrlingur til að misstíga sig aldrei

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þjóðargersemin Ebba Guðný Guðmundsdóttir hefur kennt okkur góðar matarvenjur og hvatt til heilsusamlegs lífernis í mörg ár. Það er einhvern veginn þannig að þegar Ebba talar þá hlustum við. Við fengum hana í spjall um það sem skiptir raunverulega mestu máli.

Ebba Guðný prýðir forsíðu nýjustu Vikunnar.

Ebba Guðný er kennari að mennt en síðastliðin fimmtán ár hefur hún starfað sem fyrirlesari og rithöfundur. Bækur hennar hafa slegið í gegn og nokkrar þeirra verið seldar á erlendri grundu. Margir þekkja hana af skjánum úr sjónvarpsþáttunum Eldað með Ebbu en RÚV er með þá í endursýningu um þessar mundir.

Hún segist vera virkilega þakklát fyrir frelsið sem fylgir því að geta unnið sjálfstætt og ráðið tíma sínum sjálf. Þakklát fyrir að þurfa ekki að vinna meira en hún vill og ræður við hverju sinni. Ebba er vinsæll fyrirlesari þegar kemur að heilsu og næringu barna og fjölskyldunnar en hún hefur einnig unnið snarlid.is með Krónunni sem hefur verið farsælt samstarf en þar er boðið upp á ókeypis matreiðslunámskeið fyrir börn í Salt eldhúsi.

Ég hef til dæmis verið að fikta við það að leika og hef mjög gaman af því og er búin að fara á nokkur leiklistarnámskeið.

„Ég dunda mér líka við að skrifa hjá mér þegar mér dettur í hug eitthvað sniðugt til að setja í nýja þáttaröð, hvenær svo sem mér tekst að hnoða henni endanlega saman svo ég sé sátt. Svo er alltaf eitthvað sem dettur inn á borð hjá mér. Ég hef til dæmis verið að fikta við það að leika og hef mjög gaman af því og er búin að fara á nokkur leiklistarnámskeið. Ég er ekki frá því að ég sé frábær leikkona,“ segir sjarmadísin skælbrosandi og það er ekki erfitt að sjá hana fyrir sér slá í gegn á hvíta tjaldinu.

Ebba fékk áhuga á samspili næringar, heilsu og almennri líðan þegar hún var tvítug en þá tók hún verulega til í mataræði sínu.

„Ég hef alla tíð verið viðkvæm í maga og bara viðkvæm almennt. Ég byrjaði þá að nota lífrænt gróft spelt í staðinn fyrir hveiti, sleppti öllu geri, notaði lífrænan óunninn hrásykur í staðinn fyrir hvítan sykur og minnkaði allan sykur. Sleppti öllu gosi, lærði að elda grænmetisrétti og fór að borða meira af góðri fitu.

Mér leið betur þegar ég gerði þetta og fannst þetta lógískt. Þegar ég var orðin tuttugu og sjö ára og eignaðist Hönnu, dóttur mína, þá var ég mjög æst í að reyna að ala hana upp á hollum og hreinum mat, þannig að hún yrði heilbrigð og hraust, liði vel og þyrfti ekki að breyta um mataræði einn daginn. Sérstaklega ef hún hefði erft magann minn og viðkvæmni.“

- Auglýsing -

Ebba segist vera hollustuáhugamanneskja í fjórða ættlið. Mamma hennar bjó til allan barnamat sjálf og eldaði ofan í fjölskylduna af mikilli ástúð, oftast nær frá grunni. Góðan og hollan mat.

„Langamma mín var ljósmóðir, fædd 1879 og ól börnin sín upp með það veganesti að þau gætu sjálf bætt heilsufar sitt með því að huga að hollustu því margt gæti maður sjálfur gert til að bæta eigin líðan. Sonur hennar, pabbi mömmu, afi minn Jóhannes, fæddur 1914 borðaði í mörg ár hjá Náttúrulækningafélaginu þegar hann var ungur og kenndi ömmu minni, sem var yngri en hann, að hafa grænmeti og salat með matnum. Hann framleiddi þaratöflur, hafði mikla trú á þara og mamma tók þær inn alla sína bernsku. Amma og afi voru svo þar að auki bindindisfólk. Ég held að svona erfist einfaldlega milli kynslóða, áhuginn og vitneskjan. Bæði mamma og pabbi eru þar að auki dugleg að elda mat og hafa gaman af því og ömmur mínar allar miklar húsfreyjur, síeldandi, bakandi og takandi til.“

En hvað finnst henni mikilvægast að kenna börnum sínum þegar kemur að mataræði og heilsusamlegu líferni?

- Auglýsing -

„Ég held mér finnist mikilvægast að reyna sitt besta til að venja börnin sín á það sem gerir þeim gott. Góðar og slæmar venjur fylgja manni gjarnan út lífið. Til dæmis að venja þau á að drekka vatn. Ekki djús, ekki gos, ekki mjólk, bara vatn og aftur vatn. Bara þetta litla atriði getur bætt heilsu þeirra (og tannheilsu) og líðan svo mikið. Fyrir utan að þetta er miklu ódýrara og umhverfisvænna.

Mín börn voru fljót að meðtaka það og í dag eru þau unglingar sem drekka það nær eingöngu. Ég bannaði þeim þó aldrei að drekka gos, djús eða mjólk.

Ebba Guðný er uppfull af visku og hefur mikla ástríðu fyrir barnauppeldi, hollustu og hinu jákvæða í lífnu.

Til að byrja með stjórnum við að mestu hvað börnin okkar borða og þann tíma er gott að nýta vel. Að hafa alltaf vatn með matnum og á milli mála. Taka vatn með allt sem farið er (ferðalög, bíó o.s.frv.). Og seinna meir er snjallt að útskýra fyrir þeim ávinninginn af því að drekka eingöngu vatn. Mín börn voru fljót að meðtaka það og í dag eru þau unglingar sem drekka það nær eingöngu. Ég bannaði þeim þó aldrei að drekka gos, djús eða mjólk. Ég sagði þeim að gos skemmdi tennur og hversu ávanabindandi það væri, sykurinn og koffínið og flestir sem drekka gos væru alltaf að reyna að minnka það eða hætta því. Útskýrði fyrir þeim að það einfaldar lífið mikið að venja sig ekki á eitthvað sem gerir manni illt.

Við erum flest mjög vanaföst. En auðvitað eru sum börn ævintýragjörn og verða að prófa en það sakar aldrei að vera búinn að útskýra og kenna. Börn geta ekki áttað sig á einhverju svona sjálf. Þegar þau eru lítil má segja þeim að gos sé sterkt og gretta sig um leið.

Fyrir utan þetta dæmi þá finnst mér heilt yfir gott að reyna að venja börn á fjölbreyttan, hreinan og hollan mat. Reyna að forðast aukefni og sykur eins og hægt er og án öfga. Kenna þeim að borða hollt fyrst, áður en sætindi eru borðuð. Þá er auðveldara að borða hóflega af sætindunum, sem er augljóslega hollara fyrir mann, af því bæði fita og prótín í hollum mat mettar mann og temprar blóðsykurinn. Þannig minnkar maður einnig líkurnar á því að þróa með sér sykursýki og allskonar aðra sjúkdóma sem tengjast sykurneyslu og eru að verða algengari í dag.“

Ebba Guðný er uppfull af visku og lífsskoðanir hennar og vangaveltur koma vel fram í flottu forsíðuviðtali í nýjustu Vikunni, meðal annars hvað varðar barnauppeldi. „Mér finnst mikilvægt að tala fallega til barna. Ekki öskra, rífast og skamma. Þó að það gerist auðvitað stundum. En þá er hægt að biðjast fyrirgefningar,“ segir hún og tekur fram að auðvitað missi allflestir sig á einhverjum tímapunkti við börnin sín og misstígi sig í uppeldinu, að það sé eðlilegt.

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarmeistari Yves Saint Laurent á Íslandi

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -