Föstudagur 26. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Trúr sjálfum sér

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sindri Már Sigfússon sem er meðal annars þekktur fyrir að hafa stofnað hljómsveitina Seabear var að senda frá sér plötuna Sad Party. Hann segir plötuna hafa verið gerða á tíma sem margir vina hans ströggluðu við að lifa af sem tónlistarmenn eða í tónlistartengdum störfum.

 

„Leiguverð var að hækka og fólk var rekið úr stúdíóunum og æfingarhúsnæði. Mér fannst eitthvað ákveðið vonleysi í gangi í kringum mig og þessi plata var svona viðbragð við því,“ segir Sindri, en hann tók upp plötuna Sad Party að mestu hjá vini sínum sem var með stúdíó á Laufásvegi í nokkur ár. „Þetta var æðislegt stúdíó með útsýni yfir Hljómskálagarðinn. Hann var að missa húsnæðið þannig að ég ákvað að taka upp plötuna þarna á seinustu þremur vikunum sem hann var með stúdíóið til umráða.“

Vill ekki búa í heimi án tónlistar

Sindri hefur ávallt verið trúr sjálfum sér og sinni tónlistarsköpun og aldrei samið tónlist sem er ekki í hans anda. Spurður hvort það sé aldrei erfitt, er hann fljótur til svars. „Þegar ég byrjaði að vinna að tónlist af alvöru ákvað ég að ég myndi hætta ef þetta yrði einhvern tímann leiðinlegt eða kvöð. Ég hef prófað ýmislegt í gegnum árin og eiginlega alltaf bara elt það sem mér finnst spennandi að gera,“ segir hann og bætir við að það gefi honum ótrúlega mikið að semja og hlusta á tónlist. Hann gæti ekki hugsað sér að búa í heimi án hennar.

„Þegar ég byrjaði að vinna að tónlist af alvöru ákvað ég að ég myndi hætta ef þetta yrði einhvern tímann leiðinlegt eða kvöð.“

Ef undanskilin er platan Team Dreams, sem var samstarfsverkefni Sindra, Sóleyjar Stefánsdóttur og Örvars Smárasonar, þá er Sad Party fyrsta platan sem Sindri hljóðblandar með sjálfum sér. „Mér fannst það bara ganga vel,“ segir hann. „Þetta snýst eiginlega svolítið um að setja á sig mismunandi hatta, vera tónlistarmaður einn daginn og semja og spila, en pródúsent og hljóðblandari þann næsta og klára þá tónlistina, svona eins og ég sé að vinna fyrir einhvern annan,“ útskýrir hann, en ásamt Sindra spilar Magnús Tryggvason Eliassen á trommur í þremur lögum á plötunni, Arnljótur Sigurðsson spilar á bassa í einu þeirra og Ingi Garðar Erlendsson spilar á brass og aðstoðar Sindra við útsetningarnar á því.

Með annan fótinn í Los Angeles

- Auglýsing -

Sindri hefur komið víða við á ferlinum. Síðustu ár hefur hann meðal annars verið að semja tónlist með tónlistarfólki hér heima og svo farið nokkrum sinnum til Los Angeles þar sem hann hefur unnið að kvikmyndatengdum tónlistarverkefnum. „Allt mjög skemmtilegt,“ segir hann og tekur fram að honum finnist gaman að vera hér heima, sérstaklega á veturna. Hann sé búsettur á Íslandi og ekki spenntur fyrir því að flytja annað.

En hvað er fram undan? „Ég er með næstu Sin Fang EP-plötu tilbúna og er langt kominn með fyrstu plötuna sem ég ætla að gefa út undir mínu eigin nafni. Svo er ég að vinna plötu með hljómsveitinni Seabear og spila reglulega með Separate Boys. Ég hef líka verið að gefa út eitthvað raf-rugl undir nafninu Slim Fang og loks er mikið af sjónvarps- og kvikmyndatengdum verkefnum á dagskrá næstu mánuði.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -