Mánudagur 17. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Taktu Eurovision-veitingarnar upp á næsta stig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú eru margir Íslendingar í óðaönn að undirbúa tryllt Eurovision-partí enda langt síðan atriði frá Íslandi hefur komist áfram í lokakeppnina. En það er ekki nóg að klæða sig í svartan búning með göddum og leðurólum því veitingarnar þurfa að vera í takt og okkur á Gestgjafanum finnst þær reyndar mikilvægasti hluti kvöldsins.

 

Óþarfi er samt að hafa hlutina of flókna og þess vegna mælum við með að útbúa ýmis mauk og salöt sem sett eru ofan á brauð eða svokallaðar brúskettur. En þær eru gerðar úr snittubrauði (baguette) sem smurt er á olíu, áður en það fer undir grillið í ofninum í nokkrar mínútur og svo er sárinu á hálfum hvítlauksgeira nuddað létt yfir og þá er bara að raða brauðsneiðunum á miðjuna á uppdúkuðu borði og setja allskonar álegg, mauk, salöt og ídýfur í kring. Þá má gleðin byrja.

Hér eru fjórar afar skemmtilegar uppskriftir sem gaman er að bjóða upp á með öllu hinu álegginu og spurning hvort við lendum ekki bara í fjórða sæti þ.e.a.s. ef Ísland vinnur ekki. Gleðilega Eurovision helgi!

Bakaður camembert með eplum og hnetum

1 stk. camembert-ostur
½  grænt epli, skorið í litla bita
¼  tsk. kanill
u.þ.b. 1 dl gróft saxaðar hnetur, t.d. pekanhnetur og valhnetur
4-6 msk. hlynsíróp, eins má nota hunang
örlítið sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Bakaður camembert með eplum og hnetum.

Hitið ofn í 180°C. Setjið ostinn í lítið eldfast mót. Dreifið eplabitum yfir ásamt kanil og hnetum. Dreypið 3-4 msk. af hlynsírópi yfir, ásamt salti og pipar. Bakið í 15-20 mín. Hellið gjarnan 1-2 msk. til viðbótar af hlynsírópi yfir og berið strax fram með góðu brauði eða kexi.

- Auglýsing -

Hummus með bökuðum hvítlauk

2 stórir heilir hvítlaukar
1 dós kjúklingabaunir
u.þ.b. ½ dl góð ólífuolía
safi úr ½ -1 sítrónu
1 msk. sesamsmjör (tahini)
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Hummus með bökuðum hvítlauk.

Hitið ofn í 180°C. Skerið toppinn ofan af hvítlauknum þannig að rétt grilli í rifin. Pakkið hvorum hvítlauk fyrir sig inn í álpappír með 1 msk. af olíunni og salti og pipar. Bakið í u.þ.b. 45 mín. Takið þá út og látið kólna þannig að hægt sé að handleika hvítlaukinn. Kreistið rifin út úr hýðinu og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum, nema því sem eftir er af olíunni. Látið vélina ganga og hellið olíunni saman við þar til maukið er hæfilega þykkt. Bragðbætið með salti og pipar, sítrónusafa eða tahini eftir smekk.

- Auglýsing -

Satay-kjúklingasalat

500 g kjúklingakjöt, t.d. úrbeinuð læri
2-3 vorlaukar, smátt saxaðir
1 dl kjúklingasoð
1 dl kókosmjólk
1 dl hnetumsjör
3 msk. sojasósa
safi úr 1 límónu
4 msk. púðuryskur
1/2 tsk. cayenne-pipar
50 g salthnetur, saxaðar gróft
1 rautt chili-aldin, fræhreinsað og smátt saxað
1 búnt steinselja, söxuð
hnefafylli ferskur kóríander, smátt saxaður (má sleppa)

Satay-kjúklingasalat.

Raðið kjúklingi í mót og dreifið vorlauk yfir. Setjið restina af hráefnunum í matvinnsluvél og blandið þar til allt er slétt og fellt. Hellið sósunni yfir kjúklinginn og eldið hann í u.þ.b. 40 mín. eða þar til hann er eldaður í gegn. Látið kjúklinginn kólna og skerið síðan í litla bita. Setjið sósuna sem eftir er í mótinu í pott og sjóðið hana niður við vægan hita þar til u.þ.b. 1/2-1 dl er eftir. Látið kólna. Blandið saman kjúklingi, chili-aldini, sósunni, salthnetum og kryddjurtum og bragðbætið með salti og pipar ef þarf. Berið gjarnan fram með mangói og fersku grænmeti, ásamt góðu brauði eða kexi.

Rjómaostur með reyktum laxi

100 g rjómaostur, við stofuhita
1 dl grísk jógúrt
100 g reyktur lax, skorinn smátt
3 vorlaukar, smátt saxaðir
hnefafylli ferskt dill, smátt saxað
væn skvetta af tabasco-sósu
2 msk. sítrónusafi
2 tsk. worcestershire-sósa
2 tsk. piparrótarmauk
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Rjómaostur með reyktum laxi.

Setjið allt saman í skál og hrærið vel. Bragðbætið með salti og pipar og sítrónusafa eins og þarf. Berið fram með góðu brauði eða kexi.

Uppskriftir / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Sjá einnig: Heit sælkera ostaídýfa í partíið
Sjá einnig: Ostabakki í partýið

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -