Fimmtudagur 18. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

„Magnað hvað maður hefur lært mikið bara á þessum þremur árum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hljómsveitin Between Mountains var að senda frá sér sína fyrstu breiðskífu sem kallast einfaldlega Between Mountains. Sveitin sigraði Músíktilraunir 2017 en hún var stofnuð af Kötlu Vigdísi Vernharðsdóttur og Ásrósu Helgu Guðmundsdóttur sem voru aðeins 16 ára á þeim tíma. Nú fer Katla Vigdís fyrir sveitinni og semur sjálf öll lög og texta á plötunni. Albumm hitti á Kötlu og byrjaði að grennslast fyrir um samstarf þeirra vinkvenna og þátttöku þeirra í Músiktilraunum.

 

„Ég hafði síðan haustið 2016 verið að semja lög og texta og langaði að taka þátt í Músíktilraunum. Eldri bræður mínir höfðu gert það tveimur árum áður og sigrað með hljómsveit sinni Rythmatik og með hliðsjón af því vissi ég hvers konar stökkpallur Músíktilraunir getur verið. Þess vegna fékk ég Ásrósu í lið með mér. Við kynntumst í blaki á Ísafirði, höfðum þekkst í svona tvö ár, að mig minnir, og ég vissi að hún hafði áhuga á að syngja og væri að læra söng. Ég fékk hana því til að taka þátt í keppninni með mér,“ útskýrir Katla, en vinkonurnar sem koma báðar frá Vestfjörðum, höfðu aðeins æft í um það bil mánuð áður en þær tóku þátt í Músiktilraunum og sigruðu.

Hvernig var að vinna Músíktilraunir svona ungar? „Fyrst var það svolítið skrýtið,“ játar hún. „Auðvitað var samt gaman að vera eitthvað að „gigga“ í grunnskóla og það er fyndið að hugsa um það eftir á. Ég er náttúrlega enn ung þannig að ég á eflaust eftir að læra margt en það er magnað hvað maður hefur lært mikið bara á þessum þremur árum,“ tekur hún fram og segir það hjálpa að hafa byrjað í tónlistinni svona snemma, kynnst fólki í bransanum og öðlast reynslu af því að spila og koma fram. „Síðan er magnað að vera búin að gefa út plötu. Núna veit ég aðeins hvernig hlutirnir virka, en ég var svolítið að þreifa mig áfram í myrkrinu við gerð þessarar plötu.“

Mynd / Ása Dýradóttir

Gaman að fletta upp í gömlum minningum

Between Mountains kom út fyrir viku og segir Katla að það hafi verið ansi skemmtilegt að gera plötuna en tímafrekt líka. „Ég held að það sé nokkuð algengt, svona með fyrstu plötur,“ segir hún og nefnir sem dæmi að fyrsta lagið, Into the Dark, hafi verið tekið upp haustið 2017, ef hún man rétt, og gefið út í ársbyrjun 2018. „Eftir það leið smátími þangað til við fórum aftur að taka upp,“ útskýrir hún. Upphaflega hafi staðið til að gera EP-plötu, eins og tíðkist mikið í dag, en eftir að plötufyrirtækið fékk að heyra lögin hafi verið ákveðið að ráðast í gerð plötu í fullri lengd. „Þrjú lög á plötunni voru því svolítið samin í hvelli,“ segir hún, „en ég átti til eitt lag.“

„Auðvitað var samt gaman að vera eitthvað að „gigga“ í grunnskóla og það er fyndið að hugsa um það eftir á.“

Spurð út í umfjöllunarefni plötunnar segir Katla að yfirleitt sé saga á bak við hvert lag. Vegna þess hversu langur tími leið á milli þess sem sum lögin voru samin sé þó ekki hægt að segja að platan fjalli um eitthvað eitt tiltekið málefni. „Ég er á þeim aldri að ég hef breyst og þroskast mikið á þessum tíma sem hún var gerð. En það er svolítið gaman að pæla í gömlum textum því þeir sýna hvar maður var staddur andlega þegar þeir voru samdir. Þeir geta virkað eins og nokkurs konar myndaalbúm. Maður getur skemmt sér við að fletta upp gömlum minningum í textaformi,“ lýsir hún og bætir við að nú hlakki hún mikið til að fara aftur í stúdíó og gera meira efni.

- Auglýsing -

Katla er í ítarlegra viðtali á albumm.is

 

 

- Auglýsing -

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -