Laugardagur 2. nóvember, 2024
3.3 C
Reykjavik

Kartöflu-blaðlauksbaka

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bökur eru þægilegur og góður matur. Þær er einfalt að búa til og þegar deigið hefur verið gert eru engin takmörk fyrir hvað nota má í fyllingu. Hægt er að grípa það sem til er í ísskápnum og þetta er því góð leið til að nýta afganga, grænmeti sem er á síðasta snúningi eða hvað annað sem leynast kann í matarskápum heimilisins. Hér kemur ein góð baka.

 

Ósætt bökudeig

180 g hveiti
½ tsk. salt
100 g kalt smjör í bitum
¾ dl ískalt vatn

Hitið ofninn í 180°C. Setjið hveitið í rúmgóða skál, bætið salti í og myljið smjörið saman við þar til það er eins og smáar baunir.

Gerið laut í hveitið og setjið vatn þar í og hnoðið létt saman þar til deigið hefur samlagast. Pakkið deiginu í plastfilmu og geymið í ísskáp í 15 mín. Einnig má laga deigið í matvinnsluvél.

Þá er allt nema vatn sett í vélina og hún stillt á mesta hraða í 10 sek. Vatni bætt í og hrært saman í 30 sek., eða þar til deigið hefur samlagast.

- Auglýsing -

Ef deigið vill ekki samlagast í kúlu í vélinni er ágætt að hvolfa deiginu á borðið og hnoða það létt saman í höndum í lokin. Það er betra en að láta vélina vinna lengi áfram því þá eyðileggjast smjörmolarnir.

Geymið deigið í 10-15 mín. í ísskáp. Fletjið það út og setjið í form. Pikkið í botninn með gaffli og forbakið bökuskelina í 10-15 mín.

Það má gjarnan kæla deigið í ísskáp í sólarhring áður en það er notað en þá er gott að láta það bíða við stofuhita í 15 mín. áður en það er flatt út.

- Auglýsing -

Deigið má frysta í 3 mánuði.

Kartöflu-blaðlauksbaka
fyrir 6-8

1 forbökuð bökuskel
300 g nýjar kartöflur
3 blaðlaukar
2 msk. olía
1 msk. smjör
1-2 hvítlauksrif (má sleppa)
2 egg
1 eggjarauða
2 ½ dl matreiðslurjómi
2-3 msk. parmesanostur
1 msk. ferskt tímían
salt og nýmalaður pipar
2 msk. parmesanostur til að dreifa yfir

Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið kartöflurnar í saltvatni. Skerið blaðlauk í sneiðar og steikið í blöndu af olíu og smjöri þar til hann er mjúkur, bætið hvítlauk út í í restina ef þið notið hann.

Sláið saman egg, eggjarauðu, matreiðslurjóma, ost og tímían í skál.

Skerið kartöflurnar í sneiðar og bætið út í ásamt laukblöndunni og saltið og piprið. Hellið fyllingunni í forbakaða skelina, dreifið osti yfir og bakið í 30-35 mín., eða þar til fyllingin er stíf.

Góð ráð

Fletjið deigið út á hveitistráðu borði. Ef þið lendið í vandræðum og deigið molnar allt í sundur er það líklega búið að bíða of lengi í kæli.

Ef erfitt er að móta kringlótta köku og hún festist við borðið er deigið sennilega ekki búið að kólna nóg í kæliskápnum, þá er bara að æfa sig og finna taktinn.

Fletjið deigið alltaf út frá miðjunni og snúið því nokkrum sinnum á meðan og stráið smávegis hveiti undir og yfir.

Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -