Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Þorskur í sítrónu- og smjörsósu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fljótlegur og bragðgóður réttur sem er tilvalinn fyrir önnum kafið fólk.

Við könnumst flest við þá tímapressu sem hlýst af því að koma sér heim eftir langan vinnudag og þurfa að koma mat á borðið fyrir svangt heimilisfólk á skikkanlegum tíma. Þá getur verið freistandi að kaupa skyndibita eða eitthvað annað fljótlegt sem fyllir magann en gerir kannski ekki mikið fyrir næringu og bragðlauka. Best er að eiga í handraðanum nokkrar uppskriftir að fljótlegum og bragðgóðum réttum sem ekki krefjast hálfa körfu af hráefni. Þessi réttur er tilvalinn í miðri viku fyrir önnum kafið fólk en hann er útgáfa af hinum klassíska franska rétti Sole Meunière. Hann er auðveldur, fljótlegur og einstaklega barnvænn.

Þorskur í sítrónu- og smjörsósu
fyrir 4
½ dl möndlur
1 1/2 dl hveiti
4 roðflettir sporðbitar af hvítum fiski (t.d. koli, ýsa eða þorskur)
salt og pipar
2 msk. olía
2 msk. ósaltað smjör

Hellið möndlunum á stóra pönnu. Hitið yfir meðalháum hita þar til möndlurnar fara að ilma og eru orðnar gylltar að lit, setjið til hliðar. Látið hveiti í fat og setjið til hliðar. Þerrið fiskinn með eldhúspappír og saltið og piprið fiskinn báðum megin. Veltið honum upp úr hveitinu og hristið bitana aðeins til að losa umfram hveiti af fiskinum. Hitið olíu á stórri pönnu yfir meðalháum hita. Bætið smjörinu á pönnuna þegar olían er orðin heit og dreifið úr því. Leggið fiskinn á pönnuna og steikið þar til fiskurinn er orðinn gylltur, 2-3 mín. Snúið fiskinum við og eldið þar til hann hefur eldast í gegn og er orðinn gylltur, 1-3 mínútur (fer eftir þykkt fiskbitans). Takið hann af pönnunni og hellið fitunni frá.

Sósa
4 msk. ósaltað smjör
2 msk. steinselja, söxuð
1 msk. ferskur sítrónusafi

Setjið pönnuna aftur yfir meðalháan hita og setjið smjörið út á. Eldið þar til smjörið fer að gyllast, u.þ.b. 2 mín. Hrærið steinseljuna og sítrónusafann saman við og hellið yfir fiskinn. Berið fram með steiktum kartöflum, sítrónubátum og grænu salati.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -