Laugardagur 14. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Var í eitruðu ástarsambandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Söngkonan Elísabet Ormslev hefur haft í nógu að snúast eftir að hún fór að einbeita sér meira að sólóferlinum, því ekki er nóg með að hún taki í annað sinn þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins í ár, með lagið Elta Þig/Haunting, heldur sendi hún nýverið frá sér lagið Sugar sem hefur átt miklum vinsældum að fagna.

„Ég hef alltaf verið opin fyrir því að taka aftur þátt en þá eiginlega með því skilyrði að ég myndi sjálf semja lagið. Það er nokkuð sem ég hef sagt við sjálfa mig og aðra ef ég hef verið spurð út í þetta og það greinilega hafði einhver áhrif því hér er ég í dag,“ segir Elísabet, þegar hún er spurð af hverju hún hafi ákveðið að taka aftur þátt í Söngvakeppninni. Þar fyrir utan kveðst hún vera alin upp af Eurovision-goðsögn, móður sinni Helgu Möller, og það væri hreinlega ósatt ef hún segðist ekki hafa alltaf viljað keppa fyrir hönd Íslands í Eurovision.

Spurð út í lagið Elta þig/Haunting, sem hún flytur í keppninni, segist Elísabet byggja það á eigin reynslu. „Ég var í ástarsambandi sem var framan af mjög eitrað,“ segir hún blátt áfram. „Ég lét alltaf undan manninum sem ég var með, alveg sama hvað var og gerði allt með hans þarfir í huga. Nokkuð sem breyttist ekki fyrr en ég leitaði mér aðstoðar, fór að vinna í sjálfri mér og varð fyrir vikið bæði sterkari og sjálfstæðari og hætti að fylgja honum í einu og öllu.“ Hún segir að lagið snúist um þetta og sé mjög valdeflandi að hennar mati.

„Ég lét alltaf undan manninum sem ég var með, alveg sama hvað var og gerði allt með hans þarfir í huga.“

Hugmyndina að laginu segir Elísabet hafa kviknað fyrir tæpum tveimur árum. „Ég var þá byrjuð að vinna mikið með hinum höfundi lagsins, Zöe Ruth Erwin,“ rifjar hún upp. „Hún er algjör þúsundþjalasmiður þegar kemur að laga- og textasmíð og upptöku/„production“ og hafði verið að kenna mér á upptökuforritið Logic Pro X. Hugmyndin að laginu kviknaði einmitt þegar ég var að vinna í því uppi í rúmi eitt kvöldið og bjó til mitt fyrsta demó. Við Zöe unnum síðan saman að því að klára það,“ lýsir hún.

En hvernig er að taka þátt í batterí eins og Söngvakeppninni, er þetta ekki ferlega mikil vinna? „Jú, þetta hafa verið endalausar pælingar undanfarna þrjá mánuði, plön og æfingar sem hafa farið í að klára lagið og setja saman atriði. Blessunarlega er þetta allt hrikalega skemmtilegt,“ segir hún og brosir.

Eins og fyrr segir hefur Elísabet haft í nógu að snúast því fyrir utan þátttöku í Söngvakeppninni sendi hún líka nýverið frá sér smellinn Sugar. Hvernig er eiginlega að eiga líka eitt vinsælasta lagið á landinu um þessar mundir? „Ég er bara svo þakklát og stolt að ég gæti sprungið,“ svarar hún glöð í bragði. „Ég hefði ekki getað ímyndað mér að nokkuð af þessu ætti eftir að verða að veruleika. Ég hélt í alvörunni talað fyrir nokkrum árum síðan að ég myndi bara hætta í þessum bransa og fara að vinna á skrifstofu. Mikið ofboðslega er ég fegin að ég gerði það ekki. Og ég er langt frá því að vera hætt,“ segir hún ákveðin og nefnir í því samhengi að stefnan sé að gefa út enn meiri tónlist, „vinna með alls konar fólki og syngja mikið út árið“. Svo sé fyrirhuguð heimsreisa með sjálfri hljómsveitinni GusGus í sumar. „Já, ég mun reyna að fylla eins vel í skóna hennar Urðar og ég get,“ segir Elísabet og það leynir sér ekki að hún er spennt fyrir því ferðalagi.

- Auglýsing -

Mynd / Birta Rán

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -