• Orðrómur

Áralangur draumur Áslaugar rætist – Smurbrauðsdaman sem lærði að elda fyrir tvo fyrir þúsundkall

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

 

Bókin Undir 1000 kr. fyrir tvo eftir Áslaugu Björgu Harðardóttir, sem nýverið kom út er algjörlega dásamleg. Hún kom úr prentun þann 24.mars síðastliðinn, tilviljun réði því að það var á  afmælisdegi höfundar. Í henni er að finna fjölbreyttar uppskriftir af girnilegum og ódýrum máltíðum. Þar að auki eru gefin ráð hér og þar í bókinni um það hvernig má spara í matarinnkaupum. Réttirnir eru einfaldir og fljótlegir og enginn þeirra inniheldur unnar matvörur. Bókin er nett svo lítið mál er að hafa hana tiltæka í eldhúsinu. Mannlíf spjallaði við Áslaugu af þessu tilefni.

 

- Auglýsing -

Áslaug Björg með bókina    Mynd: Sverrir Björnsson

 

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að gefa bókina út?

- Auglýsing -

„Við höfum ferðast dálítið mikið og þá leigt okkur íbúðir og verið að elda sjálf en þegar maður kom heim til Íslands fannst mér allt svo ofboðslega dýrt. Ég eldaði stundum franska lauksúpu sem er mjög ódýr en öllum fannst alltaf mjög góð. Ég var búin að vera með þetta í hausnum í nokkur ár og alltaf að hugsa hvort það væri ekki sniðugt að gera bók sem væri einföld með góðum mat, ekki bara pylsum eða unnum mat, heldur alvöru mat. Það er nefnilega alveg hægt ef maður vandar sig bara og hugsar þetta aðeins.

Þegar Covid skall á og ég var búin að púsla 10.000 púsl sagði ég nei, þetta gengur ekki, þetta Covid er ekkert að fara og ég bara get ekki púslað meira. Nú er góður tími til þess að láta drauminn verða að veruleika og gefa út bókina sem mig hefur dreymt um í nokkur ár.“

 

- Auglýsing -

Hefur þú gefið út bók áður eða er þetta frumraun þín?

„Þetta er frumraun hjá mér, en við erum með útgáfufyrirtæki, ég og Sverrir Björnsson maðurinn minn. Hann hefur gefið út ljósmyndabók sem heitir Two in one, ferðamannabók, hann  tók myndir af öllum helstu ferðamannastöðunum. Myndirnar sýna  sömu staðina í sumar- og vetrarbúningi. Hann hefur líka gefið út barnabók, Nýr heimur, ævintýri Esju í borginni.“

 

Önnuðust þið útgáfu bókarinnar sjálf?

„Já við gerðum það. Þetta er sannkallað fjölskylduverkefni. Ég er rosalega ánægð með hönnunina, finnst hún falleg en maðurinn minn Sverrir Björnsson og dóttir okkar Sunneva Sverrirsdóttir sem býr í Kaupmannahöfn og vinnur á danskri auglýsingastofu, sáu um hönnunina. Maðurinn minn sá líka um allar ljósmyndatökur og umbrotið. Mig langaði alltaf að hafa bókina í nákvæmlega þessu broti og netta.“

 

Bókin er sannarlega fyrir alla. Fallega stúlkan á myndinni heitir Ronja og er barnabarn Áslaugar og Sverrirs      Mynd: Sverrir Björnsson

 

Hvað hefur þú verið að fást við áður ?

„Ég byrjaði starfsferilinn minn í Brauðbæ og vann þar við öll verk sem féllu til, vann þar í fjölmörg ár. Þar lærði ég svo vel að útbúa smurbrauð, en einn kaflinn í bókinni er tileinkaður smurbrauðum. Eftir það fór ég að flytja inn hársnyrtivörur og flutti meðal annars inn  Kengúrusjampóið Aussie í 16 ár ásamt alls konar snyrtivörum. Ég rak eftir það verslun sem hét ER tískuvöruverslun á Skólavörðustígnum. Rak hana í átta ár en hætti því í  hruninu 2009. Þá fluttumst við til Argentínu og bjuggum þar í eitt ár, eftir að allt hrundi hér heima.  Ég hef líka starfað við að elda mat í laxveiðihúsum, hef matreitt fyrir veiðimennina. Ég var einhverjar vikur yfir sumar þar og leysti vinkonu mína af sem rak þetta á þeim tíma. Eftir að við komum heim frá Argentínu byrjuðum við með útgáfuna okkar.“

 

Hvernig var að búa í Argentínu ?

„Það var bara æðislegt að búa þar. Alveg rosalega fínt en mjög óstöðugt ástand er þar, hlutirnir geta breyst mjög skjótt. Annars stóð aldrei neitt annað til en að koma heim svo sem. Okkur langaði bara að prófa að búa einhvers staðar erlendis, það er bara gott og þroskandi að prófa það.“

 

Réttirnir í bókinni eru þeir fyrir alla?

„Já það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Bókin skiptist í sex kafla, kjúklingarétti, pasta, súpur, grænmetisrétti, ýmsa rétti og síðast en ekki síst smurbrauð.“

 

Er lögð áhersla á að minnka matarsóun í bókinni?

„Já, svo sannarlega. Ég legg áherslu á að kaupa nákvæmlega það sem vantar í hvern og einn rétt svo ekki þurfi að henda neinu. Hvað varðar „best fyrir“  merkingar þá eru matvæli ekki ónýt þó að það sé komið fram yfir þann dag. „Best fyrir“  er bara sá tími sem framleiðandi tryggir gæði vörunnar sem þýðir síður en svo að hún sé ónýt. Fólk í vestrænum ríkjum hendir allt of miklu af matvælum.“

 

Risarækjupastað er mjög ljúfengt                                                                                           Mynd: Sverrir Björnsson

 

 

Það er gott að spara í matarinnkaupum og jákvætt og mikilvægt að vita af því að þegar mælt er hárrétt við eldun og engu er hent þá er um leið komið í veg fyrir matarsóun.

 

Eyðum við of miklu í mat?

„Það fer mjög hátt hlutfall af tekjum okkar í matarinnkaup svo það er nauðsynlegt að huga að því að minnka matarsóun og því að spara. Það er nú málið að það er mun ódýrara að elda heima hjá sér en að borða úti eða taka með sér heim tilbúin mat, það er líka mikið hollara. Þú ert 40 til 60 prósent lengur að brenna skyndibita eins og til dæmis hamborgurum og þess háttar mat heldur en mat sem þú eldar heima hjá þér, venjulegum heimilismat. Auðvitað er í góðu lagi að neyta skyndibita einstaka sinnum en það er bara orðið mjög algengt hér á landi að fólk sé að gera það oft í viku.“

 

Á hvaða verðbili eru réttirnir í bókinni?

„Réttirnir eru frá   428 krónum til 997 króna og dreifast nokkuð jafnt yfir það verðbil. Ég á til alla strimla og alla verðútreikninga fyrir réttina í bókinni. Þar sem verðlagið sveiflast frá degi til dags þótti ekki ástæða til þess að hafa nákvæm verð upp á krónu í bókinni, hefði verið of flókið, en ég get alltaf sýnt fram á það ef einhver efast um að verðin sé rétt.“

 

Sérðu fyrir þér að gefa út fleiri bækur?

„Já, já ég er alveg með hugmyndir að næstu bók, ef þessi gengur vel.“

 

Bókin er ekki bara falleg heldur mjög notendavæn   Mynd: Sverrir Björnsson

 

Bókin er til sölu í verslunum og vefversun Pennans Eymundsonar og hjá Forlaginu. Hún er einnig væntanleg í stórmarkaði á næstunni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -