Sunnudagur 16. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Veitingahús laga sig að breyttu landslagi – ekkert bendir til þess að kórónaveiran berist með matvælum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mikil áskorun býður veitingastaða vegna útbreiðslu COVID-19 og samkomubannsins. Starfsfólk þeirra gerir þó allt sem í þeirra valdi stendur til að aðlagast aðstæðum og dæmi eru um að veitingastaðir bjóði nú fólki að sækja mat eða að fá hann heimsendann.

 

„Heilsa og öryggi starfsmanna og viðskiptavina okkar er í fyrirrúmi og við tökum þessu ástandi að sjálfsögðu alvarlega,“ segir Kristjana Þura Bergþórsdóttir, eigandi og veitingastjóri VON mathús og bar.

„Á sama tíma erum við líka að læra nýja hluti á hverjum degi. Þessi óvissa er erfið á rekstrarlegum grundvelli, eins og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum í landinu. Sérstaklega þar sem við vitum ekki hversu lengi þetta ástand varir. Við erum enn þá með opið og ætlum að reyna að halda það út eins og við getum, á meðan það er nóg að gera, eða þar til annað kemur í ljós. Við erum lítill vinnustaður og má því mjög lítið út af bregða. Við erum auðvitað öll að upplifa ýmiskonar tilfinningar og óvissu þessa dagana.“

Þakklát þeim sem halda áfram að koma

Kristjana segir að þau fylgi eins og aðrir ítarlega leiðbeiningum yfirvalda varðandi COVID-19 og ákveðnar breytingar hafi tekið gildi hjá Von mathúsi þriðjudaginn 17. mars.

„Sótthreinsistöðvar voru nú þegar til staðar, en einnig hafa öll þrif verið enn ítarlegri. Sótthreinsun hurðarhúna, afgreiðslu- og posakerfis og annarra snertiflata þrifin og sótthreinsuð með enn reglulegra millibili eða á milli kúnna. Matseðlar hafa verið plastaðir og eru þrifnir eftir hverja notkun og við bjóðum viðskiptavinum einnig að skoða mat- og drykkjarseðil á vefsíðunni. Enda flest allir með síma á sér. Svo hvetjum við fólk til þess að þvo sér eða spritta. Við erum búin að fækka sætum og auka bil á milli borða, svo lengra sé á milli viðskiptavina. Það er líka alltaf hægt að taka mat með heim, þar sem við tökum nú takmarkaðan fjölda í sæti,“ útskýrir Kristjana.

„Við erum öll í þessu saman og tökum einn dag í einu.“

- Auglýsing -

„Við erum mjög þakklát okkar kúnnum og fastakúnnum sem hafa haldið áfram að koma, þrátt fyrir ástandið í heiminum. Það er enn þá mikilvægt að leyfa sér að lifa og njóta. Við erum öll í þessu saman og tökum einn dag í einu. Við útilokum þó ekki að breytingar verði gerðar á opnunartíma,“ segir Kristjana.

Kristjana Þura Bergþórsdóttir, eigandi og veitingastjóri VON mathús og bar, og Einar Hjaltason, yfirmatreiðslumaður og eigandi. Mynd/Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Tóku brönsinn út

Á Mími restaurant á Hótel Sögu er búið að fækka úr 80 manna sal niður í 50 manna sal og tveggja metra bil er á milli borða.

- Auglýsing -

„Við erum náttúrlega alltaf með áherslu á hreinlæti en það hefur auðvitað verið brýnt í ljósi aðstæðna. Það er sótthreinsir inni í eldhúsum og frammi í sal, kokkar og þjónar eru með hanska við alla framleiðslu og þegar maturinn er borinn fram til gesta. Við höfum tekið út Brunch-hlaðborð og bjóðum í staðinn upp á hádegisseðil. Öllu starfsfólki okkar sem er í áhættuhópi er ráðlagt að halda sig heima,“ segir Snædís Jónsdóttir, matreiðslumaður og vaktstjóri á Mími restaurant Hótel Sögu.

Snædís Jónsdóttir, matreiðslumaður og vaktstjóri á Mími restaurant Hótel Sögu. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Fólk í einangrun á ekki að búa til mat fyrir aðra

Margir velta örugglega fyrir sér hvort smit geti borist með matvælum en á vef landlæknis segir meðal annars að ekkert bendi til þess að kórónaveiran berist með matvælum skv. áliti matvælaöryggisstofnunar Evrópu, COVID-19 sé ekki matarborinn sjúkdómur en þeir sem eru í einangrun ættu þó ekki að útbúa mat fyrir aðra. Þar segir jafnframt: „Veiran þrífst ekki í ávöxtum og grænmeti, né öðrum matvælum. Hins vegar gæti hún setið á yfirborði eftir úðasmit (hnerra eða hósta frá sýktum einstaklingi) en ekki er vitað hversu lengi. Mjög ólíklegt er þó að hún nái að berast milli landa með ávöxtum og grænmeti. Matvælastofnun hvetur neytendur, nú sem áður, til að skola vel ávexti og grænmeti fyrir neyslu.“ Ennfremur er tekið fram á vefsíðu landlæknis að ólíklegt sé að menn smitist af COVID-19 við snertingu matvælaumbúða. Handþvottur eftir verslunarferð sé góð venja og ætíð skuli fylgja leiðbeiningum um handþvott og smitvarnir.

Á vef Matvælastofnunar, mast.is, segir að fyrirtæki eigi að fylgja hefðbundnum þrifaáætlunum í eldhúsum og matvælavinnslum. Algeng sótthreinsiefni, þar með talið þau sem innihalda alkóhól, valdi því að kórónaveiran verður óvirk. „Kórónaveiran smitast ekki með matvælum en vegna hættu á smiti milli manna getur verið nauðsynlegt að þrífa og sótthreinsa sérstaklega yfirborð og áhöld sem margir snerta með stuttu millibili. Fyrirtæki ættu að fara yfir verklag við þrif og/eða þrífa oftar en venjulega búnað sem margir nota.“

Friðgeir Ingi Eiríksson, annar eigandi Eiriksson Brasserie.

Veitingastaðir laga sig að breytt landslagi

Fjölmargir veitingastaðir sem alla jafna senda ekki mat heim eða gefa sig ekki út fyrir að afgreiða mat út úr húsi hafa í ljósi ástandsins breytt út af vananum. Veitingastaðurinn Eiriksson Brasserie býður til dæmis upp á að fólk panti matinn heim og þá annað hvort hoppi starfsfólkið út í bíl með matinn eða heimsendi hann. Það er frí heimsending en 30% afsláttur ef fólk sækir og Friðgeir Ingi segir að viðtökurnar við þessu fyrirkomulagi hafi slegið öll met.

Reykjavík Meat býður nú upp á Take away á 15% kynningarafslætti. „Núna á þessum sérstökum tímum höfum við ákveðið að byrja með take away-þjónustu. Þar sem sumir vilja ekki sitja inn á veitingastöðum þá hafið þið möguleikann að taka með ykkur heim,“ segir á Facebook-síðu Reykjavík Meat.

Á Facebook-síðu Sumac segir að eins og allir landsmenn hafi Sumac tekið skilaboð yfirvalda mjög alvarlega. „Ekki bara þessi sem setja okkur eðlilegar skorður í ljósi stöðunnar heldur líka þau frá yfirlögregluþjóninum Víði um að „við skulum ekki hætta að vera til“.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Starfsfólkið hefur því lengt bil á milli borða, gert handspritt aðgengilegt og komið upp verklagi það þar sem allir almennir snertifletir á staðnum líkt og handrið, hurðarhúnar, fatahengi, greiðsluposar og slíkt eru þrifin reglulega með sótthreinsiefni.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -