Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Rafrænt ferðalag um Reykjavík

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Raftónlistarhátíðin Extreme Chill Festival verður haldin í tíunda sinn dagana 12.-15. september í Reykjavík. Tónlistarmennirnir og feðgarnir Pan Thorarensen og Óskar Thorarensen standa að baki henni, en þeir fengu hugmyndina að hátíðinni á Hellisandi árið 2009 og segjast hafa það að markmiði að gera allt betur með hverju ári.

 

„Við vorum í upptökum á plötunni okkar Hypnogogia með Stereo Hypnosis, þegar við fjölskyldan rákumst á fallegt félagsheimili, Röst, í einni af okkar göngum um Hellissand. Um leið og við sáum það vissum við að þarna ætluðum við að halda útgáfutónleikana okkar um haustið 2009. Andrúmsloftið og umhverfið reyndist síðan svo stórfenglegt, ekki síst með ambient-tónlistinni okkar, að við ákváðum að gera meira úr þessu og ári seinna var fyrsta hátíðin haldin undir jökli á Snæfellsnesi,“ segir Pan, spurður að því hvernig hugmyndin að Extreme Chill Festival hafi kviknað.

Hátíðin er nú tíu ára og verður að þessu sinni haldin í Reykjavík í ár. „Þetta á eftir að verða fjögurra daga tónlistarveisla þar sem íslenskir og erlendir listamenn með ólíkan bakgrunn á öllum aldri mætast í sköpun sinni,“ útskýrir Pan spenntur og segir að þótt þetta sé raftónlistarhátíð í grunninn þá hafi hún færst meira út í tilraunakennda tónlist, klassíska, „ambient“ og alveg út í jazz.

Pan Thorarensen stendur ásamt föður sínum, Óskari Thorarensen, að baki Extreme Chill Festival.

„Það opnar náttúrlega fleiri dyr fyrir okkur og hlustandann.“ Hann bætir við að markmið hátíðarinnar sé að kynna íslenska og erlenda raftónlistarmenn og vídeó/myndlistarmenn og tengja saman ólík listform, hljóðheim raftónlistarinnar og lifandi myndheim. Ásamt því auðvitað að vekja athygli á Reykjavík sem raftónlistarhöfuðborg Íslands. 

Laðar að sér stór nöfn

Á þessum tíu árum hefur hátíðin verið haldin bæði víða um land og í Berlín og verið í samstarfi við ýmsar hátíðir, hérlendis sem og ytra. Ekki nóg með það heldur hefur hátíðin og starfið í kringum hana leitt af sér fjölda útgáfa, tónleika, ferðalaga erlendis, samstarf við erlenda sem innlenda tónlistarmenn að ótöldum ógleymanlegum uppsetningum á hátíðum erlendis og innanlands. Þá hefur hátíðin laðað að sér þekkt erlent tónlistarfólk, eins og The Orb, Mixmaster Morris, Biosphere og nú Tangerine Dream.

- Auglýsing -

Er ekkert mál að fá þessi stóru nöfn til að spila á Íslandi?

„Það hefur náttúrlega verið mikil vinna að standa í þessu,“ viðurkennir Pan fúslega. „Síðustu ellefu ár höfum við mikið verið að spila erlendis og á þessum ferðalögum hafa myndast góð sambönd ýmist við tónlistarfólk og tónleikahaldara, umboðsmenn, útgefandur og blaðamenn. Tengslanetið er orðið mjög sterkt, þetta er ekki eitthvað sem þú færð úti í búð.“

Vann með syni Charlie Chaplin

- Auglýsing -

Sjálfur er hann tónlistarmaður; hóf ferillinn í hip hop-i og rappi undir nafninu Beatmakin Troopa og færði svo sig yfir í electro- og ambient-tónlist og út frá því stofnaði hann Stereo Hypnosis með föður sínum. Spurður hvort hann sé enn undir áhrifum frá hip hop-i segir hann að svo sé, og þá aðallega instrumental hip hop-i. „En það er voða lítið í gangi í hip hop-heiminum, allt hljómar eins, og taktar og textagerð ekki upp á marga fiska. Maður þarf að grafa svolítið djúpt niður í moldina til að finna alvörutexta og -takta. Hefur reyndar alltaf verið þannig en er mjög slæmt núna.“

„En það er voða lítið í gangi í hip hop-heiminum, allt hljómar eins, og taktar og textagerð ekki upp á marga fiska.“

Pan segist þó ekki ætla að láta það aftra sér frá því að gefa út plötuna Best of Beatmaking Troopa á þessu eða næsta ári, en hún mun innihalda nýtt efni í bland við lög frá 2004-2012. Ekki nóg með það, heldur hefur hann sent frá sér glænýja plötu með Stereo Hypnosis sem kallast Bjarmi og er unnin í samstarfi við tónlistarmanninn Christopher Chaplin, son stórleikarans og -leikstjórans sáluga Charlie Chaplin. „Við kynntumst Christopher þegar hann spilaði með Hans-Joachim Roedelius á Extreme 2016 og eftir það höfum við spilað með honum á mörgum tónleikum, bæði í Berlín og hér heima. Síðasta sumar settum við svo upp saman upptökuver á Hvammstanga og þar var platan okkar tekin upp „live“ á einum degi.“ Hann bætir við að Christopher sé skuggalega líkur pabba sínum. „Já, þeir eru mjög líkir. Sömu taktar og hreyfingar, magnað að sjá það.“

Aftur að Extreme Chill, bjóstu einhvern tímann við því að hátíðin yrði þetta lífseig og næði á þennan stað? „Já, ég gerði það. Þetta hefur bara gengið vel, enda mikil eftirspurn og áhugi fyrir svona hátíðum um allan heim. Margt fólk orðið langþreytt á öllum þessum stóru tónlistarhátíðum og farið að sækja í eitthvað einstakt. Sérhæfðar tónlistarhátíðir eru málið í dag.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Myndir / Brynjar Snær

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -