Fimmtudagur 18. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Börnin sem eignast Samherja

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri, og Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri, aðaleigendur Samherja, hafa afsalað sér hlutabréfaeign sinni í Samherja hf. til barna sinna. Börnin sex halda því á 84,5 prósenta hlut í fyrirtækinu. Mútumál Samherja tengt Namibíu er enn til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara, en hefur tafist vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

Mannlíf skoðar hverjir sexmenningarnir eru sem halda nú um stjórnartaumana í einu stærsta og valdamesta fyrirtæki landsins. Samkvæmt heimildamanni Mannlífs sem þekkir til systkinanna eru þau öll jarðbundin og hörkudugleg í því sem þau hafa tekið sér fyrir hendur.

 

Þorsteinn Már og Helga Steinunn Guðmundsdóttir, fyrrverandi eiginkona hans, afsöluðu sér 43 prósenta hlut í Samherja til barna sinna, Baldvins og Kötlu. Kristján og Kolbrún Ingólfsdóttir, eiginkona hans, afsöluðu sér 41,5 prósenta hlut til barna sinna, Dagnýjar Lindu, Halldórs Arnar, Katrínar og Kristjáns Bjarna. Eftir þessar breytingar halda foreldrarnir fjórir samanlagt á tveggja prósenta hlut í Samherja.

Þorsteinn Már og Kristján, sem eru bræðrasynir, munu gegna störfum sínum hjá Samherja óbreytt. Undirbúningur breytinganna hefur staðið undanfarin tvö ár, en áform og framkvæmd þeirra var formlega tilkynnt í stjórn félagsins á miðju ári 2019. Í tilkynningu um eigendaskipti hlutabréfanna á vef Samherja segir að með breytingunum vilji stofnendur Samherja „treysta og viðhalda þeim mikilvægu fjölskyldutengslum sem félagið hefur ætíð byggst á og hafa verið hornsteinn í rekstrinum. Nú fáum við nýja kynslóð til liðs við okkur.“

Þorsteinn Már og Kristján, sem eru bræðrasynir, munu gegna störfum sínum hjá Samherja óbreytt. Mynd / Samherji
Kristján
Mynd / Samherji

Stærsta sumargjöf Íslandssögunnar
Framsal eignarhlutans í Samherja hefur skiljanlega vakið mikla athygli í samfélaginu og tók Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Vinstri grænna, málið upp á Alþingi þriðjudaginn 19. maí. „Sumargjafir eru góður og þjóðlegur siður, en sumargjafir eigenda Samherja til barna sinna eru kannski í stærri kantinum, þær nema tugum milljarða króna í tilfærslu frá eigendum Samherja til afkomenda sinna.“

- Auglýsing -

Fyrir viku tjáði Þorsteinn Már sig um málið við 200 mílur Mbl.is og svaraði aðspurður að viðskiptin hafi miðað að því að halda Samherja sem fjölskyldufyrirtæki: „Það er bara verið að gera þetta á meðan við getum haft áhrif á það hvernig þetta verður gert, eigendurn­ir. Það liggur svo sem alveg fyrir að einn daginn myndi þetta gerast, en gerum það á þennan hátt sem getur tryggt rekstur fyrirtækisins í óbreyttri mynd.“ Þorsteinn Már sagði viðskiptin annars vegar framkvæmd með erfðagerningi, fyrirframgreiddum arfi og hins vegar með sölu milli félaga.

Áætla má að framsal hlutabréfanna frá foreldrum til barna sé 60-70 milljarða virði, miðað við eiginfjárstöðu Samherja hf., sagði Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, í viðtali við Morgunvaktina á Rás 1 miðvikudaginn 20 maí. Í lok árs var sameiginlegt eigið fé Samherja Holding og Samherja hf. hundrað og ellefu milljarðar, miðað við gengi þess dags.

„Þetta framsal sem á sér stað frá foreldrum til barna, þarna erum við að tala um 60-70 milljarða virði, fer eftir hvaða gengi maður reiknar evrurnar sem eru að færast á milli á,“ sagði Þórður Snær. „Við fengum ekki svör við því hvert virði hlutanna er í þessum viðskiptum og þar af leiðandi erfitt að reikna beint út hverjar væntar skattgreiðslur eru. En ég held það megi alveg slá því föstu að líkast til er þetta, allavega sem hefur verið gert opinbert, mestu fjármunir sem hafa verið greiddir í arf nokkru sinni á Íslandi.

- Auglýsing -

Þetta eru tugir milljarðar króna miðað við eiginfjárstöðuna. Og líkast til er virði Samherja meira en uppgefin eiginfjárstaða. Maður myndi ætla að það væri hægt að margfalda það eigið fé til að fá út einhvers konar markaðsvirði.“

Ekki hefur komið fram enn þá hvaða verð var sett á eignarhlutinn í viðskiptunum milli foreldranna og barna þeirra. Samkvæmt fyrirtækjaskrá eru foreldrarnir enn skráðir eigendur, og því eftir að skila inn gögnum um kaupin til fyrirtækjaskrár. Samkvæmt lögum er greiddur 10% prósenta erfðafjárskattur af fyrirframgreiddum arfi og af hagnaði við sölu hlutabréfa er greiddur venjulegur fjármagnstekjuskattur. Þetta skýrist þegar viðhlítandi gögnum verður skilað inn til fyrirtækjaskrár líkt og lög gera ráð fyrir.

Baldvin Þorsteinsson. Mynd / Jardboranir.is

Baldvin – Erfðaprinsinn         21,5% / 15,2 – 17,8 milljarðar króna

Baldvin Þorsteinsson er fæddur 1983 og er sá af sexmenningunum sem þekktastur er úr viðskiptalífinu. Baldvin er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja og stjórnarformaður Eimskips frá því í september 2018, en Samherji er stærsti eigandi skipafélagsins. Auk þess er hann í stjórn Jarðborana, en hann er fyrrum forstjóri félagsins.
Baldvin útskrifaðist af eðlisfræðibraut Menntaskólans á Akureyri og lauk BS-námi í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands árið 2007. Eftir nám lá leiðin í greiningardeild Glitnis og þaðan til Samherja.
Baldvin spilaði handbolta í tólf ár í efstu deild, síðast með FH.
Athygli vakti í mars í fyrra þegar Baldvin veittist að Má Guðmundssyni seðlabankastjóra, að loknum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á Alþingi, þar sem Samherjamálið og vinnubrögð Seðlabankans í málinu voru til umfjöllunar. Að fundinum loknum ætlaði Már að ræða við Þorstein Má, föður Baldvins. „Hafðu smá sómakennd og drullaðu þér í burtu,“ sagði Baldvin við Má. Baldvin sýndi þó drengskap og bað Má opinberlega afsökunar á framkomu sinni.
Í svipmynd Markaðarins árið 2014 lýsti Rannveig Rist Baldvini sem duglegum, ósérhlífnum, einbeittum og árangursdrifnum, og sagði hann óhræddan og viljugan til að takast á við breytingar.
Baldvin er skráður með lögheimili í Hollandi ásamt konu sinni og tveimur börnum.

Katla Þorsteinsdóttir. Mynd / Facebook

Katla – Sjálfstæður sjúkranuddari       21,5% / 15,2 – 17,8 milljarðar króna

Katla Þorsteinsdóttir er fædd 1982 og eftir útskrift úr Nuddskóla Íslands árið 2011 flutti hún til Vancouver í Kanada þar sem hún lærði sjúkranudd við West Coast College of Massage Therapy. Katla er löggiltur sjúkranuddari og ráðgjafi með diplóma í þerapískum fræðum og hefur starfað í Jógaskúrnum hjá Sólir Jógastúdíó.
Þar kemur fram að áhugamál hennar eru auk vinnunnar, ljóðaslamm, ferðalög og dans.
Í júlí árið 2019 keypti Katla 252,8 fm einbýlishús á Seltjarnarnesi.

Dagný Linda Kristjánsdóttir. Mynd / vefur Sálfræðiþjónustu Norðurlands

Dagný Linda – Afreksskíðakona um árabil   10,375 % /  7,3-8,6 milljarðar kr.

Dagný Linda Kristjánsdóttir er fædd 1980 og var ein fremsta skíðakona landsins um árabil, en árið 2008 lagði hún skíðaskóna á hilluna vegna meiðsla. Dagný Linda keppti á 316 alþjóðlegum mótum í þrettán þjóðlöndum, tók þátt í tvennum Ólympíuleikum, þremur heimsmeistaramótum, rúmlega 30 heimsbikarmótum og um 40 Evrópubikarmótum. Hún var 18 sinnum Íslandsmeistari á skíðum, var sjö sinnum valin skíðakona ársins og þrisvar Íþróttamaður Akureyrar.
Í júní 2013 útskrifaðist hún með BS-próf í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri og hlaut  heiðursverðlaun Góðvina HA. Hún starfaði sem iðjuþjálfi hjá Öldrunarheimili Akureyrar – Lögmannshlíð í fimm ár og sinnti stundakennslu við Háskólann á Akureyri. Í dag starfar hún hjá Sálfræðiþjónustu Norðurlands þar sem hún er með námskeið, fyrirlestra og einstaklingstíma með það að marki að ýta undir virkni og þátttöku og auka lífsgæði barna/ungmenna/fullorðinna í daglegu lífi heima fyrir og úti í samfélaginu.
Dagný Linda býr á jörðinni Hólshús II í Eyjafirði ásamt eiginmanni og fjórum börnum þeirra, eignina keyptu þau árið 2007 og þar er hestamennskan í hávegum höfð.

Halldór Örn Kristjánsson. Mynd / Facebook

Halldór Örn – Bílstjórinn       10,375 % / 7,3-8,6 milljarðar kr.

Halldór Örn Kristjánsson er fæddur 1974 og starfar sem bílstjóri hjá Samherja á Akureyri.
Halldór Örn og sambýliskona hans keyptu árið 2010 277,1 fm einbýlishús á Akureyri, sem þau búa í ásamt þremur dætrum þeirra.
Netið býður ekki upp á fleiri upplýsingar um Halldór Örn undir nafni. Árið 1997 hlaut hann tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir að stofna lífi og velferð fólks í augljósan háska, fyrir stórfelld eignaspjöll og fleiri brot. Halldór var búinn að greiða eða semja um bótagreiðslur þegar dómur féll og því var hann ekki dæmdur til greiðslu skaðabóta. Fram kemur í dóminum að verknaðinn hafi hann framið mjög ölvaður. Eftir þennan dóm tók Halldór Örn sig taki og hefur lifað reglubundnu og rólegu lífi síðan, að sögn heimildarmanns Mannlífs.

Katrín Kristjánsdóttir. Mynd / Facebook

Katrín – Öflug afrekskona   10,375 % / 7,3-8,6 milljarðar kr.

Katrín Kristjánsdóttir er fædd 1991 og er líkt og eldri systir hennar fyrrum afrekskona á skíðum. Eftir grunnskóla tók hún eina önn á íþróttabraut VMA, en flutti síðan til Noregs þar sem hún fór í skíðamenntaskóla, auk þess að æfa og keppa á skíðum. Árið 2012, 21 árs gömul, lagði hún skíðaskóna á hilluna, á sama tíma og hún bar titilinn Íslandsmeistari í stórsvigi á Skíðamóti Íslands. Katrín átti einnig að baki keppnir í Evrópu- og heimsbikarmótum.
Árið 2013 byrjaði Katrín nám á listnámsbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri, þar sem hún tók áfanga í sjónlistum, fatahönnun og myndlistar- og menningarsögu.
Katrín hefur mikinn áhuga á útivist, en sumarið 2019 gengu hún og kærasti hennar um hálendi og strendur Íslands, alls um 350 km.
Katrín er nýbökuð móðir, en hún eignaðist frumburð sinn í byrjun árs.
Katrín keypti  í 123,3 fm íbúð í fjölbýlishúsi í miðbæ Reykjavíkur, fyrir tæpum tveimur árum, þar sem hún býr með kærasta sínum og barni.

Kristján Bjarni Kristjánsson. Mynd / Facebook

Kristján Bjarni – Með tæknina á hreinu    10,375 % / 7,3-8,6 milljarðar kr.

Kristján Bjarni Kristjánsson er fæddur 1993 og starfar sem rafeindavirki hjá Samherja. Eins og systur hans hefur hann einnig stundað skíðamennsku af kappi, auk þess sem hann hefur áhuga á skíðaíþróttum og snjóbrettum, sjóbrettum og ferðalögum.
Kristján Bjarni útskrifaðist úr tölvunarfræði úr Háskólanum í Reykjavík árið 2017.
Kristján Bjarni og kærasta hans keyptu sér 105,5 fm íbúð í nýju fjölbýlishúsi á Akureyri fyrir rúmu ári, og eignuðust frumburð sinn nú í vor.

Kristján og Kolbrún eiga einnig dótturina Önnu, sem fædd er 1979 og býr hún á sambýli á Akureyri.

Samherjafrændurnir: Kristján, Þorsteinn Már og Þorsteinn. Mynd / Skjáskot DV 11.07.2014 

Saga Samherja

Árið 1983 sömdu Þorsteinn Már Baldvinsson skipaverkfræðingur, Kristján Vilhelmsson vélstjóri og bróðir hans, Þorsteinn Vilhelmsson skipstjóri, um lán hjá Landsbankanum til að kaupa Samherja, útgerðarfyrirtæki í Grindavík sem var yfirveðsett og nær gjaldþrota. Með í kaupunum fylgdi ryðkláfurinn Guðsteinnn GK sem lá í Hafnarfjarðarhöfn. Þeir breyttu togaranum í frystitogara og nefndu hann Akureyrina. Þorsteinn varð skipstjóri, Kristján vélstjóri og Þorsteinn Már sá um útgerðina í landi. Þar með hófst stærsta útgerðarævintýri Íslendinga frá upphafi og grunnurinn var lagður að stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, og einu af þeim stærstu í Norður-Evrópu. Sem forgjöf fengu Samherjafrændur svokallaðan skipstjórakvóta. Veiðireynsla Þorsteins skipstjóra af Kaldbak varð grunnur að kvóta Akureyrinnar EA. Þessi forgjöf var metin á rúmar 500 milljónir króna á þeim tíma. Sú upphæð er nálægt 1,5 milljarði króna að núvirði.

Samstarf frændanna þriggja gekk vel framan af og fyrirtækið blómstraði. Seinna kastaðist í kekki á milli Þorsteins Más og Þorsteins skipstjóra sem seldi hlut sinn og hætti afskiptum af Samherja.

Samherji hf. fer í meginatriðum með innlenda starfsemi, á meðan erlend starfsemi heyrir undir Samherja Holding ehf. Undir Samherja Holding heyrir Sæból fjárfestingafélagið, sem á síðan dótturfélögin Esju Seafood Ltd. og Esju Shipping Ltd. sem héldu utan um hestamakrílveiðar Samherja í Namibíu.

Eitt umtalaðasta fréttamál ársins 2019 var mútumál Samherja í Namibíu

Mútumál í Namibíu – Rannsókn tefst um mánuði vegna COVID-19

Eitt umtalaðasta fréttamál ársins 2019 var mútumál Samherja í Namibíu, en í umfjöllun Kveiks og Stundarinnar kom fram að félög í eigu Samherja hefðu frá árinu 2012 greitt mörg hundruð milljónir króna í mútur til að tryggja fyrirtækinu hestamakrílkvóta í Namibíu. Samherji nýtti sér þá skattaskjól á Marshall-eyjum og á Máritíus í viðskiptum sínum og átti einnig í miklum viðskiptum á lágskattasvæðinu Kýpur. Samherjamálið er enn til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara.

„Málið er bara í rannsókn hjá okkur, úti í Noregi og hjá yfirvöldum í Namibíu. Að öðru leyti get ég afskaplega lítið tjáð mig um málið enda mjög viðkvæmt að gefa út upplýsingar á meðan það er til rannsóknar. Ég neyðist því til að vera dáldið passívur,“ segir Ólafur Þór Hauksson hjá embætti héraðssaksóknara.

„Það hafa vissulega verið tekin skref í rannsókninni. COVID-ástandið hefur tafið fyrir. Við höfum þurft að skipta hópnum upp til að missa ekki alla í sóttkví eða smit og því hefur þetta verið unnið í gegnum fjartengingar og það er alls ekki það sama. Okkur hefur heldur ekki gengið vel að fá fólk inn í yfirheyrslur í málinu, bæði lögmenn og skjólstæðingar þeirra voru tregir að mæta og báru fyrir sig áhyggjur af smiti. Við gátum lítið annað en tekið tillit til þess. Síðan er það líka þannig að landið er lokað og ytri landamæri Schengen harðlokuð og það hefur komið niður á rannsókninni. Það er einfaldlega þannig að þegar leggir rannsóknar liggja til útlanda þá verður það yfirleitt til þess að seinka ferlinu. Mál með erlenda tengingu taka yfrleitt langan tíma. Þá höfum við einnig lánað mannskap í rakningarteymið út af COVID-19. Þannig að þetta ástand hefur tekið dálítinn toll hjá okkur. Við reynum alltaf að sjá fyrir endann á þeim málum sem við byrjum á en hversu nákvæmlega langan tíma þetta tekur er voða erfitt að segja til um. Ég get varla sagt að þetta sé á lokametrunum því það er töluvert verk óunnið sem mun taka tíma að vinna, líklega erum við að tala um mánuði til viðbótar. Þegar rannsókninni lýkur tökum við stöðuna og ákveðum hvert framhaldið verður.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -